Netverjar hafa grafið upp gamla myndbandsklippu af Meghan Markle, eiginkonu Harrys Bretaprins, eftir að Netflix-sjónvarpssería þeirra hertogahjónanna, Harry and Meghan, hófu göngu sína.

Í öðrum þætti heimildarþáttanna segir Meghan frá fyrstu kynnum sínum af Elísabetu heitinni Bretadrottningu stuttu eftir að þau Harry byrjuðu saman árið 2016. Hún greinir þar frá því að á leiðinni á fund drottningar hafi Harry spurt hana hvort hún kynni að hneigja sig – þ.e. að hneigja sig að siði hefðarkvenna með stuttri hnjábeygju (curtsy). „Ég hélt að hann væri að grínast,“ segir Meghan í þáttunum.

Í viðtalinu í þættinum minntist Meghan þess hvernig hún hneigði sig fyrir verðandi tengdaömmu sinni og sviðsetti hneiginguna fyrir viðmælandann. Túlkun hennar á hneigingunni var með dramatískara móti en þar drúpti hún höfði og baðaði út höndunum. Þessi leikur hennar féll í grýttan jarðveg hjá konungssinnum, sem telja Meghan gera lítið úr minningu drottningarinnar.

Myndbandsbúturinn sem gagnrýnendur Meghan hafa grafið upp er úr sjónvarpsþáttunum Suits, sem Meghan lék í. Í atriðinu sést persóna Meghan hneigja sig með þeim hætti sem rétt hefði verið að gera í ásjónu drottningarinnar.

Gagnrýnendur Meghan telja þetta sönnun þess að hertogaynjan hafi verið að ljúga þegar hún sagðist ekki kunna að hneigja sig með réttum hætti, en hún hafði áður sagt þetta í viðtali við Opruh Winfrey. Óhætt er að segja að margar staðhæfingar hertogahjónanna um drottninguna og konungsfjölskylduna í nýju sjónvarpsþáttunum hafi farið fyrir brjóstið á eldheitum konungssinnum.