Skáldsagan Eden er sögð í fyrstu persónu. Kannski má kalla hana varnarrit því sögukonan útskýrir ákvarðanir sínar fyrir sér og öðrum en þegir um ýmislegt sem kemur þó fram smám saman. Sagan er þannig um sumt eins og eintal sálarinnar. Sögukonan fer í gegnum það sem hún sér, heyrir og gerir en ef til vill er hún líka viðtakandi og túlkandi sögunnar. Merking orðanna er stöðugt umhugsunar- og viðfangsefni í bókinni.
Forboðnar ástir
Sögumaðurinn og aðalpersónan, Alba Jakobsdóttir, er málvísindakona. Hún og samstarfsmenn hennar eru því uppteknari af tungumálum þeim mun fjarlægari og smærri sem þau eru og líklegri til þess að hverfa og deyja. Oftlega koma henni líka í hug framandleg orð og hana dreymir jafnvel einstök orð. Hún situr í góðri háskólastöðu og hefur sótt um aðra sem hentar betur hennar sérhæfingu. Þar er hins vegar kominn sandur í vélina. Hún hefur komið of nálægt námssveini, sem reyndar hefur elt hana á röndum að því er virðist, og það mál er dregið fram þegar hún sækir um stöðuna.
Annar háskólakennari hefur líka komið of nálægt námssveini en þeir eru báðir karlkyns og dæmendur horfa á það með blinda auganu, enda giftast þeir. Engin alvara er í sambandi kennslukonunnar og námssveinsins, ekki af hennar hálfu að minnsta kosti. „Það dregst bara einn líkami að öðrum eins og gengur.“ Drengurinn semur harmræna ljóðabók um ástamálin og auglýsir þau eins og mest hann má. Mamma hans sér þar að auki mynd sem hann hefur tekið af sér og kennaranum í rúminu og sett á netið og þá er fjandinn laus.
Eins og stundum áður hjá Auði fjallar þessi bók þegar upp er staðið um gildi góðleikans og valdeflinguna sem því fylgir að gefa öðrum af því góða sem maður á og í manni býr.
Skapar sér nýtt líf
Um þetta leyti kaupir sögukonan sér hrjóstrugan landskika, kynnist kostulegu og slúðrandi þorpi og vinnur að því að skapa sér nýtt líf með því að planta birki og hlaða skjólgarða úr grjóti. Hún byrjar upp á nýtt, inn í líf hennar kemur óumbeðinn fóstursonur, ný viðfangsefni fylla daga hennar. Samband hennar við föður sinn rennur áreynslulaust inn í þessa nýju veröld og þó að syrt hafi í álinn um sinn er lengi hægt að snúa lífi sínu til betri vegar ef siðferðisgildi eru höfð í heiðri og ekki einfölduð úr hófi fram.
Þessi bók er launfyndin og „útundir sig“ eins og sumir myndu segja og það orðalag hefði sennilega glatt málvísindakonuna Ölbu Jakobsdóttur en víða í bókinni eru fyndnar og frumlegar vangaveltur um tungumálið. Bókin er líka háðsk og beitt á köflum. Eins og stundum áður hjá Auði fjallar þessi bók þegar upp er staðið um gildi góðleikans og valdeflinguna sem því fylgir að gefa öðrum af því góða sem maður á og í manni býr.
Niðurstaða: Skemmtileg og vel skrifuð skáldsaga um vandann að vera manneskja og leita að tilgangi í lífi sínu. Bókin á sérstakt erindi til þeirra sem gaman hafa af tungumálinu.