Kári er meðal annars fyrrverandi yfirkokkur á hinum margrómaða veitingastað Dilli sem var sá fyrsti á Íslandi til þess að hljóta Michelin-stjörnu og Sólveig er mikill sælkeri og ástríðukokkur. Sólveig og Kári kynntust í Reykjavík fyrir nokkrum árum, en þá var Kári að vinna á Kol Restaurant í Reykjavík og Sólveig vann sem flugfreyja hjá Icelandair. „Við smullum strax vel saman þar sem áhugamál númer eitt hjá okkur báðum var að elda og borða góðan mat. Kári flutti sig svo yfir á veitingastaðinn Dill og vann þar, þar til við fluttum austur á Hérað til að opna okkar eigið veitingahús. Þetta var krefjandi verkefni þar sem frumburðurinn kom í heiminn í byrjun ársins, við fluttum austur í byrjun mars og opnuðum staðinn í byrjun maí,“ segir Sólveig.

Létu sameiginlegan draum rætast

Segðu okkur frá hvernig það kom til að þið fjárfestuð í þessu fallega húsi og opnuðuð veitingastað að nýju.

„Við fundum út úr því fljótt eftir að við byrjuðum saman að við ættum sameiginlegan draum um að eiga okkar eigin veitingastað en okkur langaði samt ekki að vera í Reykjavík. Við erum bæði alin upp úti á landi og fannst mikilvægt að veita okkar eigin börnum þau forréttindi líka. Við vissum að Nielsenshús væri búið að vera til sölu í einhvern tíma og ákváðum í einni helgarferðinni okkar á Egilsstöðum að fá að skoða staðinn. Eitthvað við húsið hreif okkur og við ákváðum bara að grípa tækifærið.“

Veitingahúsið Nielsen stendur á fallegum stað í hjarta bæjarins í reisulegu og fallegu húsi sem fangar augað. Húsið á sér langa sögu. MYNDIR/AÐSENDAR

Mikil saga fylgir húsinu sem er elsta hús bæjarins og byggt árið 1944.

„Húsið var teiknað og byggt af Oswald Nielsen. Oswald var danskur en flutti Íslands og starfaði sem vinnumaður á Egilsstaðabýlinu. Hann fékk þessa lóð úthlutaða þar sem hann byggði hús fyrir sig og Friðborgu konu sína, í dönskum stíl, en húsið var hlaðið og síðar timburklætt, og eitt fegursta hús bæjarins. Í húsinu hefur verið alls kyns starfsemi í gegnum árin en á síðustu árum hefur þar verið veitingastaður.“

Matur úr héraði

Sólveig og Kári gerðu ákveðnar breytingar á húsinu og hafa gert það að sínu.

„Við tókum garðinn og húsið aðeins í gegn, bæði að innan og utan þegar við tókum við því. Sléttum og þökulögðum garðinn, felldum eitt stórt tré til að tryggja meiri sól á pallinn, máluðum húsið að utan og löguðum klæðninguna sem og auðvitað að breyta aðeins inni, mála og gera að okkar. Við erum þó hvergi nærri hætt og ætlum okkur að halda áfram að gera og græja í húsinu þegar meiri tími gefst,“ segja þau Sólveig og Kári og hafa notið þess að vera saman í þessum framkvæmdum.

Nielsen er notalegur veitingastaður í hjarta bæjarins sem býður upp á einstaka matarupplifun úr staðbundnu hráefni sem hefur heillað matargesti upp úr skónum.

Hvernig mynduð þið lýsa áherslum ykkar í matargerðinni?

„Við höfum einbeitt okkur að því að bjóða upp á mat sem er unninn úr staðbundnu hráefni. Við reynum eftir fremsta megni að versla við framleiðendur á Austurlandi og öll hráefnin sem notast er við eru íslensk,“ segir Kári en hann gerir miklar kröfur og velur ávallt besta hráefnið sem völ er á að hverju sinni.

Þegar Kári og Sólveig eru spurð út í sérstöðu sína umfram aðra er svarið á hreinu. „Hún er klárlega sú hvað við setjum okkur strangar skorður með hráefni, ef það er ekki íslenskt eða austfirskt þá notum við það ekki og það er bara svo gaman að sjá hvað er hægt að búa til úr því sem við höfum hér á þessari köldu eyju. Hvernig hægt er að skipta út algengum brögðum fyrir eitthvað úr íslensku hráefni, eitthvað sem kannski er ekki svo augljóst, eins og rabarbari í stað sítrónu og mysa í stað hvítvíns.“

Húsið er gamaldags en notalegt.

Áskorun á landsbyggðinni

Hvernig er að reka veitingastað eins og þennan á Egilsstöðum?

„Veitingarekstur á litlum stöðum úti á landsbyggðinni er held ég þungur fyrir flesta, og sérstaklega þá sem eru ekki með gistingu samhliða, eins og hótel og gistihús. Heimsfaraldurinn sem blossaði svo upp átta mánuðum eftir að við opnuðum hefur svo ekki heldur hjálpað til.

En þetta hefur samt gengið ótrúlega vel og þessi síðustu tvö sumur hafa verið alveg mögnuð, þar sem Íslendingarnir tóku sig til og ferðuðust innanlands. Miklu meira að gera en nokkur þorði að vona. Veitingarekstur og barneignir fara samt ekkert sérlega vel saman og við höfum þurft að púsla mikið og skipta með okkur verkum þegar kemur að rekstrinum og svo heimilishaldi. Yngri strákurinn okkar fæddist 8. júlí síðastliðinn í háönn sumarsins, en það blessaðist allt með ótrúlegu starfsfólki og góðum vinum,“ segir Sólveig og er þakklát fyrir hversu nýjasti fjölskyldumeðlimurinn hefur verið umburðarlyndur við foreldra sína.

Rétturinn sem hefur slegið í gegn og kemur mest á óvart er þessi tómataréttur með skyri, chimichurri og jarðarberjum, að hætti Kára.

Fjölbreytni í matarflóruna

Kári og Sólveig leggja sig fram við að bjóða upp á öðruvísi og árstíðabundnar matarupplifanir. „Við höfum lagt okkur fram við að bjóða upp á alls konar matarupplifanir, bæði til að halda okkur við efnið og fá tilbreytinguna, en líka til þess að veita bæjarbúum og Austfirðingum fjölbreytni í matarflóruna á veturna, því margir veitingastaðir annað hvort loka eða draga saman í rekstrinum yfir vetrartímann.

Við höfum bæði fengið aðra veitingastaði til okkar með svokölluð pop-up, þar sem eldaðir eru valdir réttir frá þeim. En við höfum einnig verið með þemakvöld, þar sem við tökum okkur sjálf til og eldum tælenskt, indverskt, mexíkóskt og svo framvegis. Á aðventunni höfum við haft smurbrauð og snapsa á danska vísu og hefur það notið mikilla vinsælda.“

Einn vinsælasti réttur staðarins er þessi pönnusteikti þorskur með hvítkáli, smjörsósu og hvönn. Kemur bragðlaukunum á flug.