Við deyjum öll. Við missum öll. En óttinn við missi er stundum sterkari en óttinn við dauðann. Einhver nákominn fellur frá og aðstandendur sitja eftir með stóra holu í tilverunni þar sem manneskjan var áður. Gríma upplifði sáran missi þegar báðir foreldrar hennar létust á innan við ári. Með aðstoð trúðsins og hliðarsjálfsins Jójós segir Gríma áhorfendum frá uppeldisárunum, foreldrum sínum og aðdraganda þessa skelfilega áfalls.
Ekki nægilega dramatísk
Gríma er yngsta barn í stórri og frekar flókinni fjölskyldu. Faðir hennar, Kristján, var ríflega sextugur þegar Gríma fæddist. Óttinn við að missa föður sinn var þannig fasti í lífi Grímu en tilveran er sjaldnast fyrirsjáanleg. Jóhanna, móðir hennar, greindist skyndilega með krabbamein og dó fyrir aldur fram á örskotsstundu.
Trúðurinn Jójó aðstoðar Grímu við að segja sögu sína og takast á við óþægilegar staðreyndir um fjölskyldu sína. Gríma stígur reglulega úr hlutverki Jójós þegar henni finnst eins og trúðurinn hafi gengið of langt. Jójó bregður sér lipurlega í gervi sögupersónanna og finnur húmorinn í átakanlegum aðstæðum. En togstreitan á milli Grímu og Jójós er ekki nægilega dramatísk, hér væri hægt að spenna bogann meira, dýpka átökin og spyrja áleitnari spurninga. Hvernig er að setja sig í hlutverk foreldra sinna? Eða þeirra sem eru ekki lengur meðal okkar? Innan sögunnar leynist einnig átakanleg saga um elliglöp og heilabilun. En titill sýningarinnar er svolítið misvísandi þar sem við sjáum frekar aðdraganda að missi frekar en að skoða ástandið sjálft eftir að dauðinn hefur bankað á dyr.
Áhrifamikill leikstjóri
Áhrif leikstjórans og sviðslistamannsins Rafael Bianciotto hér á landi eru gríðarleg og rannsóknarefni út af fyrir sig. Nú er hann að opna heim trúðsins fyrir nýrri kynslóð og vonandi er þessi sýning byrjunin á nýju trúðatímabili. Hér er ekkert prjál á ferð heldur setur hann sögu Grímu fremst á svið. Hún myndar sterka tengingu við áhorfendur, hræðist ekki mistök og spinnur skemmtilega inni á milli. Þar spilar tónlist og viðvera Þórðar Sigurðarsonar mikilvægt hlutverk. Bæði er tónlistin leikandi skemmtileg og samvinna þeirra tveggja sömuleiðis.
Leikmynda- og búningahönnun Evu Bjargar Harðardóttur er listilega vel gerð og leynir á sér. Hér er smíðaður hinn heilagi hringur á leiksviðinu og í miðjunni situr sessa sem hægt er að túlka sem trúðsnef. Einfalt og eftirminnilegt. Gríma og Jójó taka þó hinn heilaga hring ekki nægilega hátíðlega, að stíga út úr honum eða inn í hann felur ekki í sér nægilega skýra afstöðubreytingu.
Gríma sýnir mikið hugrekki í efnisvalinu og sýningin snertir streng í brjósti en stígur of varlega til jarðar.
Stígur varlega til jarðar
Hvernig er að takast á við missi í daglegu lífi? Þegar þig sárvantar að hringja í gamla vinkonu. Þegar þú þráir að sitja í eldhúsinu hjá ömmu sem kvaddi of snemma. Þegar þú sérð einhvern úti á götu sem minnir þig á manneskju sem er ekki lengur á lífi. Hvað gerist eftir að foreldri fellur frá? Gríma sýnir mikið hugrekki í efnisvalinu og sýningin snertir streng í brjósti en stígur of varlega til jarðar.
Niðurstaða: Gríma og Jójó segja laglega og hnyttilega frá en dansa í kringum kjarna málsins.