Tugthúsið er söguleg skáldsaga. Í slíkum verkum er sögulegu tímabili fylgt, í þessu tilviki er mikið vitnað í bréf, dagbækur og skýrslur af ýmsu tagi, en atvik eru tengd með skáldskap, gjarnan tilgátum sem brúa bil milli heimilda, eða þá að getið er í stærri eyður sögunnar.
Í Tugthúsinu er mikið af tilvitnunum í skjöl sem virðast raunverulegar heimildir og eru það líklega oftast, en slík skjöl er hins vegar líka hægt að semja. Stundum segir sögumaður beinlínis að hann gruni hitt og þetta en geti ekki verið viss.
Efnistökin til fyrirmyndar
Það er mögnuð hugmynd hjá Hauki Má að nota tugthúsið sem burðarás þessa ritverks. Hann hvikar aldrei frá þeirri ætlun sinni og stéttvísin bregst honum ekki. Bókin er samfelld raunasaga fátæks fólks sem var fangelsað, barið til bana og svelt í hel.
Glæpir almennings voru oftast að taka mat ófrjálsri hendi þegar menn voru að dauða komnir. Fólk fjölgaði sér stöku sinnum án leyfis og það vildi ferðafrelsi. „Réttvísin“ svokallaða sat um þetta fólk, níddist á því, drap það viljandi og hélt því frá kjötkötlunum með öllum hugsanlegum ráðum. Í ljósi tugthússögunnar birtist svo viðbjóðsleg yfirstétt að hroll hlýtur að setja að venjulegu fólki. Efnistök Hauks Más eru til fyrirmyndar í því sem að þessu lýtur.
Nokkrir veikleikar eru á frásagnartækni. Í verkinu er sögumaður sem er mjög laustengdur verkinu og gerð þess. Hann hefði þurft að „semja“ miklu betur. Það er nokkuð algengt í sögunni að umræðuefni fara af stað án þess að lesandi fái að vita hver talar eða hvað er að gerast, nafnafjöldi er mikill og mörgum sögum fer fram í senn, mismikilvægum og hægt hefði verið að stytta. Þetta breytir ekki því að hér er einstæð ritsmíð á ferð og einmitt þess vegna hefði útgefandinn átt að leggja vinnu í ritstjórn og aðstoð við höfundinn.
Það er mögnuð hugmynd hjá Hauki Má að nota tugthúsið sem burðarás þessa ritverks. Hann hvikar aldrei frá þeirri ætlun sinni og stéttvísin bregst honum ekki. Bókin er samfelld raunasaga fátæks fólks sem var fangelsað, barið til bana og svelt í hel.
Kveður við nýjan tón
Skáldsagan Tugthúsið gerist á um það bil hálfri öld, seinni helmingi 18. aldar og aðeins fram á þá 19. Margir hafa skrifað um þetta tímabil, bæði skáldskap og fræðirit, en hér sýnist mér kveða við nýjan tón. Vonandi taka íslenskir sagnfræðingar áskoruninni og fjalla um þessa bók og þá mynd sem hér er dregin upp.
Ég segi fyrir mig að ég hef aldrei haft mikið álit á yfirvöldum þessa tímabils á okkar fagra landi, en að embættismenn hafi upp til hópa verið jafn dæmafá úrþvætti og hér kemur fram, það vissi ég ekki. Sagan endar á hundadögum Jörundar og setur hann í skemmtilegt samhengi við það sem á undan er gengið.
Niðurstaða: Mögnuð lýsing á fátækt og réttleysi Íslendinga á seinni helmingi 18. aldar og við upphaf þeirrar 19. Hagsmunagæslu, fólsku og óþverraskap yfirvalda lýst af hreinskilni.