Tugt­húsið er sögu­leg skáld­saga. Í slíkum verkum er sögu­legu tíma­bili fylgt, í þessu til­viki er mikið vitnað í bréf, dag­bækur og skýrslur af ýmsu tagi, en at­vik eru tengd með skáld­skap, gjarnan til­gátum sem brúa bil milli heimilda, eða þá að getið er í stærri eyður sögunnar.

Í Tugt­húsinu er mikið af til­vitnunum í skjöl sem virðast raun­veru­legar heimildir og eru það lík­lega oftast, en slík skjöl er hins vegar líka hægt að semja. Stundum segir sögu­maður bein­línis að hann gruni hitt og þetta en geti ekki verið viss.

Efnis­tökin til fyrir­myndar

Það er mögnuð hug­mynd hjá Hauki Má að nota tugt­húsið sem burðar­ás þessa rit­verks. Hann hvikar aldrei frá þeirri ætlun sinni og stétt­vísin bregst honum ekki. Bókin er sam­felld rauna­saga fá­tæks fólks sem var fangelsað, barið til bana og svelt í hel.

Glæpir al­mennings voru oftast að taka mat ó­frjálsri hendi þegar menn voru að dauða komnir. Fólk fjölgaði sér stöku sinnum án leyfis og það vildi ferða­frelsi. „Rétt­vísin“ svo­kallaða sat um þetta fólk, níddist á því, drap það viljandi og hélt því frá kjöt­kötlunum með öllum hugsan­legum ráðum. Í ljósi tugt­hús­sögunnar birtist svo við­bjóðs­leg yfir­stétt að hroll hlýtur að setja að venju­legu fólki. Efnis­tök Hauks Más eru til fyrir­myndar í því sem að þessu lýtur.

Nokkrir veik­leikar eru á frá­sagnar­tækni. Í verkinu er sögu­maður sem er mjög laus­tengdur verkinu og gerð þess. Hann hefði þurft að „semja“ miklu betur. Það er nokkuð al­gengt í sögunni að um­ræðu­efni fara af stað án þess að lesandi fái að vita hver talar eða hvað er að gerast, nafna­fjöldi er mikill og mörgum sögum fer fram í senn, mis­mikil­vægum og hægt hefði verið að stytta. Þetta breytir ekki því að hér er ein­stæð rit­smíð á ferð og ein­mitt þess vegna hefði út­gefandinn átt að leggja vinnu í rit­stjórn og að­stoð við höfundinn.

Það er mögnuð hug­mynd hjá Hauki Má að nota tugt­húsið sem burðar­ás þessa rit­verks. Hann hvikar aldrei frá þeirri ætlun sinni og stétt­vísin bregst honum ekki. Bókin er sam­felld rauna­saga fá­tæks fólks sem var fangelsað, barið til bana og svelt í hel.

Kveður við nýjan tón

Skáld­sagan Tugt­húsið gerist á um það bil hálfri öld, seinni helmingi 18. aldar og að­eins fram á þá 19. Margir hafa skrifað um þetta tíma­bil, bæði skáld­skap og fræði­rit, en hér sýnist mér kveða við nýjan tón. Vonandi taka ís­lenskir sagn­fræðingar á­skoruninni og fjalla um þessa bók og þá mynd sem hér er dregin upp.

Ég segi fyrir mig að ég hef aldrei haft mikið álit á yfir­völdum þessa tíma­bils á okkar fagra landi, en að em­bættis­menn hafi upp til hópa verið jafn dæma­fá úr­þvætti og hér kemur fram, það vissi ég ekki. Sagan endar á hunda­dögum Jörundar og setur hann í skemmti­legt sam­hengi við það sem á undan er gengið.

Niður­staða: Mögnuð lýsing á fá­tækt og rétt­leysi Ís­lendinga á seinni helmingi 18. aldar og við upp­haf þeirrar 19. Hags­muna­gæslu, fólsku og ó­þverra­skap yfir­valda lýst af hrein­skilni.