Nýlega var fjórða útgáfan af Ég býð mig fram, hugarfóstri sviðslistakonunnar og leikstjórans Unnar Elísabetar Gunnarsdóttur, frumsýnd í Tjarnarbíó. Sýningin er auglýst sem „örverkaleiksýningin þar sem leikstjórinn Unnur Elísabet býður listamönnunum úr ólíkum áttum til samstarfs“ og ber undirtitilinn Nýr heimur.
Áhorfendur mæta sýningunni um leið og gengið er inn í Tjarnarbíó. Útstillingarnar í anddyrinu eru fagurfræðilega forvitnilegar, glimmer og gamansemi ráða þar ríkjum, en virka sem skraut frekar en efnisleg viðbót við sýninguna. Rof er á milli fagurfræðinnar í forsalnum og á sviðinu. Glys og litadýrð tekur á móti gestum en síðan tekur við fremur dapurlegur samtíningur inni í sal. Sviðið er minnkað með stóru tjaldi og sýningin verður þannig frekar flöt fyrir utan einstaka uppbrot. Sara Hjördís Blöndal hannar leikmynd og búninga, en búningarnir gefa sýningunni lit í annars einfaldri leikmynd.

Byrjendabragur yfir sýningunni
Þrátt fyrir að Nýr heimur sé fjórða útgáfan af Ég býð mig fram, er byrjendabragur yfir sýningunni. Hér eru á ferðinni ýmsar vangaveltur um tilgang lífsins en þær rista sjaldan djúpt eða eru nægilega fyndnar til að hengja heila sýningu á. Fyrsta atriðið snýst um tvær mjög ólíkar frásagnir tveggja kvenna um að koma nýjum einstaklingi inn í þennan heim og eitt af seinni atriðunum, um hvað gæti mögulega gerst ef við hefðum bara tíu mínútur eftir af tilvistinni á þessari jörð.
Inn á milli eru ýmis atriði þar sem aðrir þátttakendur í sýningunni velta fyrir sér tjáningu okkar í hinu daglega lífi, sorg og erfiðleikum. Yfirleitt eru atriðin of löng fyrir hugmyndirnar sem þau byggja á og fjara þannig út. Langbesta atriði sýningarinnar er samtal hópsins við Guð, eða allavega guðlega veru, leikna af Bryndísi Ósk Þ. Ingvarsdóttur. Hún kemur með nýja orku inn í verkið og er keyrð inn á litlum krana. Atriðið inniheldur pólitík, húmor og afslappaða nálgun, eitthvað sem sárlega vantaði í sýninguna yfirhöfuð.
Þrátt fyrir að Nýr heimur sé fjórða útgáfan af Ég býð mig fram, er byrjendabragur yfir sýningunni.
Skortir skýrari sýn
Unnur Elísabet er manneskjan á bak við þessa hugmynd sem á að setja sviðslistafólk í forgrunn, en setur sjálfa sig iðulega fremst á svið, þetta er ekki vettvangur fyrir annað listafólk heldur oftar en ekki verkfæri fyrir listakonu til að staðsetja sjálfa sig í verkum annarra. Seinna í kynningartextanum fyrir Nýjan heim stendur: „Útkoman er óvenjuleg leikhúsupplifun, suðupottur nýrra hugmynda, eins konar smáréttaveisla fyrir áhorfendur.“ Lítið fer fyrir frumlegu smáréttaveislunni. Þrátt fyrir frábæra grunnhugmynd og áform um framkvæmd skortir Ég býð mig fram 4 - Nýr heimur, sterkari listrænan metnað, skýrari sýn á samvinnu listafólks sem að sýningunni kemur og djörfung til að ögra eða skemmta áhorfendum almennilega.
Niðurstaða: Illa farið með góða hugmynd.