Kona nokkur meðal áheyrenda rétt fyrir tónleika í Norðurljósum á þriðjudagskvöldið spurði mig: „Hvað erum við að fara að hlusta á?“ Ég yppti bara öxlum. Þetta voru upphafstónleikar Myrkra músíkdaga. Eins og venjulega samanstóð efnisskráin af óþekktum verkum eftir samtímatónskáld, að þessu sinni erlendum að meirihluta. Hið furðulega var ekki það, heldur að engin tónleikaskrá fylgdi herlegheitunum. Maður gat ekkert lesið um fyrirhugaðar tónsmíðar, sem þó hefði verið einstaklega gagnlegt í ljósi aðstæðna. Tónleikaskráin er oft mikilvægur hluti af upplifuninni.
Á heimasíðu Myrkra músíkdaga var hægt að fræðast um heiti verkanna á efnisskránni, auk þess sem lesa mátti um flytjandann – að vísu á ensku – sem var Bozzini kvartettinn. Hann virðist eiga uppruna sinn í Kanada og einbeitir sér að tilraunakenndri tónlist. Fyrir það hefur hann fengið margar viðurkenningar.
Hægur fuglasöngur
Fyrsta atriði tónleikanna var Warblework eftir Cassöndru Miller. Innblástur tónskáldsins var fuglasöngur sem hægt hafði verið á. Það var frekar þunnur þrettándi. Tónmálið var framandi, mjög viðkvæmt með alls konar fíngerðum blæbrigðum. Þau voru ekki sérlega vel útfærð af fjórmenningunum, sem ef til vill voru ekki almennilega komnir í gang.
Samspilið var nokkuð hrjúft og alls konar einleiksstrófur voru á tíðum býsna klunnalega leiknar. Framvindan í tónlistinni var lítt spennandi, fátt gerðist í henni. Hún virtist aðallega samanstanda af kyrrstöðu þar sem undarlegar laglínur og hendingar fóru í hringi. Heildarmyndin var óneitanlega klén, hálfgerð kulnun satt best að segja.
Framvindan í tónlistinni var lítt spennandi, fátt gerðist í henni. Hún virtist aðallega samanstanda af kyrrstöðu þar sem undarlegar laglínur og hendingar fóru í hringi.
Manísk og grípandi
Næst á dagskrá var Sivunittinni eftir Tanyu Tagaq, en það ku þýða „þeir sem tilheyra framtíðinni“ á einhverju óþekktu tungumáli. Lítinn annan fróðleik var að finna á netinu um tónsmíðina, en ánægjulegt er að geta þess að hún kom miklu betur út en hin fyrri.
Stemningin var þráhyggjukennd, ýmist manísk eða innhverf og íhugul. Framvindan var spennuþrungin og markviss, hápunktar glæsilegir og grípandi. Flutningurinn hér var talsvert betri; kannski fannst hljóðfæraleikurunum tónlistin skemmtilegri. Mun meiri áfergja var í túlkuninni, meiri innlifun og einbeiting.
Flæði og sundrung
Síðast á dagskránni var Enigma eftir Önnu Þorvaldsdóttur, sem var frumflutt á Listahátíð í Reykjavík fyrir nokkru. Tónlistin var afar dökk, einkenndist ýmist af flæði og sundrungu, og djúpri undiröldu sem virtist alsett skuggum á sífelldri hreyfingu. Þetta var nokkuð framandi í byrjun, og kannski ekki svo sjarmerandi. En síðan greip seiðurinn og maður einhvern veginn sökk ofan í trans sem erfitt var að slíta sig úr. Ómurinn af honum lifði lengi í huganum eftir tónleikana.
Bozzini kvartettinn lék verkið vel, túlkunin var lifandi og samspilið nákvæmt. Stígandin í flutningnum stigmagnaðist eftir því sem á leið og margir æsandi hápunktar voru tilkomumiklir. Þetta var svo sannarlega flott.
Niðurstaða: Áhugaverðir tónleikar, en misgóðir.