Ísraelska leik­konan Gal Gadot, sem þekktust er fyrir að leika hlut­verk Wonder Woman, rifjar upp hegðun leik­stjórans Joss Whedon við tökur á Justice Leagu­e í nýju við­tali við ELLE. Hún segist hafa verið „í á­falli“ vegna fram­göngu hans.

Gadot segir að Whedon hafi hótað því að rústa ferli hennar á setti myndarinnar árið 2017. „Ef ég geri eitt­hvað, muni hann tryggja að ferilinn minn verði hræði­legur og ég tókst á við þetta á staðnum,“ segir hún um upp­á­komuna.

„Ó, ég skalf eins og hrísla í vindi um leið og þetta gerðist. Og ég verð að segja, yfir­menn Warner Bros., þeir fóru í málið...Fyrir þá rétt­lætis­kennd sem ég hef...þá svimar þig því þú getur ekki trúað því að þetta hafi verið sagt við þig. Og ef hann segir þetta við mig, þá er aug­ljóst að hann segir þetta við marga aðra,“ segir leik­konan. „Ég gerði bara það sem ég taldi mig þurfa að gera. Og það var að segja fólki að þetta er ekki í lagi.“

Gadot í hlut­verki Wonder Woman.
Mynd/Flickr

„Hefði hann sagt það sem hann sagði við mig ef ég væri karl­maður? Ég veit það ekki. Við munum aldrei vita það. En rétt­lætis­kennd mín er mjög sterkt. Ég var í losti yfir því hvernig hann talaði til mín. En hvað um það, þetta er búið. Gleymt og grafið.“

Með­leikari Gadot í Justice Leagu­e, Ray Fisher, ræddi fram­komu Whedon í sinn garð í við­tali við Hollywood Reporter í apríl og bar honum ekki vel söguna. Þá gaf Gadot frá sér yfir­lýsingu þar sem hún sagði að hún hefði einnig átt í vand­ræðum með leik­stjórann.

Tals­maður Whedon svaraði ekki fyrir­spurn Peop­le er leitað var til hans vegna málsins.

Ray Fisher.
Fréttablaðið/Getty