„Lagið fjallar um unglingsstelpu og kallaði það á myndband sem gert væri af unglingsstelpu,“ segir tónlistarmaðurinn Benni Hemm Hemm sem sendi nýlega frá sér lagið Ísskápurinn og fékk hina tólf ára gömlu Sigrúnu Æsu Pétursdóttur til þess að gera tónlistarmyndbandið. „Hún er sjúklega klár og mér finnst hún alveg hafa náð tóninum í laginu.“

„Benni er sko vinur mömmu og pabba og hann veit að ég hef haft áhuga á alls konar listum og hann bara spurði mig hvort ég vildi gera tónlistarmyndband fyrir nýja lagið hans,“ segir kvikmyndagerðarkonan unga. „Það var ógeðslega gaman að fá tækifæri til að gera þetta.“

Sigrún Æsa segist hafa notað Samsung-síma til þess að taka myndbandið upp og hafa tekið sér smá tíma til þess að læra á myndavélina. „Svo er mamma klippari og kenndi mér á klippiforritið.“

Leikstjórinn ungi virkjaði foreldra sína við að leita að hugmyndum í texta lagsins. „Mamma og pabbi voru mér innan handar að taka upp og koma með hugmyndir,“ segir Sigrún Æsa sem bar hitann og þungann af framleiðslunni.

Hún segist einnig hafa fengið góð viðbrögð við myndbandinu og útilokar alls ekki að hún muni halda áfram á þessari braut. „Ég var svona mánuð að gera þetta,“ segir Sigrún Æsa sem þurfti að spýta í lófanna þar sem misskilningur olli því að hún hafði minni tíma til stefnu en hún gerði ráð fyrir. „Við gerðum þetta á kvöldin og um helgar og prófuðum alls konar hugmyndir.“