Tón­list

Sálu­messa eftir Jakob Buchanan.

Flytj­endur: Ragn­heiður Grön­dal, Club for Five, Ensemble Edge, Cantoqu­e Ensemble, Hilmar Jens­son, Anders Jormin, Magnús Tryg­va­son Eli­as­sen og Jakob Buchanan.

Stjórnandi: Geir Lysne

Hall­gríms­kirkja, Jazz­há­tíð Reykja­víkur

föstu­dagur 19. ágúst

Sagt hefur verið að í fínu lagi sé að koma of seint á tón­leika í Hall­gríms­kirkju. Maður heyri samt fyrstu tónana. Með þessu er verið að vísa í berg­málið í kirkjunni, sem er allt of mikið fyrir á­kveðnar tegundir tón­listar­flutnings. Stórar hljóm­sveitir hljóma ekki vel þar og enn er mér í fersku minni þegar níunda sin­fónía Beet­hovens mis­heppnaðist ger­sam­lega. Hljóm­burðurinn skrum­skældi tón­listina svo að hún varð að ill­skiljan­legum ó­skapnaði.

Requ­iem, eða sálu­messa eftir Jakob Buchanan, sem flutt var á Jazz­há­tíð Reykja­víkur á föstu­dags­kvöldið, var því miður þessu marki brennd. Hljóm­burðurinn bjagaði verkið svo mjög að í rauninni var erfitt að átta sig á gæðum tón­listarinnar.

Bland í poka

Verkið var ein­hvers konar bland í poka, þar brá fyrir Gregor­söng, klassík, djassi og jafn­vel poppi. Djassinn átti þó yfir­höndina; Stór­sveit Reykja­víkur spilaði með kór og ein­söngvara og inn á milli voru svo­kölluð sóló eins og títt er um djassinn.

Kór­textinn var á latínu, hefð­bundin sálu­messa róm­versk-kaþólsku kirkjunnar, sem kórinn söng yfir­leitt af öryggi. Inn á milli voru svo per­sónu­legri hug­leiðingar á ensku um merkingu hvers kafla. Ragn­heiður Grön­dal söng hug­leiðingarnar og gerði það í sjálfu sér á­gæt­lega. Rödd hennar var þýð og mjúk, til­finningin í túlkuninni sann­færandi. Út­koman í heild var dá­lítið annars­heims­leg eins og hún átti væntan­lega að vera. En það var ekki nóg. Allt­of mikil endur­ómun gerði að verkum að maður gat lítið notið söngsins.

Mis­góð sóló

Sólóin komu mis­jafn­lega út. Lúðra­blástur Jakobs Buchanan var óm­þýður en ekki alltaf hreinn. Kontra­bassi Anders Jormin var hins vegar hnit­miðaður og flottur; sömu sögu er að segja um gítar­leik Hilmars Jens­sonar. En trommu­leikur Magnúsar Tryg­va­sonar Eli­as­sen var allt að því fá­rán­legur, sem var vissu­lega ekki honum að kenna. Nei, það var berg­málið sem lét tónana renna saman í drafandi drullu­poll, miður kræsi­legan.

Stór­sveitin spilaði prýði­lega, en aftur var það allt­of mikið berg­mál sem olli því að leikurinn varð að lítt sjarmerandi gný. Sam­spil kórsins og hljóm­sveitarinnar var líka mjög gruggugt.

Fá­brotin um­gjörð best

Eins og áður sagði er erfitt að meta al­menni­lega gæði tón­listarinnar. Hún fékk verð­laun þegar hún kom út á sínum tíma, svo eitt­hvað hlýtur hún að hafa til brunns að bera. Hér kom verkið hins vegar best út þegar um­gjörðin var fá­brotin, bara söngur Ragn­heiðar við undir­spil eins eða tveggja hljóð­færa. Þar voru melódíurnar svo sannar­lega fal­legar og stemningin draum­kennd og ljúf. Því miður voru slíkir kaflar of fáir.

Gaman hefði verið að heyra tón­listina eins og hún var upp­haf­lega hugsuð. Greini­lega voru það mis­tök að flytja hana í Hall­gríms­kirkju; af­hverju varð Harpa ekki fyrir valinu?

Niður­staða: Tón­listin kom afar illa út í allt­of ríku­legum hljóm­burði Hall­gríms­kirkju.