Fyrsta jólalagakeppni Borgarbókasafnsins var haldin í nóvember en úrslitin voru tilkynnt í síðustu viku. Við verðlaunaafhendinguna fékk Edda Margrét Jonasdóttir sérstaka viðurkenningu fyrir frumsamið lag sitt sem ber heitið Jólaró, en hún tók það upp með fjölskyldu sinni í hljóðverinu í Borgarbókasafninu í Úlfarsárdal. Edda var átta ára gömul þegar hún sendi lagið inn en varð níu ára í lok nóvember.

Það var móðir Eddu, Guðrún Rútsdóttir, sem sá auglýsingu um keppnina á Facebook-síðu Borgarbókasafnsins og þannig fór boltinn að rúlla. „Edda hefur í rúmt ár verið að semja lög sem við foreldrarnir höfum svo hjálpað henni við að skrifa niður. Ég ákvað án mikillar umhugsunar, og án þess að spyrja aðra fjölskyldumeðlimi, að bóka tíma í hljóðverinu til að taka upp jólalag fyrir keppnina. Ég var viss um að Edda myndi galdra eitthvað fram og að fjölskyldan væri til í að taka lagið upp.“

Edda leikur á klarínett í laginu, Guðrún leikur á básúnu og Jonas Haraldsson, pabbi hennar, spilar á þverflautu. „Svo fengum við Rakel Elaisu Allansdóttur, frænku okkar, til að spila á trompet og Emil Huldar Jonasson bróðir hennar lék á píanó,“ bætir Guðrún við.

Árangurinn kom ekki á óvart

Lagið er án texta enn sem komið er en fjölskyldan er að vinna í því að búa hann til, segir Edda. „Lagið fjallar um rólegheitin um jólin. Þú veist hvað það er rólegt um jólin, svona ahhhh … rólegheit. Þess vegna heitir það Jólaró. Ég samdi helminginn af laginu fyrir síðustu jól. Mamma útsetti það og við spiluðum það á jólatónleikum fjölskyldunnar. Þá spilaði Emil bróðir minn á trompet og pabbi á píanó. Seinni helminginn samdi ég núna í nóvember fyrir keppnina. Þá fengum við Rakel Elaisu frænku mína til að spila á trompet og Emil færði sig á píanóið og pabbi spilaði á þverflautu.“

Hún er ekkert sérstaklega undrandi yfir árangrinum og segir hann ekki hafa komið sér á óvart. „Ég hélt að ég myndi vinna keppnina. Eða þú veist, ég bjóst ekki alveg beint við þessu, en ég hélt samt að ég myndi vinna.“ Lagið Jólaró er ekki fyrsta lagið sem Edda semur. „Ég er búin að semja átta lög allt í allt. Stundum sem ég mörg í röð og stundum ekki neitt í svolítinn tíma.“

Það má sannarlega segja að tónlist sé stór hluti af fjölskyldulífinu. Sjálf spilar Edda á klarínett, píanó og aðeins á trommur. Guðrún spilar á básúnu auk þess sem hún hefur sungið í kór. Jonas hefur lært á píanó og trommur og er sjálflærður á þverflautu og gítar auk þess að syngja í kórum. Emil spilar á píanó og hefur líka lært á trompet og baritónhorn og hefur gaman af að leika sér á trommur.

Jóladagstónleikarnir einn af hápunktum aðventunnar

Aðventan er gengin í garð og nóg að gera hjá fjölskyldunni. „Mér hefur fundist aðventan vera svolítill streituvaldur með öllum sínum hefðum,“ segir Guðrún. „Það er í raun ansi mikil pressa á að maður eigi að gera hitt og þetta og njóta og slaka á að sjálfsögðu líka. Þess vegna reynum við að skipuleggja sem minnst og vera svolítið „spontant“.“

Ómissandi partur af jólabakstrinum er lagkaka sem Guðrún bakar með mömmu sinni og systur og svokallaðar „letisörur“ sem eru bakaðar á heilli plötu og skornar niður í litla bita. „Fyrir utan það fer desember bara meira og minna í að láta allt ganga upp.“

Einn stærsti viðburður aðventunnar eru þó jóladagstónleikar í jólaboði móðurfjölskyldu Guðrúnar. „Tónleikarnir, sem mér reiknast til að séu 36 ára gömul hefð í fjölskyldunni, hófust þegar ég, sem er ein af elstu barnabörnunum, var byrjuð að læra á blokkflautu. Nú eru það barnabarnabörnin ömmu minnar sem eru í miðpunkti og ég sem sé um skipulag. Atriðin geta verið allt frá jólalagasöng ákveðnum á staðnum til lengri verka, enda eru flytjendur á öllum aldri og á öllum getustigum.“

Sænskar jólahefðir í bland við íslenskar

Jonas er sænskur en fjölskyldan bjó um tíma þar í landi. „Ýmsar sænskar jólahefðir hafa fylgt okkur til Íslands,“ segir Jonas. „Á aðventunni reynum við að horfa á sænska jóladagatalið því það er yfirleitt mjög vandað og skemmtilegt. Fjölskyldan hefur einnig oft tekið þátt í Lúsíuhátíðinni með sænska félaginu á Íslandi en félagið heldur stóra Lúsíutónleika með kór og hljómsveit. Eins bökum við lúsíubollur á aðventunni og svo er lítil lúsíulest partur af jólaskrautinu okkar.“

Í huga Guðrúnar er sænskur jólamatur kjötbollur og pylsur, sem er að hennar sögn líka páskamaturinn og midsommarmaturinn ef út í það sé farið. „Hápunkturinn eru svo þegar fjölskyldan horfir saman á stuttar klippur úr gömlum Disney teiknimyndum kl. 15 á aðfangadag en sömu klippur eru sýndar ár eftir ár. Það er eini fasti tímapunkturinn. Hvenær borðað er og pakkar opnaðir er svo algjörlega opið.“

Eftirrétturinn á aðfangadag er svo kryddappelsínur. „Ég veit svo sem ekki hversu sænskt það er en uppskriftin kemur alla vega með okkur frá Svíþjóð,“ segir Guðrún. „Þetta eru appelsínur í sykurlegi sem er kryddaður með saffran, negulnöglum, kanilstöngum og stjörnuanís. Þetta er svo borið fram með vanilluís og rjóma. Verður ekki jólalegra ef þú spyrð mig!“