Kvikmyndir

Fantastic Beasts: Secrets of Dumbledor

Leikarar: Eddie Redmayne, Katherine Waterston, Dan Fogler, Ezra Miller o.fl.

Fantastic Beasts: Secrets of Dumbledore er þriðja myndin í Fantastic Beasts kvikmyndabálkinum. J.K. Rowling skrifar handritið að þessum forleik Harry Potter sögunnar og hefur áður gefið út að líklegast verði myndirnar fimm talsins, svona allt eftir því hvernig henni tekst til við skriftir.

Hér fylgjum við eftir Eddie Redmayne í hlutverki galdradýrafræðingsins Newt Scamander enn og aftur, auk þess sem Jude Law fer með hlutverk hins betur þekkta skólameistara Albus Dumbledore. Nú þurfa þeir að taka á honum stóra sínum í baráttunni við hinn illa Grindelwald, sem nú er túlkaður af Mads Mikkelsen sem kom inn af varamannabekknum fyrir Johnny Depp.

Söguþráður myndarinnar er ruglingslegur en kannski er það vegna þess að undirritaður mundi lítið eftir persónunum sem slíkum úr fyrri myndunum og þurfti því að púsla ýmsu saman í upphafi myndarinnar. Það er þó ekki við leikarana að sakast en Dan Fogler gerir sitt allra besta til að skemmta áhorfendum í hlutverki hins seinheppna Jacob Kowalski.

Bestir eru þó þeir Jude Law og Mads Mikkelsen. Það er óhætt að fullyrða að þar séu réttir menn á réttum stað, en þeir ná fullkomlega að fanga þá kemistríu sem á að vera á milli Dumbledore og Grindelwald. Slakastur er Ezra Miller í hlutverki hins dularfulla Credence, en það er eins og Rowling hafi ekki vitað almennilega hvað hún átti að gera við þá persónu. Andleysið, og ef gengið er lengra: sálarleysi sögunnar, er hins vegar algjört og eru ansi miklar líkur á að hinir hörðustu Harry Potter aðdáendur verði fyrir vonbrigðum þó að almennir áhorfendur ættu að skemmta sér ágætlega. Það lýsir sér best í því að Hogwarts bregður fyrir og tilfinningar sem það vekur eru litlar, þvert á ætlun framleiðenda. n

Niðurstaða: Sálarlaus og samhengislítil frásögn úr Harry Potter heiminum sem geldur fyrir slappt handrit og slappa persónusköpun. Mads Mikkelsen og Jude Law gera sitt besta til að bæta það upp