Þrír vinir, Guð­mundur, Sif og Hálf­dán (Dáni), hittast í drykk og mál­tíð á TGI Fri­day’s í Smára­lind. Guð­mundur hefur ný­lega slegið í gegn með grein í The At­lantic og vinirnir vilja nýta tæki­færið til að sam­gleðjast. En Sif og Dáni hafa fleiri fyrir­ætlanir í poka­horninu og kvöldið tekur ó­vænta stefnu. Hið ó­sagða var frum­sýnt í Tjarnar­bíói í byrjun mánaðar og sýningar­tíminn er mjög knappur.

Mynd­listar­maðurinn Sigurður Ámunda­son vinnur með fjöl­breytta miðla í sinni list­sköpun. Hið ó­sagða er hræri­grautur af hug­myndum og list­formum. Hann skrifar hér hand­ritið, leik­stýrir og leikur lítið lykil­hlut­verk. Frá fyrstu augna­blikunum verður ljóst að hér er ekki á ferðinni klassískt kvöld­verðar­drama heldur eitt­hvað annað, ein­kenni­legra og ó­þægi­legra.

Kómík og tragík

Leik­myndin er með ein­faldara móti: borð fyrir mál­tíðina, lítill bar fyrir af­greiðsluna og stórt tjald baka til. Á­horf­endum er síðan kastað beint inn í ameríska of­gnótt neyslu­sam­fé­lagsins með mynd­skeiði sem er varpað á tjaldið. Fagur­fræði mynd­brotanna minnir ó­neitan­lega á til­rauna­þrí­leik Godfrey Reggio og Philip Glass, Koya­anisqu­atsi, Powaqqatsi og Naqoyqatsi. Líf úr jafn­vægi, tækni­væðing neyslunnar og borgara­legt of­beldi. Af­tenging per­sónanna og firring er síðan undir­strikuð með textanum sem er fyrir fram tekinn upp og leikararnir endur­segja með lát­bragðs­leik.

Leik­textinn er undir greini­legum á­hrifum frá banda­rískum sjón­varps­þáttum á borð við Sein­feld og Arrested De­velop­ment, þar sem sjálfið er ofar öllu og úlfaldar gerðir úr mý­flugum. Út­koman er oftar en ekki kómísk en að sama skapi tragísk. Sigurður gerir af­skap­lega vel á köflum, sam­tölin snúast í hringi og fara hvergi en hér eru orðin vopn og status skiptir öllu.

Sigurður Ámundason skrifaði, leikstýrði og fer með hlutverk í verkinu Hið ósagða.
Mynd/Brian FitzGibbon

Ungt fólk á upp­leið

Guð­mundur, Sif og Dáni, leikin af Ólafi Ás­geirs­syni, Kol­finnu Niku­lás­dóttur og Árna Vil­hjálms, eru ungt fólk á upp­leið og gera fátt í ein­lægni, eins og virðist vera móðins um þessar mundir. Þau fara á TGI Fri­day’s í kald­hæðni, panta mat í kald­hæðni og tala saman af kald­hæðni. Þau eru ofur­með­vituð um sinn stað í sam­fé­laginu og sig sjálf. Sam­skipti þrenningarinnar ein­kennast af míkró­of­beldi og glensi á kostnað annarra. Verk­efnið leysa leikararnir alla jafna vel af hendi, finna tengingu sín á milli og skerpa þagnir til að þær skeri djúpt.

Raun­veru­lega kald­hæðnin er sú að þegar öllu er á botninn hvolft skiptir þessi eina grein af­skap­lega litlu máli í stóra sam­henginu, en sam­fé­lags­radíusinn nær einungis nokkra milli­metra út fyrir nafla þeirra. Inn á þeirra spor­baug sveima síðan tákn­myndir í manns­líki: ameríski ein­feldningurinn, ein­lægi há­skóla­neminn og bugaði fasta­gesturinn, leikinn af Sigurði, Mel­korku Gun­borgu Brians­dóttur og Kol­beini Gauta Frið­riks­syni. Öll eiga þau sín eftir­minni­legu augna­blik en gaman hefði verið að kynnast þeim ör­lítið betur. En allt snýst um Guð­mund, Sif og Dána, sem eru til­búin til að gera sér upp til­finningar og grafa undan öðrum, frekar en að byggja brýr.

Hið ó­sagða er eftir­tektar­verð til­rauna­sýning um á­kveðinn sam­fé­lags­hóp, met­orða­gjörn merki­kerti, en sam­tímis ban­eitruð sam­skipti sam­tímans.

For­vitni­leg og fersk

Hið ó­sagða er eftir­tektar­verð til­rauna­sýning um á­kveðinn sam­fé­lags­hóp, met­orða­gjörn merki­kerti, en sam­tímis ban­eitruð sam­skipti sam­tímans. Of­gnóttin er alls staðar og í stjórn­lausum heimi er freistandi að snúa vörn í sókn, taka stjórn á því litla sem við getum og ná sér niðri á ein­hverjum, bara ein­hverjum. Sigurður málar sig svo­lítið út í horn á loka­metrunum og endirinn er þar af leiðandi frekar kraft­laus, en eftir stendur samt sem áður for­vitni­leg og fersk leik­sýning.

Niður­staða: Hið ó­sagða flettir ofan af ó­bæri­legum sam­skiptum og stétta­skiptingu með beittum texta.