Skáld­sagan Eden er sögð í fyrstu per­sónu. Kannski má kalla hana varnar­rit því sögu­konan út­skýrir á­kvarðanir sínar fyrir sér og öðrum en þegir um ýmis­legt sem kemur þó fram smám saman. Sagan er þannig um sumt eins og ein­tal sálarinnar. Sögu­konan fer í gegnum það sem hún sér, heyrir og gerir en ef til vill er hún líka við­takandi og túlkandi sögunnar. Merking orðanna er stöðugt um­hugsunar- og við­fangs­efni í bókinni.

For­boðnar ástir

Sögu­maðurinn og aðal­per­sónan, Alba Jakobs­dóttir, er mál­vísinda­kona. Hún og sam­starfs­menn hennar eru því upp­teknari af tungu­málum þeim mun fjar­lægari og smærri sem þau eru og lík­legri til þess að hverfa og deyja. Oft­lega koma henni líka í hug framand­leg orð og hana dreymir jafn­vel ein­stök orð. Hún situr í góðri há­skóla­stöðu og hefur sótt um aðra sem hentar betur hennar sér­hæfingu. Þar er hins vegar kominn sandur í vélina. Hún hefur komið of ná­lægt náms­sveini, sem reyndar hefur elt hana á röndum að því er virðist, og það mál er dregið fram þegar hún sækir um stöðuna.

Annar há­skóla­kennari hefur líka komið of ná­lægt náms­sveini en þeir eru báðir karl­kyns og dæm­endur horfa á það með blinda auganu, enda giftast þeir. Engin al­vara er í sam­bandi kennslu­konunnar og náms­sveinsins, ekki af hennar hálfu að minnsta kosti. „Það dregst bara einn líkami að öðrum eins og gengur.“ Drengurinn semur harm­ræna ljóða­bók um ásta­málin og aug­lýsir þau eins og mest hann má. Mamma hans sér þar að auki mynd sem hann hefur tekið af sér og kennaranum í rúminu og sett á netið og þá er fjandinn laus.

Eins og stundum áður hjá Auði fjallar þessi bók þegar upp er staðið um gildi góð­leikans og vald­eflinguna sem því fylgir að gefa öðrum af því góða sem maður á og í manni býr.

Skapar sér nýtt líf

Um þetta leyti kaupir sögu­konan sér hrjóstrugan land­skika, kynnist kostu­legu og slúðrandi þorpi og vinnur að því að skapa sér nýtt líf með því að planta birki og hlaða skjól­garða úr grjóti. Hún byrjar upp á nýtt, inn í líf hennar kemur ó­um­beðinn fóstur­sonur, ný við­fangs­efni fylla daga hennar. Sam­band hennar við föður sinn rennur á­reynslu­laust inn í þessa nýju ver­öld og þó að syrt hafi í álinn um sinn er lengi hægt að snúa lífi sínu til betri vegar ef sið­ferðis­gildi eru höfð í heiðri og ekki ein­földuð úr hófi fram.

Þessi bók er laun­fyndin og „út­undir sig“ eins og sumir myndu segja og það orða­lag hefði senni­lega glatt mál­vísinda­konuna Ölbu Jakobs­dóttur en víða í bókinni eru fyndnar og frum­legar vanga­veltur um tungu­málið. Bókin er líka háðsk og beitt á köflum. Eins og stundum áður hjá Auði fjallar þessi bók þegar upp er staðið um gildi góð­leikans og vald­eflinguna sem því fylgir að gefa öðrum af því góða sem maður á og í manni býr.

Niður­staða: Skemmti­leg og vel skrifuð skáld­saga um vandann að vera manneskja og leita að til­gangi í lífi sínu. Bókin á sér­stakt erindi til þeirra sem gaman hafa af tungu­málinu.