Leikhús
Ex
eftir Marius von Mayenburg
Þýðing: Bjarni Jónsson
Leikstjóri: Benedict Andrews
Leikarar: Nína Dögg Filippusdóttir, Gísli Örn Garðarsson, Kristín Þóra Haraldsdóttir og Sesselja Katrín Árnadóttir
Leikmynd og búningar: Nina Wetzel
Lýsing: Björn Bergsteinn Guðmundsson
Tónlist: Gísli Galdur Þorgeirsson
Hljóðhönnun: Gísli Galdur Þorgeirsson og Aron Þór Arnarsson
Ex, annar hluti þríleiksins eftir Marius von Mayenburg, ratar nú á Stóra sviðið í Þjóðleikhúsinu ríflega mánuði eftir frumsýningu
fyrsta hluta. Leikhús Reykjavíkur og víða bjóða upp á sviðslistahlaðborð um þessar mundir. En í frumsýningarveislu síðastliðinna vikna geymdi Þjóðleikhúsið besta réttinn þar til síðast.
Sama stofan, sami sófinn, þrjár nýjar manneskjur. Við erum stödd á borgaralegu heimili hjónanna Daníels og Sylvíu sem njóta þess að grafa undan hvort öðru og sviðsetja valdabaráttu með öráreiti. Óvænt heimsókn setur hjónaband þeirra undir smásjána. Persónurnar spóla svolítið í sama hjólfarinu en afhjúpunin ristir djúpt. Leiktextinn er afar snjall, samræður fara í spírölum kringum umræðuefnið, taka óvænta sveiga og svo allt í einu smellhittir setning beint í mark. Slíkan texta geta fáir ráðið við, hvað þá í tvo klukkutíma samfleytt, en leikhópur Ex er í úrvalsgæðaflokki.
Angist miðaldra manns
Daníel kemur heim eftir venjulegan vinnudag, uppgefinn og vill helst láta sjá um sig, elda fyrir sig og þjónusta. Gísli Örn tekur sér tíma til að ganga inn í hlutverkið en nær svo heljartaki. Hann hlustar vel en er samtímis fjarlægur. Hápunkturinn er tilvistarkreppueinræða Daníels, angist hins miðaldra manns, sem er þjakaður af lamandi fortíðarþrá um samband sem átti sér líklega enga framtíð. Eins og hann sé fórnarlamb aðstæðna eða samfélagsins en ekki fullorðinn maður með ábyrgð og val. Ástin er auðveld þegar skuldbindingarnar eru engar. Samband tekur þrjú ár að verða raunverulegt, á meðan er það rómantísk gamanmynd, til að umorða brandara úr franskri sjónvarpsþáttaröð.
Fáir eru betri en Kristín Þóra Haraldsdóttir þegar kemur að því að leika konur sem eru vonsviknar, sífellt leitandi að hinu fullkomna lífi sem í þeirra huga er ekki bundið við starfsferil eða stétt heldur ást. Á einhverjum tímapunkti staðnaði Fransiska í lífinu og þroska sem Kristín Þóra kemur til skila með saklausu augnatilliti og almennu skilningsleysi, sem er bráðfyndið og harmrænt. Augnablikið þegar raunveruleikinn rennur upp fyrir Fransisku er átakanlegt, gert í þunnu hljóði, eins og allt loft leki úr henni.

Sviðin jörð
Af og til koma hlutverk til leikara á hárréttum tíma, eins og þau séu sköpuð fyrir þeirra hæfileika. Nína Dögg Filippusdóttir fékk Sylvíu og átti líklega eitt besta kvöld ævi sinnar á leiksviði þetta frumsýningarkvöld. Sylvía er kona sem veit nákvæmlega hvað hún vill og tekur það sem hún telur sér ætlað. Nína Dögg er köld og funheit til skiptis, klámfengin og settleg, nístandi fyndin og tragísk. Stundum gustaði hreinlega af henni og nánast nauðsynlegt að ríghalda í sætin til að fjúka ekki út úr salnum. Slíkur var krafturinn, áhrifin og berskjöldunin. Lokaræða Sylvíu er nákvæmlega eins og persónan lýsir sjálf, slátrun. Eftir stóð sviðin jörð.
Listræna teymið er hið sama og í fyrri sýningunni, saman sett af fagfólki sem skilur að leikrit á borð við Ex þarf ekki skraut heldur listrænan og lágstemmdan stuðning. Leikmynd Ninu Wetzel og búningar standa fyrir sínu, silki tekst á við illa sniðinn útsölufatnað. Tónlist Gísla Galdurs kraumar undir yfirborðinu eins og fljótandi hraun sem þrýstist upp á yfirborðið, hljóðmyndin sem hann vinnur með Aroni Þór hefur sömu áhrif. Lýsing Björns Bergsteins leiftrar í takt við framvinduna og síðasti rammi Ex er listaverk.
Baneitrað og bráðfyndið
Benedict Andrews nálgast Ex með sömu aðferðum og Ellen B. Hann leyfir textanum að njóta sín og setur fókusinn á persónur leikverksins en finnur rétt augnablik til að brjóta upp stofudramað, splundra fjórða veggnum og minna áhorfendur hressilega á að þeir eru staddir í leikhúsi. Augnablikið þegar Nína birtist úti í sal undir lok leiks er einstaklega vel útfært, áhorfendur vita ekki hversu lengi hún hefur verið að hlusta á eiginmann sinn argast út í ímyndað óréttlæti heimsins. Sömuleiðis eru atriðin með Betu, dóttur hjónanna, áferðarfögur og áhrifamikil áminning um bæði sakleysi barna og ábyrgð foreldra.
Ex er svo sannarlega ekki rómantísk gamanmynd eða frönsk kvikmynd þar sem konurnar taka að lokum höndum saman, segja feðraveldinu stríði á hendur og kvöldstundin leysist upp í lesbíska orgíu, eins og ein persónan segir. Hér er á ferðinni baneitruð og bráðfyndin aðför að menntuðu millistéttinni, miðaldrakrísu og fortíðarþrá. Nína Dögg, Gísli Örn og Kristín Þóra grípa leikverk Meyenburg með báðum höndum, smjatta á textanum og snúa áhorfendur niður með aðstoð frábærrar leikstjórnar.
Niðurstaða: Ekki missa af. Kaupið miða. Strax.