Þetta smá­sagna­safn er ekki al­dæla. Sam­fé­lags­gagn­rýni er hörð og að­ferð furðu­sögunnar er beitt af út­sjónar­semi til þess að af­hjúpa bjána­gang í mann­lífinu.

„Svefn­gríman“, fyrsta sagan í safninu, segir á hóf­stilltan hátt frá Guð­björgu flug­stjóra, sem fær kaffi­bolla á meðan hún bíður eftir heims­endi sem stað­fest er að sé á leiðinni. Nafnið „Guð­björg“ er varla til­viljun og starfið ekki heldur. Heims­björgun af himnum ofan er ekki lík­leg fram­vinda í veraldar­málunum. Sagan „Sprettur“ segir frá manni sem stríðir við þrá­látan út­lima­missi, fer í sund, týnir tá og leitar að þessum hluta af sjálfum sér. Það reynist mörgum snúið að finna sjálfan sig, eða hluta af sér ef því er að skipta.

Kyndugt mæðgina­sam­band

Í „Gæsum himinsins“ kynnumst við Jórunni Birnu sem lokast inni í eigin heimi. Hún hefur haft þungar á­hyggjur af einka­syninum og endar með því að verða hans helsta á­hyggju­efni. Margt er þar kyndugt í sam­bandi móður og sonar. Hlut­verka­skipting þeirra verður vand­ræða­leg en hjá Jórunni kemur botn­fallið úr sjón­varpinu og spjall við gervi­greind að lokum í staðinn fyrir þátt­töku í mann­lífinu. Helsti unaður Jórunnar Birnu er að fara ein í bíl­túr og prumpa í bíl­sætið með kveikt á sætis­hitaranum.

Í sögunni „Holur“ verða þau tíðindi að stofnað er Enda­þarms­safn, gegnt Reða­safninu; hinum megin við götuna. Þar starfar ungur maður sem heitir Fífill. Hann dregst inn í sam­keppni þessara tveggja safna í hjarta Reykja­víkur. Fífli er gert erfitt fyrir en hann stendur sig.

Sagan „Radd­bönd“ fjallar ekki um þau radd­bönd sem við erum vön að tala um. Aðal­per­sónan er að eigin mati með út­hverfa­blindu, ratar ekki í út­hverfum, en í bílnum er leið­sögu­tæki og í því er rödd sem vísar veginn og aðal­per­sónan tengist henni sterkum böndum.

Ó­borgan­legur starfs­titill

Í sögunni „Óráð“ er fjallað um þá ógn­vekjandi stöðu að vera karl­maður og sitja einn heima yfir veiku barni. „Blek­hafið“ segir frá konu sem fer í læknis­skoðun vegna þungunar sem lengst af í sögunni virðist nokkuð langt fram gengin. Hjá lækninum fær hún þau erfiðu tíðindi að fóstrið sé horfið og enginn veit hvað varð af því. Sögunni er síðan snúið frá fæðingum að dauða og hvort tveggja virðist frekar ó­raun­veru­legt. Er eða er ekki en skiptir annars litlu.

Loka­sagan „Nætur­sveifin“ segir frá manni með al­deilis ó­borgan­legan starfs­titil. Hann er „bak­dyra­vörður“! í leik­húsi. Á hverju kvöldi snýr hann hinni vel földu nætur­sveif og alltaf kemur nóttin. Bak­dyra­vörðurinn okkar veit hins vegar ekki hvers vegna hann á að snúa þessari sveif og finnur það aldrei út. Honum var sagt þegar hann hóf störf að þetta væri mikil­vægt og mætti aldrei gleymast. Kafka hefði haft gaman af þessu!

Yfir vötnum þessara smá­sagna svífur grunur um merkingar­leysi nú­tímans.

Merkingar­leysi nú­tímans

Yfir vötnum þessara smá­sagna svífur grunur um merkingar­leysi nú­tímans. Fólkið er þrælar vanans, með­vitundar­laust eins og vél­menni og getur einna helst myndað sam­band við önnur vél­menni. Nú­tíminn er trunta og mann­hyggjan á undan­haldi. Ég viður­kenni að við lesturinn varð mér stundum hugsað til Lewis Car­roll og Lísu í Undra­landi þar sem or­saka­sam­henginu er snúið á haus, og stundum til Guð­bergs Bergs­sonar þegar hann var upp á sitt besta. Ekki veit ég af hverju.

Niður­staða: Sér­stætt og mjög á­huga­vert sagna­safn. Sam­fé­lags­gagn­rýnin ó­vægin og hug­renn­inga­­tengsl frum­leg! Vonandi kemur meira efni frá Örvari Smára­syni sem fyrst.