Ný­lega var fjórða út­gáfan af Ég býð mig fram, hugar­fóstri sviðs­lista­konunnar og leik­stjórans Unnar Elísa­betar Gunnars­dóttur, frum­sýnd í Tjarnar­bíó. Sýningin er aug­lýst sem „ör­verka­leik­sýningin þar sem leik­stjórinn Unnur Elísa­bet býður lista­mönnunum úr ó­líkum áttum til sam­starfs“ og ber undir­titilinn Nýr heimur.

Á­horf­endur mæta sýningunni um leið og gengið er inn í Tjarnar­bíó. Út­stillingarnar í and­dyrinu eru fagur­fræði­lega for­vitni­legar, glimmer og gaman­semi ráða þar ríkjum, en virka sem skraut frekar en efnis­leg við­bót við sýninguna. Rof er á milli fagur­fræðinnar í for­salnum og á sviðinu. Glys og lita­dýrð tekur á móti gestum en síðan tekur við fremur dapur­legur sam­tíningur inni í sal. Sviðið er minnkað með stóru tjaldi og sýningin verður þannig frekar flöt fyrir utan ein­staka upp­brot. Sara Hjör­dís Blön­dal hannar leik­mynd og búninga, en búningarnir gefa sýningunni lit í annars ein­faldri leik­mynd.

Fjöldi listamanna kemur að sýningunni Ég býð mig fram 4 - Nýr heimur eftir Unni Elísabetu Gunnarsdóttur.
Mynd/Leifur Wilberg Orrason

Byrj­enda­bragur yfir sýningunni

Þrátt fyrir að Nýr heimur sé fjórða út­gáfan af Ég býð mig fram, er byrj­enda­bragur yfir sýningunni. Hér eru á ferðinni ýmsar vanga­veltur um til­gang lífsins en þær rista sjaldan djúpt eða eru nægi­lega fyndnar til að hengja heila sýningu á. Fyrsta at­riðið snýst um tvær mjög ó­líkar frá­sagnir tveggja kvenna um að koma nýjum ein­stak­lingi inn í þennan heim og eitt af seinni at­riðunum, um hvað gæti mögu­lega gerst ef við hefðum bara tíu mínútur eftir af til­vistinni á þessari jörð.

Inn á milli eru ýmis at­riði þar sem aðrir þátt­tak­endur í sýningunni velta fyrir sér tjáningu okkar í hinu dag­lega lífi, sorg og erfið­leikum. Yfir­leitt eru at­riðin of löng fyrir hug­myndirnar sem þau byggja á og fjara þannig út. Lang­besta at­riði sýningarinnar er sam­tal hópsins við Guð, eða alla­vega guð­lega veru, leikna af Bryn­dísi Ósk Þ. Ingvars­dóttur. Hún kemur með nýja orku inn í verkið og er keyrð inn á litlum krana. At­riðið inni­heldur pólitík, húmor og af­slappaða nálgun, eitt­hvað sem sár­lega vantaði í sýninguna yfir­höfuð.

Þrátt fyrir að Nýr heimur sé fjórða út­gáfan af Ég býð mig fram, er byrj­enda­bragur yfir sýningunni.

Skortir skýrari sýn

Unnur Elísa­bet er manneskjan á bak við þessa hug­mynd sem á að setja sviðs­lista­fólk í for­grunn, en setur sjálfa sig iðu­lega fremst á svið, þetta er ekki vett­vangur fyrir annað lista­fólk heldur oftar en ekki verk­færi fyrir lista­konu til að stað­setja sjálfa sig í verkum annarra. Seinna í kynningar­textanum fyrir Nýjan heim stendur: „Út­koman er ó­venju­leg leik­hús­upp­lifun, suðu­pottur nýrra hug­mynda, eins konar smá­rétta­veisla fyrir á­horf­endur.“ Lítið fer fyrir frum­legu smá­rétta­veislunni. Þrátt fyrir frá­bæra grunn­hug­mynd og á­form um fram­kvæmd skortir Ég býð mig fram 4 - Nýr heimur, sterkari list­rænan metnað, skýrari sýn á sam­vinnu lista­fólks sem að sýningunni kemur og djörfung til að ögra eða skemmta á­horf­endum al­menni­lega.

Niður­staða: Illa farið með góða hug­mynd.