Miðaldrakrísan er dularfullt fyrirbæri sem á sér margar birtingarmyndir. Hún getur laumast inn í sálartetrið eða skollið á með látum. Sumir horfa þráðbeint í tómið og fara í sjálfsvinnu en aðrir taka á harðasprett í hina áttina. En hvað ef lausnin á öllum þínum vandamálum væri hreinlega bara að fá sér einn kaldan?
Ómögulegt er að fjalla um Mátulega í Borgarleikhúsinu án þess að fjalla fyrst um kvikmyndina Druk sem sló í gegn árið 2020. Tvær spurningar koma strax upp í hugann. Af hverju er leikritið tekið til sýninga í Borgarleikhúsinu tveimur árum eftir útgáfu kvikmyndarinnar? Hvað dregur leiksýningin fram sem ekki kom fram í kvikmyndinni?
Svarið við fyrri spurningunni er einfalt, sjá síðustu málsgrein þessa pistils. Svarið við seinni spurningunni er aðeins flóknara en ekki síður afgerandi: Lítið. Fátt nýtt kemur fram í nýrri leikgerð Thomas Vinterberg og Claus Flygare.
Hvað handritið varðar þá breytast samtöl í einræður, viðbrögð þeirra sem standa karlmönnunum næst hverfa og samfélagslegt samhengi sömuleiðis. Eftir standa fjórir miðaldra karlmenn sem keppast við að vorkenna sjálfum sér og taka þá vondu ákvörðun að allt verði kannski betra ef þeir væru aðeins kenndir.

Frelsi frá daglegu amstri
Sálfræðikennarinn Nikolaj, leikinn af Jörundi Ragnarssyni, er eins konar sögumaður í leikverkinu. Nikolaj er þriggja barna faðir að nálgast fertugt og þráir að deila rúmi sínu með Amalie, konunni sinni, án barnanna. Jörundur er með hlýja nærveru og leikur Nikolaj, mann sem þráir örlítið frelsi frá daglegu amstri, af næmni og skilningi.
Hilmir Snær Guðnason hefur hæfileika til að gera miðlungsgóðan texta lifandi og óspennandi karaktera heillandi. Lífsleiðinn streymir af Martin frá fyrsta augnabliki sem Hilmir Snær framkallar háklassa skandinavíska bugun af innlifun. Lin líkamsbeitingin í bland við flatan róm og hálftómt augnaráð hljómar ekki spennandi til áhorfs en Martin birtist áhorfendum beygður og ljóslifandi.
Tónlistarkennaranum Peter, leiknum af Þorsteini Bachmann, kynnast áhorfendur aftur á móti takmarkað. Ekki er hægt að áfellast Þorstein sem leysir verkefnið fimlega, með dropa af depurð.
Íþróttakennarinn Tommy, leikinn af Halldóri Gylfasyni, fyllir upp í karlakvartettinn. Halldór hefur einkar gott lag á að leika svolítið misheppnaða menn. Tommy er allur af vilja gerður en ráðvilltur og reikandi. Fyrst er hann hlægilegur en undir lokin brjóstumkennanlegur og fangar Halldór uppgjöfina laglega.

Bara ein kona
Eina konan sem áhorfendur heyra í er Anika, eiginkona Martin, en sjá ekki. Þess er ekki getið í leikskrá hver leikur hlutverkið, sem er einhvern veginn í takt við fjarveru kvenna í leikritinu. Eiginkonur Tommy og Nikolaj, Mette og Amalie, virðast frekar hugarfóstur þeirra en konur af holdi og blóði. Fjórða konan sem nefnd er í framhjáhlaupi er franski höfundurinn Marguerite Duras eftir upptalningu á tuttugu karlmönnum og aðallega til að hæðast að henni.
Aftur á móti er vitnað reglulega í karlmenn, alla hvíta og flesta dauða, sem nutu góðs af því að drekka í óhófi samkvæmt persónum verksins. Málarar, rithöfundar, stjórnmálamenn og einræðisherrar. Karlkyns snillingar. Ekki er kafað frekar ofan í af hverju áfengi er svona heillandi lausn við lífsins vandamálum. Hvað orsakar lífsleiða vinanna og hvað er það í samfélaginu sem ýtir undir þessa depurð?
...karllæga sjónarmiðið, týndu konurnar og melódramatísk saga verða til þess að Mátulegir er eins og volgur Carlsberg, dönsk vonbrigði.
Skortur á átökum
Listræn umgjörð er í takt við sýninguna, mátuleg en aldrei eftirminnileg. Brynhildur Guðjónsdóttir leikstýrir en í Ríkharði III sýndi hún afburðagóða og djarfa nálgun að handritinu, hér skortir átök við textann. Nándin, nærmyndir af depurð, titrandi efa og óhamingju, sem skapast á kvikmyndatjaldinu tapast. Staðsetningar leikaranna eru yfirleitt statískar, nema þegar leikarar þurfa að færa til mublur. Leikmynd Heimis Sverrissonar er falleg á að líta en skrítin samsuða; körfuboltahringur sem er aldrei notaður, skellóttir gráir veggir og ópersónuleg rými. Sviðshreyfingar Önnu Kolfinnu Kuran lífga upp á einstaka senur en duga ekki til að lyfta sýningunni upp úr hversdagsleikanum.
Miðað við miðasöluna er ekki ólíklegt að Mátulegir mali gull fyrir Borgarleikhúsið. Íslenskir áhorfendur stökkva til þegar um ræðir sögu sem þeir þekkja, í leit að átakalitlu fjöri í versta skammdeginu og jafnvel smá breytingu í gegnum persónurnar. En karllæga sjónarmiðið, týndu konurnar og melódramatísk saga verða til þess að Mátulegir er eins og volgur Carlsberg, dönsk vonbrigði.
Niðurstaða: Yfirborðskennd sviðsútgáfa af miðlungsgóðri kvikmynd.