Tón­list

Hjóna­bands­sæla

Verk eftir Schumann.

Flytj­endur: Hlín Péturs­dóttir Behrens og Erna Vala Arnar­dóttir

Eld­borg í Hörpu sunnu­daginn 7. ágúst

Einn brandari á netinu hljómar svo: „Þegar ég var greindur með geð­hvarfa­sýki vissi ég ekki hvort ég átti að hlæja eða gráta.“ Tón­skáldið Robert Schumann fékk ein­mitt þessa greiningu, en þó ekki fyrr en löngu eftir dauða sinn. Lengi var talið að hann hefði verið með geð­klofa, eða schizop­hreniu. En svo var það lærður geð­læknir, Hans Gru­hle, sem af­greiddi málið 50 árum eftir dauða Schu­manns, kvað úr um að hann hefði verið með geð­hvarfa­sýki. Hann hélt því líka fram að hann hafi þjáðst af loka­stigi sára­sóttar, sem getur m.a. valdið heila­bilun.

Víst er að tón­list Schu­manns er mjög öfga­kennd, og sönglögin sem flutt voru á tón­leikum í Eld­borg í Hörpu á sunnu­daginn voru full af til­finningum. Tón­leikarnir voru hluti af ár­legri tón­listar­há­tíð sem nefnist Seigla. Að þessu sinni kom fram Hlín Péturs­dóttir Behrens sópran og Erna Vala Arnar­dóttir píanó­leikari. Á­heyr­endur sátu á sviðinu og horfðu út í sal, sem var ó­vana­legt.

Víst er að tón­list Schu­manns er mjög öfga­kennd, og sönglögin sem flutt voru á tón­leikum í Eld­borg í Hörpu á sunnu­daginn voru full af til­finningum.

Sjóðandi heitt stjörnupar

Yfir­skrift tón­leikanna var Hjóna­bands­sæla. Robert og Clara Schumann voru eitt helsta stjörnupar tón­listar­sögunnar. Þau voru sam­herjar, hann tón­skáldið en hún heims­frægur píanó­leikari. Hún var reyndar tón­skáld líka og samdi for­kunnar­fagra tón­list, en það er önnur saga. Á milli at­riða sögðu þær Hlín og Erna frá ýmsu úr lífi hjónanna, hvernig sam­band þeirra var og hvað þau skrifuðu í dag­bækur sínar. Það var mjög skemmti­legt og fróð­legt og kitlaði oft hlátur­taugar á­heyr­enda, undir­ritaðs þar á meðal.

Mis­heppnuð túlkun

Þetta eru góðu fréttirnar. Þær slæmu eru að sjálfur tón­listar­flutningurinn var ekkert til að hrópa húrra fyrir. Söngur Hlínar var af­skap­lega tak­markaður. Röddin var mjó og veik­burða, til­finningarnar í skáld­skapnum sem tón­listin átti að miðla skiluðu sér engan veginn til á­heyr­enda. Túlkunin var ris­lítil og risti heldur ekki djúpt. Lögin, sem voru öll eftir Schumann, voru úr ýmsum áttum og fjölluðu um marg­vís­legar hliðar ástarinnar, en það var ekki að heyra hér. Þvert á móti var söngurinn alltaf eins, þar var engin fjöl­breytni, ekkert í­myndunar­afl.

Erna Vala spilaði á­gæt­lega á píanóið í söng­lögunum, en píanó­röddin þar er svo sem ekki mjög krefjandi. Miklu verri var ein­leikur hennar í þremur fantasíum úr Kreisleriana eftir Schumann, en hann var hreint alls ekki full­nægjandi. Fantasíurnar voru nr. 5, 6 og 7 og ein­kenndust af minnis­gloppum og ó­öryggi í flutningi. Sú síðasta, mjög hröð, var verst, auk þess sem Erna Vala sleppti að spila seinni helming hennar. Út­koman var alls ekki góð. Þetta er synd því ég hef heyrt báðar lista­konurnar í flottu formi, og því er ljóst að þær geta gert mun betur. n

Niður­staða: Fróð­leg dag­skrá en tón­listar­flutningurinn olli von­brigðum.