Þetta smásagnasafn er ekki aldæla. Samfélagsgagnrýni er hörð og aðferð furðusögunnar er beitt af útsjónarsemi til þess að afhjúpa bjánagang í mannlífinu.
„Svefngríman“, fyrsta sagan í safninu, segir á hófstilltan hátt frá Guðbjörgu flugstjóra, sem fær kaffibolla á meðan hún bíður eftir heimsendi sem staðfest er að sé á leiðinni. Nafnið „Guðbjörg“ er varla tilviljun og starfið ekki heldur. Heimsbjörgun af himnum ofan er ekki líkleg framvinda í veraldarmálunum. Sagan „Sprettur“ segir frá manni sem stríðir við þrálátan útlimamissi, fer í sund, týnir tá og leitar að þessum hluta af sjálfum sér. Það reynist mörgum snúið að finna sjálfan sig, eða hluta af sér ef því er að skipta.
Kyndugt mæðginasamband
Í „Gæsum himinsins“ kynnumst við Jórunni Birnu sem lokast inni í eigin heimi. Hún hefur haft þungar áhyggjur af einkasyninum og endar með því að verða hans helsta áhyggjuefni. Margt er þar kyndugt í sambandi móður og sonar. Hlutverkaskipting þeirra verður vandræðaleg en hjá Jórunni kemur botnfallið úr sjónvarpinu og spjall við gervigreind að lokum í staðinn fyrir þátttöku í mannlífinu. Helsti unaður Jórunnar Birnu er að fara ein í bíltúr og prumpa í bílsætið með kveikt á sætishitaranum.
Í sögunni „Holur“ verða þau tíðindi að stofnað er Endaþarmssafn, gegnt Reðasafninu; hinum megin við götuna. Þar starfar ungur maður sem heitir Fífill. Hann dregst inn í samkeppni þessara tveggja safna í hjarta Reykjavíkur. Fífli er gert erfitt fyrir en hann stendur sig.
Sagan „Raddbönd“ fjallar ekki um þau raddbönd sem við erum vön að tala um. Aðalpersónan er að eigin mati með úthverfablindu, ratar ekki í úthverfum, en í bílnum er leiðsögutæki og í því er rödd sem vísar veginn og aðalpersónan tengist henni sterkum böndum.
Óborganlegur starfstitill
Í sögunni „Óráð“ er fjallað um þá ógnvekjandi stöðu að vera karlmaður og sitja einn heima yfir veiku barni. „Blekhafið“ segir frá konu sem fer í læknisskoðun vegna þungunar sem lengst af í sögunni virðist nokkuð langt fram gengin. Hjá lækninum fær hún þau erfiðu tíðindi að fóstrið sé horfið og enginn veit hvað varð af því. Sögunni er síðan snúið frá fæðingum að dauða og hvort tveggja virðist frekar óraunverulegt. Er eða er ekki en skiptir annars litlu.
Lokasagan „Nætursveifin“ segir frá manni með aldeilis óborganlegan starfstitil. Hann er „bakdyravörður“! í leikhúsi. Á hverju kvöldi snýr hann hinni vel földu nætursveif og alltaf kemur nóttin. Bakdyravörðurinn okkar veit hins vegar ekki hvers vegna hann á að snúa þessari sveif og finnur það aldrei út. Honum var sagt þegar hann hóf störf að þetta væri mikilvægt og mætti aldrei gleymast. Kafka hefði haft gaman af þessu!
Yfir vötnum þessara smásagna svífur grunur um merkingarleysi nútímans.
Merkingarleysi nútímans
Yfir vötnum þessara smásagna svífur grunur um merkingarleysi nútímans. Fólkið er þrælar vanans, meðvitundarlaust eins og vélmenni og getur einna helst myndað samband við önnur vélmenni. Nútíminn er trunta og mannhyggjan á undanhaldi. Ég viðurkenni að við lesturinn varð mér stundum hugsað til Lewis Carroll og Lísu í Undralandi þar sem orsakasamhenginu er snúið á haus, og stundum til Guðbergs Bergssonar þegar hann var upp á sitt besta. Ekki veit ég af hverju.
Niðurstaða: Sérstætt og mjög áhugavert sagnasafn. Samfélagsgagnrýnin óvægin og hugrenningatengsl frumleg! Vonandi kemur meira efni frá Örvari Smárasyni sem fyrst.