Það er einstaklega huggulegt og hlýlegt að prýða heimilið með fallegum haustkransi og njóta litadýrðar haustdaganna heima,“ segir Elísa Ó. Guðmundsdóttir, blómahönnuður og eigandi blómabúðarinnar 4 árstíðir.

Elísa segir rakið að njóta fagurrar árstíðarinnar með gönguferðum um litríkt landslagið og tína þar til efnivið í haustkransa og haustskreytingar.

„Nú er rétti tíminn til að viða að sér efnivið úr náttúrunni áður en allt fellur undir. Að hafa augun opin fyrir fallegum laufblöðum, lyngi, berjum og stráum og í raun hverju sem til fellur og gleður augað. Það er sívinsælt er að gera sér hurðarkrans í haustlitunum og margir gera sér haustkransa til að hafa inni við,“ upplýsir Elísa.

Elísa hefur efniviðinn ríkulegan og þéttvafinn í þessum glæsilegu haustkrönsum því kransar eigi það til að rýrna.

Íslensk náttúra sé rík af heillandi efnivið í haustskreytingar.

„Þetta er spennandi föndurefni sem þornar oftast vel, en það er helst greni sem sem getur hrunið af og misst barrnálarnar. Þessi árstíð er svo falleg og það má í raun taka hvað sem er í kransagerðina,“ segir Elísa, sem hefur glöggt auga fyrir samsetningu blómaskreytinga og haustkransa, eins og sjá má á myndunum.

„Best er að vinna kransinn þétt og hafa meira efni í honum en minna, því haustkransar rýrna alltaf aðeins. Þá er fyrir öllu að binda kransana þétt og vinna þá áður en efnið þornar. Þá hrynur minna úr þeim, maður nær betra haldi, útkoman verður góð og kransinn endist lengur.“

Litadýrð haustsins birtist í ótal fögrum smáatriðum náttúrunnar sem yndi er að flétta saman í haustkransa.

Þurrkuð strá nú í tísku

Ef ekki verður komist í kransagerðina strax er gott að varðveita efniviðinn með því að leggja hann í kassa og geyma í kaldri farangursgeymslu bíls yfir nótt.

„Ef lauf sem tínd voru á ferðalaginu eru ekki þegar blaut má hafa svolítinn raka á þeim en í raun dugar kuldinn til og viðheldur öllu fersku og blautu í nokkra daga,“ segir Elísa sem hefur ráð undir rifi hverju þegar kemur að vel heppnaðri kransagerð.

„Fyrst þarf að huga að góðri undirstöðu sem er annað hvort tágahringur, sem margir eiga frá jólum, eða að búa til sitt eigið undirlag úr pappamassa, sem ég geri gjarnan. Þá nýtir maður dagblöð með því að bleyta þau og móta í hring sem maður bindur fast saman.“

Haustkransar eru dásamleg híbýlaprýði utan á útidyrnar sem og inni við.

Elísa heldur áfram:

„Galdurinn við vel heppnaðan krans er vír á rúllu í stað lausra víra. Góð vírrúlla er lykill að góðri endingu og útkomu, en ef maður notar lausa víra er maður alltaf að byrja upp á nýtt, festa þá og ganga frá. Þá verður kransagerðin miklum mun auðveldari ef maður er búinn að klippa niður allt sem nota á í kransinn fyrir fram og hafa tilbúið í kringum sig. Þá þarf maður ekki sífellt að sleppa takinu til að klippa og sækja sér efnivið heldur getur jafnóðum náð í hann og fléttað inn í kransinn. Maður notar svo vírrúlluna til að vefja utan um kransinn, byrjar á að festa vírinn vel á hringinn til að fá gott hald og leggur svo haustlauf, ber, lyng og hvað eina fallegt að eigin smekk og vild yfir vírinn sem maður færir niður og heldur áfram að raða á kransinn þar til hann er tilbúinn,“ útskýrir Elísa.

Hún segir tískustrauma fáa þegar kemur að haustkrönsum.

„Fólk sækist eftir haustlitunum og því sem náttúran gefur af sér á þessum árstíma. Sumir vilja fínlegan krans sem samanstendur eingöngu af laufum og nú eru þurrkuð strá í tísku sem er gnótt af úti og tilvalin í haustkransa. Aðrir kjósa stór ber og skrautlegri kransa og allt er það jafn heillandi, fallegt og móðins.“

Sjáðu 4 árstíðir