Tón­list

Sin­fóníu­tón­leikar

Verk eftir Ives, Mozart, Bern­stein og Dvorák

Flutningur: Sin­fóníu­hljóm­sveit Ís­lands.

Ein­söngvari: Dísella Lárus­dóttir.

Stjórnandi: David Danzma­yr.

Eld­borg í Hörpu

fimmtu­daginn 14. septem­ber

Þetta er farið úr böndunum, hugsaði ég á tón­leikum Sin­fóníu­hljóm­sveitar Ís­lands á fimmtu­dags­kvöldið. Ætti ég að hringja á lög­regluna? Til­efnið var hin svo­kallaða Nýja-Eng­lands­sin­fónía eftir Charles Ives, sem var fyrst á efnis­skránni. Annar kaflinn af þremur dró upp mynd af ungum manni sem skemmtir sér við há­tíða­höld á fjórða júlí. Hann heldur svo út á akur og leggst til hvíldar, sofnar og dreymir senur úr frelsis­stríðinu. Hann veit ekki að ein­mitt þarna höfðu her­menn úr þessu stríði löngu áður dvalið vetur­langt.

Ærandi ringulreið

Tón­listin var ofsa­fengin, og stundum með ó­líkum þráðum sem blönduðust saman í ærandi ringul­reið, svo að manni þótti nóg um. Á góðan hátt þó. Flutningur hljóm­sveitarinnar, undir sér­lega mark­vissri og líf­legri stjórn Davids Danzma­yr, var dá­sam­lega snarpur, fjörugur og kraft­mikill. Ives þótti gaman að blanda saman mis­munandi tón­list svo úr varð á­huga­verður, en óm­stríður hljómur. Þetta mátti líka heyra í hinum köflunum, sér­stak­lega hinum fyrsta. Það er því skemmti­legt að geta þess að eigin­kona Ives hét Harmony, sem þýðir sam­hljómur.

Tær og fágaður

Næst á dag­skrá steig Dísella Lárus­dóttir sópran fram á sviðið og söng fyrst aríu úr Brott­náminu úr kvenna­búrinu eftir Mozart. Hún gerði það á­kaf­lega fal­lega. Söngurinn var til­þrifa­mikill og á­leitinn, full­kom­lega tær og fágaður, en samt kröftugur. Trillurnar í söngnum á tveimur lykil­stöðum í aríunni voru sér­stak­lega flottar.

Síðasta lagið fyrir hlé var Glitter and be Gay úr óperunni Birtingi eftir Leonard Bern­stein. Þar lék Dísella glans­drós sem má muna sinn fífil fegri, en nýtur samt enn­þá lífsins lysti­semda. Þetta er grín­at­riði og Dísella fór á kostum. Svip­brigðin hennar voru svo fyndin að ég skellti upp úr aftur og aftur. Söngurinn sjálfur var ein­stak­lega spennandi og glæsi­legur, á köflum brjál­æðis­legur og með stór­feng­legum há­punktum. Á­heyr­endur æptu bók­staf­lega þegar flutningurinn var búinn. Auka­lagið var líka fagurt, eitt af Wesendonck ljóðunum eftir Wagner.

Lifandi og innblásin

Eftir hlé var níunda sin­fónían eftir Dvorák á dag­skránni. Hún er mjög stór­brotin og er inn­blásin af veru tón­skáldsins í Banda­ríkjunum um nokkurra ára skeið. Tón­listin skartar afar grípandi melódíum, og fram­vindan í henni er hröð (nema í hæga kaflanum) og alltaf á­huga­verð. Skemmst er frá því að segja að leikur hljóm­sveitarinnar var í fremstu röð. Strengirnir voru hnaus­þykkir og mun­úðar­fullir, málm­blásararnir hnit­miðaðir; svipaða sögu er að segja um aðra hljóð­færa­hópa. Stjórn Danzma­yr var í senn tækni­lega full­komin og svo lifandi og inn­blásin að varla er hægt að gera betur. Þetta voru magnaðir tón­leikar og maður bók­staf­lega sveif út í nóttina á eftir.

Niður­staða: Ein­stakur ein­söngur og hljóm­sveitin var líka með allt á hreinu.