Leik­hús

Nokkur augna­blik um nótt

Þjóð­leik­húsið

Höfundur: Adolf Smári Unnars­son

Leik­stjóri: Ólafur Egill Egils­son

Leikarar: Björn Thors, Ebba Katrín Finns­dóttir, Hilmar Guð­jóns­son og Vig­dís Hrefna Páls­dóttir

Leik­mynd: Hildur Evalía Unnars­dóttir

Búningar: Arturs Zorgis

Lýsing: Jóhann Bjarni Pálma­son

Tón­list og hljóð­mynd: Aron Þór Arnars­son

Mynd­bands­hönnun: Ásta Jónína Arnar­dóttir

Systur og makar hittast í sumar­bú­stað. Nú skal grillað, drekka dýrt vín og rífast heiftar­lega um ís­lenskt sam­fé­lag. En fyrst nokkur orð um um­gjörð sumar­bú­staðar­ferðarinnar, en í­mynd er ein­mitt eitt af helstu um­ræðu­efnum kvöld­stundarinnar. Kassi Þjóð­leik­hússins hefur fengið endur­nýjun líf­daga. For­salurinn hefur verið tekinn í gegn, í­þrótta­hús Jóns Þor­steins­sonar er endur­skapað í nú­tíma­legri mynd og heppnast ein­stak­lega vel. Þetta aftur­lit til sögunnar er til­valinn vett­vangur til að snúa speglinum til sam­tímans og frum­sýna glæ­nýtt ís­lenskt leik­rit eftir ungan höfund, Adolf Smára Unnars­son.

Í mögnuðu verð­launa­sýningunni Ekkert er sorg­legra en manneskjan, tókst Adolf Smári á við harm­leikinn í hvers­dags­leikanum, til­vistar­kreppu og flóttann frá raun­veru­leikanum. Svipuð mál­efni eru til grund­vallar í verkinu Nokkur augna­blik um nótt, en höfundur víkkar sjón­deildar­hringinn og setur ís­lenskt sam­fé­lag undir smá­sjána og notar til þess per­sónu­gerðar tákn­myndir, fólk sem við þekkjum öll eða könnumst við. Adolf Smári beitir ein­ræðum og ráfandi sam­tölum til að kryfja stór mál­efni svo sem kapítal­isma, stétta­skiptingu og feðra­veldið, en hefur ekki enn­þá beislað sinn eigin stíl eða náð föstum tökum á formi, sem er eðli­legt fyrir ungan höfund.

Nokkur augna­blik um nótt hefst með ræðu­höldum í ný­upp­gerðum for­sal Kassans. Ragn­hildur, leikin af Vig­dísi Hrefnu Páls­dóttur, er í próf­kjöri og setur fjöl­skyldu­mál í fyrsta sæti, þrátt fyrir að forðast sína eigin fjöl­skyldu. Mikið er gert úr dugnaði Ragn­hildar, sem talar mikið um þraut­seigju og menntun, en á­horf­endur vita aldrei hvað hún lærði né við hvað hún starfar. Í leit sinni að stóru mál­efnunum gleymir höfundur nefni­lega smá­at­riðunum sem fylla út í bæði per­sónur og leik­fléttu. Vig­dís Hrefna túlkar þessa brotnu konu með á­gætum en nær ekki að stíga fylli­lega vel inn í tog­streituna sem ein­kennir hana.

Að mati gagnrýnanda Fréttablaðsins er skemmti­legt að sjá ferskt list­rænt teymi sem fær að þroskast og vonandi blómstra innan veggja Þjóð­leik­hússins.
Mynd/Þjóðleikhúsið

Á­föll í æsku

Ragn­hildur býður systur sinni og kærasta hennar í heim­sókn upp í sumar­bú­stað, Björk, leikinni af Ebbu Katrínu Finns­dóttur og Óskari, leiknum af Hilmari Guð­jóns­syni. Systurnar tókust á við á­föll í æsku á mjög mis­munandi hátt. Ragn­hildur flúði til út­landa og huggar sig með fjár­mála­öryggi. Björk leitaði í tón­listina en er enn­þá að reyna að finna sjálfa sig. Ebba Katrín er með okkar efni­legustu ungu leik­konum og finnur hjartað í Björk með næmum leik, augun segja nefni­lega allt. Missir er af því að allar per­sónur verksins fá ein­ræðu nema Björk. Hilmar er á heima­velli sem hinn afar venju­legi en við­kunnan­legi Óskar, sem drekkur kannski of mikið en vill vel, mest megnis. Hlut­verkið er sem sniðið að Hilmari sem nostrar við karakterinn með hár­fínum kómískum tíma­setningum í bland við af­slappaða nálgun.

Fyrrum fót­bolta­kappinn og nú­verandi fjár­festirinn Magnús, eigin­maður Ragn­heiðar, leikinn af Birni Thors, er ó­skrifað blað, aðal­lega ó­skrifuð per­sóna. Hann er fram­settur sem eins konar tákn­mynd feðra­veldisins og kapítal­isma, maður sem hefur fengið allt upp í hendurnar en telur sig hafa unnið fyrir því. Sem tákn­mynd er Magnús á­gætur til síns brúks, en sem per­sóna alls ekki. Björn vinnur mjög vel með tak­markað efni, fyllir þagnirnar merkingu og gerir sitt besta til að koma reiði og sárs­auka Magnúsar til skila. En of mörgum spurningum er ó­svarað.

Fram­vinda og karakterar dansa á línu firringar og mörg at­riði kyrr­stæð, af þeim stökum er sýningin fremur fjar­læg. Hvorki hefð­bundið stofu­drama né absúrd á­deila.

Fremur fjar­læg sýning

Síðast­liðin ár hefur Ólafur Egill Egills­son leitast við að leik­stýra nýjum leik­ritum eftir unga höfunda, sem er virðinga­vert fyrir reynslu­mikinn leik­stjóra. Fjórði veggurinn er fremur veik­burða í sýningunni en er ekki nægi­lega mölvaður til að hafa á­hrif. Fram­vinda og karakterar dansa á línu firringar og mörg at­riði kyrr­stæð, af þeim stökum er sýningin fremur fjar­læg. Hvorki hefð­bundið stofu­drama né absúrd á­deila. Þannig fellur sýningin fremur flöt. Aftur á móti er mjög skemmti­legt að sjá ferskt list­rænt teymi, lista­fólk úr öllum áttum sem fær að þroskast og vonandi blómstra innan veggja Þjóð­leik­hússins. Í sýningunni má sjá margar for­vitni­legar list­rænar hug­myndir sem þjóna þó sýningunni ekki nægi­lega vel.

Í leik­skrá tala höfundur og leik­stjóri um vinnu­að­ferðir sínar í fremur ó­ljósu máli. Mikið er talað um sam­vinnu, í­myndar­sköpun og „hefð­bundið drama­leik­hús”. Sam­talið er ein­kennandi fyrir sýninguna, sem er saman­safn af laus­lega tengdum hug­myndum frekar en heild­stæð eining. Stíllinn er á­huga­verður og sam­tölin stundum lifandi en sprengi­kraft vantar í textann. Fléttan er sömu­leiðis for­vitni­leg en gengur ekki alveg upp, sem byggist aðal­lega á því að per­sónurnar eru ekki nægi­lega trú­verðugar þrátt fyrir að mál­efnin séu það svo sannar­lega. En Adolf Smári er að stíga sín fyrstu skref sem leik­skáld og vonandi fær hann rými til að þróa sína hæfi­leika.

Niður­staða: Stórar hug­myndir duga ekki til að kveikja nægi­lega stórt bál.