Þegar ég var tveggja eða þriggja ára fóru for­eldrar mínir með mig til Kaup­manna­hafnar rétt fyrir jól. Einn daginn fór ég með pabba niður í bæ. Þá sá ég mann í hvítum kattar­búningi. Pabbi sagði mér að þetta væri Jóla­kötturinn. Ég varð skelfingu lostinn. Og ekki að undra. Jóla­kötturinn var ó­vættur, gælu­dýr Grýlu og Leppa­lúða og hann át börn sem fengu ekki föt í jóla­gjöf. Var hann að fara að éta mig?

Jóla­kettinum brá fyrir á tón­leikum Söng­sveitarinnar Fíl­harmóníu í Lang­holts­kirkju síðasta sunnu­dags­kvöld. Þetta voru að­ventu­tón­leikar og á efnis­skránni voru lög sem hæfðu til­efninu. Eitt þeirra var Jóla­kötturinn eftir Ingi­björgu Þor­bergs við ljóð eftir Jóhannes úr Kötlum. Í sjálfu sér er lagið dá­lítið klunna­legt því það er svo endur­tekninga­samt, en út­setningin hér var skemmti­leg. Hún var eftir Skarp­héðin Þór Hjartar­son og ein­kenndist af hug­vitsam­legum til­þrifum og sí­vaxandi krafti. Kórinn stappaði og ein­hverjir mjálmuðu á við­eig­andi stöðum. Út­koman hitti beint í mark.

Mis­skemmti­legur fyrri hluti

Eins og gengur á svona tón­leikum var fyrri hluti dag­skrárinnar helgaður dá­lítið þung­meltri tón­list, en létt­metið réð ríkjum í seinni helmingnum. Eitt af þyngri lögunum var hið frum­flutta Við sem komum víða að eftir Tryggva Bald­vins­son. Það var af­skap­lega fal­leg tón­list, mjög ljóð­ræn og flæðandi. Mariam Mat­rem Virgi­nem, um Maríu mey eftir Michael McG­lynn við mið­alda­texta var líka há­stemmt og fullt af andakt. Ég höfði lýt eftir Hreiðar Inga Þor­steins­son var sömu­leiðis á­gætt, bæði grípandi og nett.

Sísta lagið á efnis­skránni var án efa Betlehem­stjarnan eftir Ás­kel Jóns­son. Það var ótta­leg armæða, svo drunga­legt og leiðin­legt að furðu sætti að það skyldi rata á tón­leikana, sem annars voru svo upp­lífgandi.

Söng­sveitin Fíl­harmónía söng prýði­lega. Söngurinn var tær og inni­legur, sam­taka og styrk­leika­jafn­vægi mis­munandi radd­hópa eins og best verður á kosið.

En svo byrjaði stuðið

Nokkur frá­bær lög voru flutt á seinni helmingi dag­skrárinnar, á borð við hið sí­vin­sæla þjóð­lag frá Kata­lóníu, Fúm, fúm, fúm, einnig Jóla­sveinninn minn, Stráið salinn, og svo hin dá­sam­lega Ave María eftir Sig­valda Kalda­lóns. Við á­heyr­endurnir fengum meira að segja að syngja með, en það var í laginu Nú ljóma aftur ljósin skært. Ein­hverjir gárungar hafa breytt titlinum í Nú ljóma aftur­ljósin skært, en hér virtist textinn ekki standa í neinum. Söngurinn var fullur af til­finningum og enginn flissaði.

Hall­veig Rúnars­dóttir sópran söng ein­söng í nokkrum lögum og gerði það af mikilli fag­mennsku. Söngurinn var kröftugur, magn­þrunginn og upp­hafinn. Hörpu­leikur Elísa­betar Wa­age var líka óm­þýður og lét vel í eyrum.

Söng­sveitin Fíl­harmónía söng prýði­lega. Söngurinn var tær og inni­legur, sam­taka og styrk­leika­jafn­vægi mis­munandi radd­hópa eins og best verður á kosið. Magnús Ragnars­son stjórnaði og gerði það af kost­gæfni. Hann er með músíkalskari mönnum, með næma til­finningu fyrir skáld­skapnum í tón­listinni og hefur svo mikið að segja. Hann er ein­fald­lega frá­bær kór­stjóri.

Niður­staða: Mjög skemmti­legir tón­leikar að lang­flestu leyti.