Hamingja þessa heims er sögu­leg skáld­saga sem gerist á fimm­tándu öld og aðal­per­sóna er Ólöf Lofts­dóttir ríka. Skáldið Sveinn dögg­skór eða Skáld-Sveinn, sem gengur reyndar undir fleiri nöfnum, er einnig fyrir­ferðar­mikill í sögunni en hann er góð­vinur Ólafar. Formið er með þeim hætti að hér er ein saga inni í annarri. Í ramma­sögunni er sagt frá sagn­fræði­prófessor sem hefur hagað sér fífls­lega gagn­vart kven­fólki og verið út­hrópaður fyrir það. Þessi há­lærði sagn­fræðingur er ekki of­beldis­maður eða nauðgari, en hegðun hans er stór­lega á­bóta­vant. Í refsingar­skyni er honum vikið frá störfum í bili og hann settur yfir há­skóla­setur á Staðar­felli í Dölum. Þar finnur hann stór­merki­leg hand­rit um 15. öldina, og sér­stak­lega um Ólöfu ríku. Þessi þrjú, Ólöf, Sveinn og sagn­fræðingurinn, eru mikil­vægustu per­sónur sögunnar.

Bræði og skelfing karl­manna

Eftir MeT­oo er bráð­snjallt að grípa niður á þessum stað í Ís­lands­sögunni. Í sögu Sig­ríðar brýst Ólöf út úr því reglu­verki sem henni er ætlað að virða og vekur upp bræði og skelfingu hjá karl­mönnum. Hún fer sínu fram, grípur fram fyrir hendurnar á bróður sínum og ögrar höfðingjum. Sagan af henni á erindi við okkar tíma.

Dið­rik Píning, höfuðs­maður á Bessa­stöðum, reynir að klekkja á Ólöfu og sanna á hana ó­sæmi­leg og ó­kristi­leg kyn­ferðis­mál. Að því leyti er Ólöf hlið­stæð við sagn­fræði­prófessorinn sein­heppna. Um hjá­kát­leg kyn­ferðis­mál hans vitna að vísu margar konur og skrifa í tíma­ritið Sögu en illa gengur að „sanna“ ó­kristi­lega hegðun Ólafar.

Lykil­maður í því er skáldið Sveinn dögg­skór. Ólöf vill fá rétta út­gáfu af eigin sögu og hana á Sveinn að skrifa til þess að „sann­leikurinn“ komi fram og kveði niður róg og níð. Píning höfuðs­maður rænir Sveini og reynir hins vegar að pynta hann til að skrifa um ill og stór­hættu­leg kyn­ferðis­mál Ólafar. Bar­áttan um „sann­leikann“ geisar án af­láts.

Hér hlýtur lesanda að verða hugsað til sagn­fræðingsins í ramma­sögunni. Í tíma­ritið Sögu hafa tuttugu reiðar konur skrifað um fá­rán­lega hegðun hans. Sagn­fræðingurinn reynir að bera hönd fyrir höfuð sér í bréfum til vinar síns en það eru veik­burða til­raunir. Kannski vegna þess að saga síðustu ára hefur komið yfir þennan sagn­fræðing eins og köld vatns­gusa og það er ein­kenni­legt hvað hann er stein­hissa. Sagn­fræðingar hugsa oft um söguna og það þyrfti að koma ein­hvern veginn fram í mati hans á eigin stöðu.

Eftir MeT­oo er bráð­snjallt að grípa niður á þessum stað í Ís­lands­sögunni.

Sekt og sann­leikur

Sögurnar af Ólöfu og sagn­fræðingnum spegla hvor aðra á ýmsan hátt en um sumt eru þær ó­sam­bæri­legar. Rétt­lát reiði há­skóla­kvennanna yfir asna­skap prófessorsins er öðru vísi en heift Pínings höfuðs­manns yfir því að kona hafi skotið honum ref fyrir rass. Þriðja aðal­per­sónan í bókinni er skáldið Sveinn sem nauðugur má takast á við hina sí­gildu spurningu um það hvort til sé al­gildur sann­leikur og ef svo, hvað hann hafi þá með hamingju mannanna að gera. Sveinn stendur á 15. öld frammi fyrir spurningum sem virðast kunnug­legar á þeirri 21. Verða menn ekki sam­stundis sekir ef þeir eru á­sakaðir um eitt­hvað? Er per­sónu­legur sann­leikur ekki alltaf og örugg­lega ó­vé­fengjan­legur? Ber að refsa fólki sem efast um það sem því er sagt? Og þannig mætti lengi telja. Að sjálf­sögðu er fjölda­margt í þessari á­huga­verðu bók sem ekki hefur verið minnst á hér.

Niður­staða: Bráð­skemmti­leg, sögu­leg skáld­saga um eitt af for­vitni­legustu tíma­bilum Ís­lands­sögunnar. Hentar vel fyrir les­endur sem telja lífið marg­breyti­legt og efa­hyggju nauð­syn­lega.