Það eru góðar fréttir og slæmar af að­ventu­tón­leikum Sin­fóníu­hljóm­sveitar Ís­lands á fimmtu­dags­kvöldið. Góðu fréttirnar eru að allt var á sínum stað fyrir hlé. Slæmu fréttirnar eru að þar á eftir var annað og verra uppi á teningnum.

Byrjum á slæmu fréttunum. Jon­a­t­han Cohen stjórnaði sin­fóníu í g-moll nr. 40 eftir Mozart og túlkun hans var af­skap­lega yfir­borðs­leg. Fyrsti kaflinn á vissu­lega að vera hraður, en það á samt að vera á­kveðin draum­kennd stemning í tón­listinni. Þar er tign og fegurð sem til­heyrir æðri til­vist – ef svo má að orði komast. Þetta skilaði sér engan veginn á tón­leikunum. And­rúms­loftið var stressað. Maður fékk á til­finninguna að Cohen væri fyrst og fremst að reyna að koma sem flestum nótum að á sem skemmstum tíma. Hraðinn virkaði vél­rænn og tón­listin, eins stór­kost­leg og hún er, var hvorki fugl né fiskur.

Annar kaflinn var and­laus og skorti hinn yndis­lega frið sem ein­kennir hæga kafla Mozarts í ótal verkum. Þriðji kaflinn, sem ber yfir­skriftina Alle­gretto og er menúett, var sömu­leiðis ekki góður. Menúett er dans og á að vera þokka­fullur og ekki of hraður. Hér var hraðinn svo of­boðs­legur að það var eins og að vera vitni að kapp­akstri. Fyrir vikið var tón­listin að­eins skrum­skæling af sjálfri sér, og svipaða sögu er að segja um síðasta kaflann.

Góðu fréttirnar eru að allt var á sínum stað fyrir hlé. Slæmu fréttirnar eru að þar á eftir var annað og verra uppi á teningnum.

Glæstur ein­söngur

Nei, þá var miklu meira varið í fyrri hluta tón­leikanna. Þar fékk hljóm­sveitar­stjórinn ekki að baða út öllum öngum og þurfti að fylgja ein­leikurum eða ein­söngvara. Tim Mead kontra­tenór söng ein­söng í kantötu RV 684 eftir Vivaldi, sem og í tveimur aríum eftir Händel. Hann gerði það með glæsi­brag. Söngur hans var einkar líf­legur og kraft­mikill, röddin tær og safa­rík.

Fyrir þá sem ekki vita er kontra­tenór karl­maður sem syngur í falsettu eins og kona. Á­stæðuna fyrir því má rekja til Páls postula. Í fyrra Korintu­bréfi segir hann að konur skuli „þegja á safnaðar­sam­komum því að þeim er ekki leyft að tala heldur skulu þær hlýða...“ Þetta hafði þær af­leiðingar að konur máttu ekki syngja í trúar­legum verkum í denn, og karl­menn reyndu að herma eftir rödd þeirra.

Prýði­legur ein­leikur

Frammi­staða Veru Panitch fiðlu­leikara og Stein­eyjar Sigurðar­dóttur selló­leikara var einnig mögnuð. Þær voru ein­leikararnir í kon­sert í B-dúr RV 547 eftir Vivaldi og hristu alls konar tóna­hlaup fram úr erminni. Leikur þeirra var á­reynslu­laus og flæðandi, túlkunin full af snerpu, á­vallt lifandi.

Loks ber að nefna for­leik að óperunni Talestri, regina delle amazz­oni, eftir Maríu Antóníu Wal­pur­gis. Hún var uppi á á­tjándu öld og var af göfugum ættum og fékk því góða menntun. Konur áttu al­mennt ekki mikilli vel­gengni að fagna sem tón­skáld í gamla daga. Sumar þurftu meira að segja að þykjast vera karl­menn til að vera teknar al­var­lega. Wal­pur­gis var ein af fáum undan­tekningum, og tón­list hennar lét vel í eyru á tón­leikunum, var bæði blátt á­fram og ljúf. Synd hve Mozart var slæmur.

Niður­staða: Frá­bær ein­söngur og ein­leikur en annað var verra.