Kona nokkur meðal á­heyr­enda rétt fyrir tón­leika í Norður­ljósum á þriðju­dags­kvöldið spurði mig: „Hvað erum við að fara að hlusta á?“ Ég yppti bara öxlum. Þetta voru upp­hafs­tón­leikar Myrkra músík­daga. Eins og venju­lega saman­stóð efnis­skráin af ó­þekktum verkum eftir sam­tíma­tón­skáld, að þessu sinni er­lendum að meiri­hluta. Hið furðu­lega var ekki það, heldur að engin tón­leika­skrá fylgdi her­leg­heitunum. Maður gat ekkert lesið um fyrir­hugaðar tón­smíðar, sem þó hefði verið ein­stak­lega gagn­legt í ljósi að­stæðna. Tón­leika­skráin er oft mikil­vægur hluti af upp­lifuninni.

Á heima­síðu Myrkra músík­daga var hægt að fræðast um heiti verkanna á efnis­skránni, auk þess sem lesa mátti um flytjandann – að vísu á ensku – sem var Bozzini kvartettinn. Hann virðist eiga upp­runa sinn í Kanada og ein­beitir sér að til­rauna­kenndri tón­list. Fyrir það hefur hann fengið margar viður­kenningar.

Hægur fugla­söngur

Fyrsta at­riði tón­leikanna var War­blework eftir Cassöndru Miller. Inn­blástur tón­skáldsins var fugla­söngur sem hægt hafði verið á. Það var frekar þunnur þrettándi. Tón­málið var framandi, mjög við­kvæmt með alls konar fín­gerðum blæ­brigðum. Þau voru ekki sér­lega vel út­færð af fjór­menningunum, sem ef til vill voru ekki al­menni­lega komnir í gang.

Sam­spilið var nokkuð hrjúft og alls konar ein­leiks­strófur voru á tíðum býsna klunna­lega leiknar. Fram­vindan í tón­listinni var lítt spennandi, fátt gerðist í henni. Hún virtist aðal­lega saman­standa af kyrr­stöðu þar sem undar­legar lag­línur og hendingar fóru í hringi. Heildar­myndin var ó­neitan­lega klén, hálf­gerð kulnun satt best að segja.

Fram­vindan í tón­listinni var lítt spennandi, fátt gerðist í henni. Hún virtist aðal­lega saman­standa af kyrr­stöðu þar sem undar­legar lag­línur og hendingar fóru í hringi.

Manísk og grípandi

Næst á dag­skrá var Sivunittinni eftir Tanyu Tagaq, en það ku þýða „þeir sem til­heyra fram­tíðinni“ á ein­hverju ó­þekktu tungu­máli. Lítinn annan fróð­leik var að finna á netinu um tón­smíðina, en á­nægju­legt er að geta þess að hún kom miklu betur út en hin fyrri.

Stemningin var þrá­hyggju­kennd, ýmist manísk eða inn­hverf og í­hugul. Fram­vindan var spennu­þrungin og mark­viss, há­punktar glæsi­legir og grípandi. Flutningurinn hér var tals­vert betri; kannski fannst hljóð­færa­leikurunum tón­listin skemmti­legri. Mun meiri á­fergja var í túlkuninni, meiri inn­lifun og ein­beiting.

Flæði og sundrung

Síðast á dag­skránni var Enigma eftir Önnu Þor­valds­dóttur, sem var frum­flutt á Lista­há­tíð í Reykja­vík fyrir nokkru. Tón­listin var afar dökk, ein­kenndist ýmist af flæði og sundrungu, og djúpri undir­öldu sem virtist al­sett skuggum á sí­felldri hreyfingu. Þetta var nokkuð framandi í byrjun, og kannski ekki svo sjarmerandi. En síðan greip seiðurinn og maður ein­hvern veginn sökk ofan í trans sem erfitt var að slíta sig úr. Ómurinn af honum lifði lengi í huganum eftir tón­leikana.

Bozzini kvartettinn lék verkið vel, túlkunin var lifandi og sam­spilið ná­kvæmt. Stígandin í flutningnum stig­magnaðist eftir því sem á leið og margir æsandi há­punktar voru til­komu­miklir. Þetta var svo sannar­lega flott.

Niður­staða: Á­huga­verðir tón­leikar, en mis­góðir.