Oft hefur verið gert grín að tón­list Philips Glass, því hún er svo endur­tekningar­söm. Ég held að tón­list hans sé að ein­hverju leyti inn­blásin af því að hann starfaði sem leigu­bíl­stjóri um tíma. Sí­byljan í tón­list hans minnir á um­ferðarnið, sem hefur róandi á­hrif. Það sama heyrist aftur og aftur, en samt er þar fram­vinda sem oftar en ekki er af­skap­lega seiðandi, jafn­vel dá­leiðandi. Tón­listin er gjarnan angur­vær, en í henni er líka undar­leg birta.

Allt það besta við tón­list Glass mátti heyra í Mad Rush frá árinu 1979, sem Andrew J. Yang píanó­leikari spilaði í Kalda­lóni á fimmtu­dags­kvöldið í síðustu viku. Tón­leikarnir voru for­leikur há­tíðar sem haldin verður næsta sumar og kallast Píanó­há­tíð Ís­lands. Tón­listin var í­hugul og dá­lítið nostalgísk, og Yang lék hana for­kunnar­vel. Leikur hans var öruggur og ná­kvæmur, fullur af til­finningum og há­punktarnir í tón­listinni voru magnaðir. Smá­gerð blæ­brigði voru fal­lega út­færð, á­slátturinn var fágaður, allt að því draum­kenndur: akkúrat eins og hann átti að vera.

Míníma­listarnir slógu í gegn

Glass er míníma­listi, sem þýðir að tón­list hans er byggð upp af litlum, sí­endur­teknum hendingum sem saman mynda stóra heild. Dóm­kirkja úr ó­teljandi smáum múr­steinum er kannski ágæt sam­líking; margt smátt gerir eitt stórt.

Annar míníma­listi, Ste­ve Reich, átti líka flott at­riði á tón­leikunum. Þetta var Piano Coun­ter­point, en þar lék Myung Hwang Park á píanóið við upp­töku af píanó­leik sem spiluð var úr há­talara á sviðinu. Tón­listin var mjög líf­leg og takt­föst, og Park lék sitt hlut­verk full­kom­lega. Allar nótur voru á sínum stað og hrynjandin var stöðug og akkúrat. Út­koman var einkar skemmti­leg.

Já­kvæðar bar­smíðar

Þessi tvö at­riði voru há­punktur tón­leikanna. Einnig var þó gaman að þremur pre­lúdíum eftir Gers­hwin í flutningi Y­angs, en þar á meðal var söng­lagið The Man I Love sem Per­cy Grain­ger út­setti.

Grain­ger var nokkuð for­vitni­legur, hann var ástralskur píanó­leikari og tón­skáld, og sadóma­sókisti. Honum fannst kyn­lífið með konunni sinni ekki spennandi nema þau lemdu hvort annað. Mamma hans barði hann þegar hann var lítill og hann dreymdi um að eignast börn svo hann gæti barið þau líka. Sem betur fer varð honum ekki að ósk sinni. Hvað um það, út­setning hans á lagi Gers­h­wins var skemmti­leg og full af bar­smíðum, en þær voru allar góðar og upp­byggi­legar!

Dag­skráin var bland í poka og sumt var arfaslakt og hefði vel mátt missa sig.

Til­þrifa­lítill leikur

Þriðji píanó­leikari kvöldsins var Nína Margrét Gríms­dóttir. Hún lék bara ró­leg lög eftir Chopin og Scria­bin, og leikur hennar var af­skap­lega daufur. Regn­dropa­prelúdían fræga eftir Chopin bauð til dæmis upp á miklu meiri til­þrif og inni­leika: þar gerðist bók­staf­lega ekki neitt.

Dag­skráin var bland í poka og sumt var arfaslakt og hefði vel mátt missa sig. Þar á meðal var ótta­lega þunnt verk eftir Myung Hwang Park, sem saman­stóð aðal­lega af klisjum og virkaði helst eins og dinner­­tón­list. Dúett eftir Paderewski var líka skelfi­lega flatur, og sex­hent æsku­verk eftir Rak­hmanín­off, þar sem allir þrír píanó­leikararnir spiluð saman á eitt píanó, var afar klént. Rak­hmanín­off var vissu­lega stór­kost­legt tón­skáld, en hér var hann ekki búinn að öðlast mark­tækan þroska sem lista­maður. Tón­listin var engu að síður á­huga­verð í ljósi þess sem síðar varð.

Vonandi eru tón­leikarnir sjálfir líka vísir að ein­hverju stór­feng­legu næsta sumar.

Niður­staða: Míníma­listarnir og Gers­hwin voru frá­bærir, en sumt annað var ekki gott.