Tón­list

Flói í Hörpu

Tón­list eftir: Inga Bjarna á Djass­há­tíð Reykja­víkur.

Fram komu: Ingi Bjarni, Anders Jormin, Hilmar Jens­son og Magnús Trygvi Eli­as­sen.

Hve­nær: Fimmtu­daginn 18. ágúst.

Rokk­tón­listar­maðurinn spilar þrjá hljóma fyrir þúsund á­heyr­endur, en djassarinn spilar þúsund hljóma fyrir þrjá á­heyr­endur. Þessi brandari er lýsandi fyrir það hve djassinn er miklu þróaðri og fjöl­breyttari en rokkið, en líka hve hið síðar­nefnda er vin­sælt. Brandarinn átti þó ekki við um tón­leika á Djass­há­tíð Reykja­víkur sem haldnir voru í Flóanum í Hörpu á fimmtu­dags­kvöldið. Þar var tals­verður fjöldi á­heyr­enda, og mikil stemning í salnum með á­köfum fagnaðar­látum.

Lista­mennirnir sem fram komu áttu það fylli­lega skilið. Tón­listin var öll eftir píanó­leikarann, sem kallaði sig ein­fald­lega Inga Bjarna. Hann er ungur að árum og undir­ritaður minnist þess ekki að hafa rekist á hann áður í tón­listar­lífinu. Segjast verður eins og er að tón­list hans var sér­lega á­hrifa­mikil. Hún var skemmti­lega frjáls­leg, með grípandi tóna­hendingum og gædd seiðandi stemningu. Fram­vindan í henni kom stöðugt á ó­vart og hljómarnir, kannski ekki alveg þúsund talsins, voru safa­ríkir og spennandi.

Á­huga­verður píanó­leikur

Píanó­leikurinn sjálfur var líka góður. Sum hröðu tóna­hlaupin hefðu kannski mátt vera skýrari og glæsi­legri, en í það heila var spila­mennskan bæði til­finninga­þrungin og vönduð. Á einum tíma­punkti lék Ingi Bjarni fjöl­radda, þ.e. eina lag­línu með annarri hendinni og allt aðra með hinni, en lag­línurnar tvær hljómuðu full­kom­lega saman. Margt fleira á­huga­vert gat að heyra í hrynjandinni í píanó­leiknum, í tón­mótuninni, á­slættinum, stígandinni og lit­brigðunum. Þetta var flott.

Eins og títt er um djassinn þá var tölu­vert leikið af fingrum fram, og það var ferskt, jafn­vel hnyttið, og alltaf at­hyglis­vert. Gamla kempan frá Sví­þjóð, Anders Jormin á kontra­bassa, var frá­bær. Hann hristi alls konar blæ­brigða­ríkar strófur fram úr erminni, aðal­lega plokkaðar, en líka með boga. Rödd bassans var skemmti­lega rám og hrá, en aldrei þannig að það kæmi niður á gæðunum.

Sum hröðu tóna­hlaupin hefðu kannski mátt vera skýrari og glæsi­legri, en í það heila var spila­mennskan bæði til­finninga­þrungin og vönduð.

Unaðs­legur sam­hljómur

Hinir hljóð­færa­leikararnir voru líka magnaðir. Trommu­leikur Magnúsar Tryg­va­son Eli­as­sen var ein­hver sá besti sem heyrst hefur á ís­lenskum djass­tón­leikum. Leikur hans var snarpur, en jafn­framt fullur af smitandi létt­leika. Út­koman var klið­mjúk og lifandi, og rann ein­stak­lega fal­lega saman við leik hinna hljóð­færa­leikaranna.

Hilmar Jens­son á gítar var sömu­leiðis fram­úr­skarandi. Spila­mennska hans var glitrandi og á­leitin í senn, ýmist á­ferðar­fögur eða fram­úr­stefnu­leg og til­rauna­kennd, en aldrei þannig að það skemmdi heildar­svipinn. Enga til­gerð var þar að finna.

Og talandi um heildar­myndina þá var hún svo vel sam­stillt og jafn­vægið í hljóð­kerfinu það gott að vart er hægt að gera betur. Fjór­menningarnir léku sem einn maður, líkt og þeir hefðu gert það árum saman. Þetta var snilld.

Niður­staða: Inn­blásin tón­list, inn­blásin spila­mennska.