Við deyjum öll. Við missum öll. En óttinn við missi er stundum sterkari en óttinn við dauðann. Ein­hver ná­kominn fellur frá og að­stand­endur sitja eftir með stóra holu í til­verunni þar sem manneskjan var áður. Gríma upp­lifði sáran missi þegar báðir for­eldrar hennar létust á innan við ári. Með að­stoð trúðsins og hliðar­sjálfsins Jójós segir Gríma á­horf­endum frá upp­eldis­árunum, for­eldrum sínum og að­draganda þessa skelfi­lega á­falls.

Ekki nægi­lega dramatísk

Gríma er yngsta barn í stórri og frekar flókinni fjöl­skyldu. Faðir hennar, Kristján, var ríf­lega sex­tugur þegar Gríma fæddist. Óttinn við að missa föður sinn var þannig fasti í lífi Grímu en til­veran er sjaldnast fyrir­sjáan­leg. Jóhanna, móðir hennar, greindist skyndi­lega með krabba­mein og dó fyrir aldur fram á ör­skots­stundu.

Trúðurinn Jójó að­stoðar Grímu við að segja sögu sína og takast á við ó­þægi­legar stað­reyndir um fjöl­skyldu sína. Gríma stígur reglu­lega úr hlut­verki Jójós þegar henni finnst eins og trúðurinn hafi gengið of langt. Jójó bregður sér lipur­lega í gervi sögu­per­sónanna og finnur húmorinn í á­takan­legum að­stæðum. En tog­streitan á milli Grímu og Jójós er ekki nægi­lega dramatísk, hér væri hægt að spenna bogann meira, dýpka á­tökin og spyrja á­leitnari spurninga. Hvernig er að setja sig í hlut­verk for­eldra sinna? Eða þeirra sem eru ekki lengur meðal okkar? Innan sögunnar leynist einnig á­takan­leg saga um elli­glöp og heila­bilun. En titill sýningarinnar er svo­lítið mis­vísandi þar sem við sjáum frekar að­draganda að missi frekar en að skoða á­standið sjálft eftir að dauðinn hefur bankað á dyr.

Á­hrifa­mikill leik­stjóri

Á­hrif leik­stjórans og sviðs­lista­mannsins Rafael Bianciotto hér á landi eru gríðar­leg og rann­sóknar­efni út af fyrir sig. Nú er hann að opna heim trúðsins fyrir nýrri kyn­slóð og vonandi er þessi sýning byrjunin á nýju trúða­tíma­bili. Hér er ekkert prjál á ferð heldur setur hann sögu Grímu fremst á svið. Hún myndar sterka tengingu við á­horf­endur, hræðist ekki mis­tök og spinnur skemmti­lega inni á milli. Þar spilar tón­list og við­vera Þórðar Sigurðar­sonar mikil­vægt hlut­verk. Bæði er tón­listin leikandi skemmti­leg og sam­vinna þeirra tveggja sömu­leiðis.

Leik­mynda- og búninga­hönnun Evu Bjargar Harðar­dóttur er listi­lega vel gerð og leynir á sér. Hér er smíðaður hinn heilagi hringur á leik­sviðinu og í miðjunni situr sessa sem hægt er að túlka sem trúðs­nef. Ein­falt og eftir­minni­legt. Gríma og Jójó taka þó hinn heilaga hring ekki nægi­lega há­tíð­lega, að stíga út úr honum eða inn í hann felur ekki í sér nægi­lega skýra af­stöðu­breytingu.

Gríma sýnir mikið hug­rekki í efnis­valinu og sýningin snertir streng í brjósti en stígur of var­lega til jarðar.

Stígur var­lega til jarðar

Hvernig er að takast á við missi í dag­legu lífi? Þegar þig sár­vantar að hringja í gamla vin­konu. Þegar þú þráir að sitja í eld­húsinu hjá ömmu sem kvaddi of snemma. Þegar þú sérð ein­hvern úti á götu sem minnir þig á mann­eskju sem er ekki lengur á lífi. Hvað gerist eftir að for­eldri fellur frá? Gríma sýnir mikið hug­rekki í efnis­valinu og sýningin snertir streng í brjósti en stígur of var­lega til jarðar.

Niður­staða: Gríma og Jójó segja lag­lega og hnytti­lega frá en dansa í kringum kjarna málsins.