Málshátturinn segir að heilt þorp þurfi til að ala upp barn. Sem er satt. En sama þorp getur sömuleiðis hrakið barnið á brott. Sérstaklega ef um er að ræða ungling sem fer sínar eigin leiðir. Prinsinn er byggður á reynslu Kára Viðarssonar sem unglings og var nýlega frumsýndur í Frystiklefanum á Rifi. Tjaldað var til einnar sýningar í Kassa Þjóðleikhússins áður en sýningin heldur aftur út á land. Prinsinn mun síðan snúa aftur á mölina með haustinu.

Einn góðan veðurdag rétt upp úr síðustu aldamótum eru vinirnir Kári og Bjöggi á leiðinni í Spútnik. Kári fær símtal í GSM-símann sinn úr GSM-símanum hennar Tinnu, sem var ekkert grín þegar inneignin var gulls ígildi og símtölin rándýr. Tinna tilkynnir Kára að hún sé ólétt og að hann sé pabbinn en þau áttu eina nótt saman eftir sjómannadagsball í sjávarplássinu. En ekki er allt sem sýnist og símtalið er einungis byrjunin á langri þroskasögu.

Kári er nefnilega að verða pabbi og þær fréttir fá hann til að rifja upp reynslu sem hafði mikil áhrif á hann. Allir eru aðalpersónur í sínu eigin lífi og staðsetur Kári sig sem miðpunkt sögunnar. En með sjálfsskoðun og samræðum við aðra sem að málinu koma reynist sannleikurinn vera flókið fyrirbæri, sérstaklega tuttugu árum eftir atburðinn. Kári gerir vel í hlutverkinu og leggur hjartað á borð fyrir áhorfendur.

Eftirtektarverð leikkona

Kára til halds og trausts er besti vinur hans Bjöggi leikinn af Sverri Þór Sverrissyni. Hlutverkið leysir hann vel en frammistaða hans í hlutverki Reynis Bjarka er eftirtektarverð. Áhorfendur eru hvattir til að horfa á Reyni Bjarka sem hrotta, sem hann vissulega virðist vera, en Sverrir Þór kemur til skila undir lok sýningar að allir hafa sinn djöful að draga.

Hver saga getur nefnilega átt sér fleiri en einn miðpunkt og er Tinna hinn póllinn í sögunni. Birna Pétursdóttir flaug fram á sjónarsviðið í Benedikt búálfi á Akureyri og sannar að hér er á ferðinni eftirtektarverð leikkona. Hún fangar listilega örvæntingu unglingsstelpu sem er að troða marvaðann í eigin lífi, full sjálfstrausts um að hún sé fullorðin en algjörlega reynslulaus. Átakanlegt er að horfa á hana berjast fyrir sjálfstæði sínu í heimi fullorðinna sem eru alltaf tilbúnir með sleggjudóma.

Tinnu til halds og traust er besta vinkona hennar Sandra, leikin af Sólveigu Guðmundsdóttur. Hún hefur verið á mjög fínni vegferð á síðastliðnum árum og sýnir hér í hverju gæði hennar felast. Sandra er sakleysið uppmálað en að sama skapi hörð í horn að taka. Það er þó í hlutverki mæðra þeirra Kára og Tinnu sem Sólveig undirstrikar hæfileika sína. Mjög ólíkar konur að upplagi sem Sólveig gerir mjög góð skil, bæði göllum þeirra og kostum.

Mikilvæg áminning

Á síðastliðnum árum hefur leikstjórinn María Reyndal sérhæft sig í sjálfsævisögulegum leikritum, verkum byggðum á raunverulegri reynslu eða hversdagslegum raunveruleika líkt og í Upphafi sem sýnt var í Kassanum fyrir tveimur árum. Hún heldur sýningunni lifandi og persónulegri. Hér er ekki verið að finna upp hjólið og handritið er stundum svolítið þunglamalegt. En María sýnir persónum verksins alúð. Þó hefði mátt sleppa ferðalagi Söndru í gegnum áhorfendasætin.

Prinsinn er farandsýning og hönnunin endurspeglar þörfina fyrir færanlega leikmynd. Guðný Hrund Sigurðardóttir og Egill Ingibergsson hanna leikmyndina skynsamlega. Áhugavert væri að sjá Prinsinn í öðru leikhúsi en Kassanum var skemmtilega umbreytt til að henta sýningunni. Áhorfendur sátu hverjir á móti öðrum og leikið var þvert á sviðið. Margt heppnaðist ágætlega í búningahönnun Guðnýjar Hrundar en tímabilsbúningar eru afskaplega flókið verkefni. Þar má helst nefna Adidas-skó strákanna, sólgleraugun og skopparastemninguna. Þó var Nokia-símanna saknað en það gæti bara verið nostalgía.

Úlfur Eldjárn semur og tók væntanlega þátt í að velja tónlistina fyrir Prinsinn. Hljómheimurinn er fínasta blanda af slögurum frá tímabilinu og nýjum tónum. Aftur á móti er frumsamda lagið, Prinsinn, óþarfi. Þrátt fyrir ágætan texta Vigdísar Hafliðadóttur og fallega laglínu þá passar lagið illa inn í sýninguna, leiksýningar þurfa ekki titillög.

Á heildina litið er Prinsinn betri sýning fyrir þær spurningar sem hún ber á borð heldur en endilega innihaldið. Heimurinn sem birtist áhorfendum þyrfti að vera skýrari og handritið örlítið sterkara. En Prinsinn er mikilvæg áminning um hversu erfitt það er að vera ungur, hvað sannleikurinn er hverfull og að aldrei skuli afskrifa neinn. ■

Niðurstaða: Prinsinn er hin fínasta farandsýning og vekur upp margar forvitnilegar spurningar.