Söluhúsin við Ægisgarð eftir Yrki arkitekta hlutu tilnefningu til Hönnunarverðlauna Íslands 2021, sem er ætlað að varpa ljósi á mikilvægi og gæði íslenskrar hönnunar og arkitektúrs. Söluhúsin eru staðsett við bryggjuna við Reykjavíkurhöfn og hýsa ýmsa hafsækna starfsemi, en þau eru aðallega notuð til að selja miða fyrir hvala-, lunda- og norðurljósaskoðanir sem og aðrar bátsferðir fyrir ferðamenn.

Hönnunarverðlaun Íslands beina sjónum að því besta sem gert er á sviði hönnunar og arkitektúrs á Íslandi um leið og einstaka hönnuðum eða hópum hönnuða er veitt mikilvæg viðurkenning. Það er Miðstöð hönnunar og arkitektúrs sem stendur að Hönnunarverðlaunum Íslands í samstarfi við Hönnunarsafn Íslands, Listaháskóla Íslands, Íslandsstofu og Samtök iðnaðarins.

Í umsögn dómnefndarinnar segir meðal annars að söluhúsin séu „vel heppnuð röð húsa í góðu samtali við umhverfi sitt“ og að þau myndi „fallega og vandaða umgjörð sem heldur vel utan um fjölbreytilega starfsemi og daglegt mannlíf“.

Hugmyndin að skapa heildarmynd

„Verkefnið hófst á því að Faxaflóahafnir leituðu til okkar. Það hafði myndast ákveðin stemning á svæðinu þar sem söluhúsin standa núna og ýmsir aðilar höfðu sett upp litlar byggingar, gáma, og þarna voru alls konar byggingarstílar og viðbætur,“ segir Yngvi Karl Sigurjónsson arkitekt sem tók þátt í hönnun söluhúsanna og hélt utan um verkefnið fyrir Yrki. „Atvinnurekendum á svæðinu leið mjög vel þarna og það hafði skapast frábært andrúmsloft og Faxaflóahafnir vildu gera enn betur með því að samræma allt svæðið og búa til eina stóra heildarmynd, án þess að missa þann sérstaka karakter sem hafði myndast þarna. Við tókum marga fundi með hluthöfum sem leigja af Faxaflóahöfnum og reyndum að koma til móts við alla og skapa eina sterka heildarmynd fyrir allt svæðið, sem var áskorun því að margir aðilar komu að verkefninu.“

Yngvi Karl Sigurjónsson, arkitekt hjá Yrki. MYND/AÐSEND

Innblásið af gamalli götumynd

„Fyrst tók við mikil rannsóknarvinna um hvað höfn er og hvaða hlutverki hún gegnir í borg. Það tók okkur smá tíma að finna hugmynd sem okkur leist vel á. Við byrjuðum að skoða gömlu hafnirnar og kynna okkur byggingar frá því í kringum árið 1800 til dagsins í dag og hvernig skipulagið var þegar verið var að sækja kol úr skipunum og ferja vatn yfir í bátana,“ segir Yngvi. „Þá fórum við að skoða Kolasund, sem er núna port á bak við Hæstarétt og þar fundum við fyrirmynd sem við vildum nota.

Við skoðuðum líka hvernig byggingarmassar hafa þróast á svæðinu og hvaða byggingarmassar eru þegar á því, hvernig þeir líta út og hver samsvörun þeirra er í byggingarsögu, sem og hlutverk þeirra gagnvart höfninni, bátum og hafinu,“ segir Yngvi.

Húsin eru einföld í uppbyggingu en það var mikið lagt í smáatriðin. MYND/GUNNAR SVERRISSON

„Fólk hefur öðruvísi tilfinningu fyrir götu við höfn en venjulegri borgargötu og við vildum sækjast eftir því að gefa fólki þá tilfinningu og að það væri ljóst að þessi hús væru gerð til að sinna höfninni, en bara annars konar hafnarstarfsemi en áður,“ segir Yngvi.

Einföld en mikið um smáatriði

„Áður fyrr labbaði fólk mikið um höfnina og Íslendingar eru hrifnir af því að hafa fallegar bryggjur til að ganga á og geta gengið með fram ströndinni. Við vildum líka búa til líf inni á þessari hafnargötu og gerðum það með því að skjóta kroppum húsanna til hliðar,“ segir Yngvi. „Húsin eru ekki það eina sem fólk sækist í, það sækist líka í pallana á milli húsanna og við vildum að þeir þjónuðu tilgangi rýmisins í heild sinni.

Söluhúsin eru mjög opin og björt. MYND/GUNNAR SVERRISSON

Við skoðuðum líka efni og áferð og reynum að ná fram arkitektónískum smáatriðum með natni í efnisvali, en ekki með því að vera með stæla í framsetningu á efninu,“ segir Yngvi. „Það var bara mjög einföld uppbygging á húsunum og svo unnum við mjög ítarlega í smáatriðum til að þau virki mjög áreynslulaus. Geymsluskúrar voru látnir líkjast gömlu bíslögunum sem voru við hlið húsanna í gamla daga og húsin eru með hálfopin skyggni að framan sem vísa til gömlu rammanna sem voru settir upp við hafnirnar til að þurrka fisk.“

Gott samstarf skilaði góðu verki

„Við erum alveg rífandi stolt yfir tilnefningunni til Hönnunarverðlauna Íslands og þakklát fyrir hana. Eftir alla vinnuna sem er búið að leggja í þetta er rosalega gaman að fá viðurkenningu,“ segir Yngvi. „Ég vona bara að öll þessi rannsóknarvinna til að sækja fyrirmyndir hafi skilað sér og fólk skynji hvað þarna fer fram, jafnvel þó að það þekki ekki sögu hafnarinnar.“

Þessi mynd sýnir húsin sem áður stóðu við Kolasund, en form þeirra varð innblásturinn fyrir söluhúsin við Ægisgarð. MYND/aðsend

Afhending Hönnunarverðlauna Íslands 2021 fer fram þann 29. október í Grósku ásamt málþingi tengt verðlaunum. Yngvi segist spenntur fyrir verðlaunaafhendingunni.

„Já, ég er það,“ segir hann og hlær. „Gríðarlega spenntur og stressaður. En sama hvað gerist erum við bara gríðarlega stolt af því að fá viðurkenninguna sem felst í tilnefningunni.

Þetta verkefni hefði líka aldrei verið svona gott nema við hefðum haft frábæra samstarfsaðila, bæði verkkaupa og þá sem eru að leigja húsin, sem og E. Sigurðsson sem byggði þetta og verkfræðistofurnar Hnit og Verkís sem unnu með okkur,“ segir Yngvi. „Við áttum gríðarlega gott samstarf við alla og Faxaflóahafnir héldu vel utan um verkefnið og eiga sóma skilið fyrir það.“