Þrír vinir, Guðmundur, Sif og Hálfdán (Dáni), hittast í drykk og máltíð á TGI Friday’s í Smáralind. Guðmundur hefur nýlega slegið í gegn með grein í The Atlantic og vinirnir vilja nýta tækifærið til að samgleðjast. En Sif og Dáni hafa fleiri fyrirætlanir í pokahorninu og kvöldið tekur óvænta stefnu. Hið ósagða var frumsýnt í Tjarnarbíói í byrjun mánaðar og sýningartíminn er mjög knappur.
Myndlistarmaðurinn Sigurður Ámundason vinnur með fjölbreytta miðla í sinni listsköpun. Hið ósagða er hrærigrautur af hugmyndum og listformum. Hann skrifar hér handritið, leikstýrir og leikur lítið lykilhlutverk. Frá fyrstu augnablikunum verður ljóst að hér er ekki á ferðinni klassískt kvöldverðardrama heldur eitthvað annað, einkennilegra og óþægilegra.
Kómík og tragík
Leikmyndin er með einfaldara móti: borð fyrir máltíðina, lítill bar fyrir afgreiðsluna og stórt tjald baka til. Áhorfendum er síðan kastað beint inn í ameríska ofgnótt neyslusamfélagsins með myndskeiði sem er varpað á tjaldið. Fagurfræði myndbrotanna minnir óneitanlega á tilraunaþríleik Godfrey Reggio og Philip Glass, Koyaanisquatsi, Powaqqatsi og Naqoyqatsi. Líf úr jafnvægi, tæknivæðing neyslunnar og borgaralegt ofbeldi. Aftenging persónanna og firring er síðan undirstrikuð með textanum sem er fyrir fram tekinn upp og leikararnir endursegja með látbragðsleik.
Leiktextinn er undir greinilegum áhrifum frá bandarískum sjónvarpsþáttum á borð við Seinfeld og Arrested Development, þar sem sjálfið er ofar öllu og úlfaldar gerðir úr mýflugum. Útkoman er oftar en ekki kómísk en að sama skapi tragísk. Sigurður gerir afskaplega vel á köflum, samtölin snúast í hringi og fara hvergi en hér eru orðin vopn og status skiptir öllu.

Ungt fólk á uppleið
Guðmundur, Sif og Dáni, leikin af Ólafi Ásgeirssyni, Kolfinnu Nikulásdóttur og Árna Vilhjálms, eru ungt fólk á uppleið og gera fátt í einlægni, eins og virðist vera móðins um þessar mundir. Þau fara á TGI Friday’s í kaldhæðni, panta mat í kaldhæðni og tala saman af kaldhæðni. Þau eru ofurmeðvituð um sinn stað í samfélaginu og sig sjálf. Samskipti þrenningarinnar einkennast af míkróofbeldi og glensi á kostnað annarra. Verkefnið leysa leikararnir alla jafna vel af hendi, finna tengingu sín á milli og skerpa þagnir til að þær skeri djúpt.
Raunverulega kaldhæðnin er sú að þegar öllu er á botninn hvolft skiptir þessi eina grein afskaplega litlu máli í stóra samhenginu, en samfélagsradíusinn nær einungis nokkra millimetra út fyrir nafla þeirra. Inn á þeirra sporbaug sveima síðan táknmyndir í mannslíki: ameríski einfeldningurinn, einlægi háskólaneminn og bugaði fastagesturinn, leikinn af Sigurði, Melkorku Gunborgu Briansdóttur og Kolbeini Gauta Friðrikssyni. Öll eiga þau sín eftirminnilegu augnablik en gaman hefði verið að kynnast þeim örlítið betur. En allt snýst um Guðmund, Sif og Dána, sem eru tilbúin til að gera sér upp tilfinningar og grafa undan öðrum, frekar en að byggja brýr.
Hið ósagða er eftirtektarverð tilraunasýning um ákveðinn samfélagshóp, metorðagjörn merkikerti, en samtímis baneitruð samskipti samtímans.
Forvitnileg og fersk
Hið ósagða er eftirtektarverð tilraunasýning um ákveðinn samfélagshóp, metorðagjörn merkikerti, en samtímis baneitruð samskipti samtímans. Ofgnóttin er alls staðar og í stjórnlausum heimi er freistandi að snúa vörn í sókn, taka stjórn á því litla sem við getum og ná sér niðri á einhverjum, bara einhverjum. Sigurður málar sig svolítið út í horn á lokametrunum og endirinn er þar af leiðandi frekar kraftlaus, en eftir stendur samt sem áður forvitnileg og fersk leiksýning.
Niðurstaða: Hið ósagða flettir ofan af óbærilegum samskiptum og stéttaskiptingu með beittum texta.