Leik­hús

Jesú er til, hann spilar á banjó

Hákon Örn Helga­son

Tjarnar­bíó

Leik­stjóri og flytjandi: Hákon Örn Helga­son

Leikarar: Almar Blær Sigur­jóns­son, Andrés Pétur Þor­valds­son, Arnór Björns­son, Jökull Smári Jakobs­son og Stefán Þór Þor­geirs­son

Dramatúrg: Magnús Thor­la­cius

Leik­mynda­hönnun: Rakel Andrés­dóttir

Tón­list: Ins­pector Spacetime

Leik­árið er hafið! Þá er við­eig­andi að kíkja í Tjarnar­bíó og sjá hvað fram­tíðin ber í skauti sér. Einn góðan veður­dag er Hákon Örn Helga­son á barmi ör­væntingar í Vestur­bæjar­laug. Hann er á bóla­kafi í lang­tíma­bömmer þegar ljúfir banjó­tónar svífa allt í einu yfir vötnum sund­laugarinnar. Á for­láta bekk situr maður, sem minnir hann á Jesú, í gulri sund­skýlu og spilar á banjó. Hákon upp­ljómast allur. Hver er þessi maður? Af hverju er hann þarna? Finnst manninum þetta ekkert vand­ræða­legt? Hákon kann ekki við að nálgast tón­listar­manninn, sér síðan strax eftir því og á­kveður að hefja rann­sókn á málinu.

Hákon Örn er höfundur, leik­stjóri og aðal­flytjandi verksins sem var út­skriftar­verk­efni hans frá Sviðs­höfunda­braut Lista­há­skóla Ís­lands síðast­liðið vor. Sumir þekkja hann kannski sem með­lim í hinum vin­sæla uppi­stands­hópi VHS eða spuna­hópnum Improv Ís­land. Hér er á ferðinni endur­leikin minning, til að nota hans orð, og svamlar sýningin á mörkum ýmissa list­forma. Uppi­stand, leik­sýning, tón­leikar, rann­sókn …

Leik­hús sem rann­sóknar­stofa

Rann­sóknir af öllu tagi eru vin­sælar hjá yngra lista­fólkinu um þessar mundir þar sem sviðs­lista­formið er teygt og togað til að skoða hin ýmsu mál­efni, svo sem eitraða karl­mennsku, þá ó­lík­legu hluti sem fólk geymir í geymslum og sjálfið. En spyrja má hvort leik­sviðið hafi ekki alltaf verið rann­sóknar­stofa fyrir mann­legt eðli. Þarf að skil­greina og setja sviðs­listina fram á þennan máta?

Hákon reynir að snúa upp á væntingar á­horf­enda í þessum rann­sóknar­leið­angri með því að brjóta fjórða vegginn, mis­takast og taka sjálfan sig ekki of al­var­lega. Að svið­setja sjálfið er tækni sem þarfnast reynslu og þekkingar, ekki ein­göngu vett­vangur til að flagga öllu því sem þér liggur á hjarta hverju sinni. Nálgunin hér ber vott af yfir­borðs­kennd og kald­hæðni þar sem ekkert er tekið al­var­lega, ekki einu sinni sýningin sjálf. Því fylgir á­kveðin upp­gerð sem birtist í fram­setningu og leik­stjórn, þó er húmorinn aldrei langt undan.

Jesú er til, hann spilar á banjó ber með sér nem­enda­brag sem er ekki ó­eðli­legt eða af hinu slæma. Ungt lista­fólk þarf and­rými til að prufa sig á­fram í list­sköpun sinni, leik­hús­gestir eru hvattir til að fylgjast með.

Upp­rennandi sviðs­lista­fólk

Almar Blær og Andrés Pétur eru Hákoni til halds og traust á sviðinu. Þeir eru sömu­leiðis að stíga sín fyrstu skref á at­vinnu­leik­sviði, með við­komu í Þjóð­leik­húsinu og Borgar­leik­húsinu á síðasta leik­ári. Við­vera þeirra á sviði er með á­gætum en ein­kennist ein­mitt af ofan­greindri upp­gerð sem má skrifa á leik­stjórnina og dramatúr­ginn. Leyni­vopn sýningarinnar er þó hinn geð­þekki Andre Negri­er, ó­væntur og heiðar­legur and­vari inn í ó­grundaðan heim.

Rakel Andrés­dóttir hannar leik­myndina og vonandi fáum við að sjá meira frá henni á leik­sviðinu. Hönnunin ber með sér skemmti­leg ein­kenni naí­v­isma og naum­hyggju, einkar vel heppnuð. Egill Gauti Sigur­jóns­son, Vaka Agnars­dóttir og Elías Geir Óskars­son, betur þekkt sem hljóm­sveitin Ins­pector Spacetime, sjá síðan um tón­listina sem er hressandi við­bót en van­nýtt.

Jesú er til, hann spilar á banjó ber með sér nem­enda­brag sem er ekki ó­eðli­legt eða af hinu slæma. Ungt lista­fólk þarf and­rými til að prufa sig á­fram í list­sköpun sinni, leik­hús­gestir eru hvattir til að fylgjast með. List­ræna veg­ferðin er löng og strembin, þá er samt ekki nóg að leita til á­horf­enda fyrir upp­klapp heldur þarf að líta í eigin barm og skoða hvað skal gefa þeim.

Niður­staða: Sveimandi hug­leiðingar og góð­lát­legt grín ein­kenna sýningu sem þarf list­ræna jörð.