Jeani­ne Cohen

Inner Space

Hverfis­galleríi

30.4.–2.7. 2022

Vilji menn grennslast fyrir um rykti mynd­listar­manna í sam­tímanum er þjóð­ráð að gúggla þá. Í dag er Henri Matis­se með býsna af­gerandi for­skot á aðra kollega sína, lífs og liðna, með 117 milljón færslur á vefnum. Það kemur kannski flatt upp á ein­hvern að hollenski mein­læta­maðurinn Piet Mondria­an skuli einnig vera mjög hátt skrifaður af al­grími veraldar­vefjar.

Að hluta til má skrifa það á vin­sældir verka hans meðal hönnuða, sem séð hafa í hár­ná­kvæmri og fá­brotinni byggingu verka hans og út­spekúleraðri beitingu frum­lita upp­skriftir að þénugri hönnun hluta og um­hverfis.

En mynd­listar­menn síðari tíma hafa einnig haldið til streitu þessum vinnu­brögðum Mondriaans, sem kennd hafa verið við „hrein­stefnu“, en fært þau í átt til meira frjáls­ræðis. Kenni­setning hans hljóðaði upp á hug­læg verk með strang­lega lá­réttar og lóð­réttar á­herslur, frum­litina þrjá (plús „lit­leysurnar“ svart og grátt) og svo auð­vitað ó­skoraða tví­vídd. Helsti sam­starfs­maður Mondriaans, Van Does­burg, bætti um betur, inn­leiddi ská­línur og fjöl­breyttara lit­róf, en tók að öðru leyti undir megin­for­sendur starfs­bróður síns og fjand­vinar.

Mynd­list hennar er reist á grunni þeim sem Mondria­an og Van Does­burg eru höfundar að, en tekur í með­förum lista­konunnar þýðingar­miklum breytingum, mörkuðum af frjórri hugsun og sér­stakri fágun hennar sjálfrar.

Í sam­bandi við sýningar­rýmið

Þessar for­sendur lifa enn góðu lífi í verkum margra evrópskra mynd­listar­manna, einkum þeirra sem fást við rann­sóknir á um­hverfi okkar og skynjun. Afar vandaður mynd­listar­maður úr þeim ranni, belgíska lista­konan Jeani­ne Cohen, hefur nokkrum sinnum sýnt verk sín á vegum Hverfis­gallerís. Þar gefst nú tæki­færi til að berja augum ný verk eftir hana til 2. júlí næst­komandi.

Mynd­list hennar er reist á grunni þeim sem Mondria­an og Van Does­burg eru höfundar að, en tekur í með­förum lista­konunnar þýðingar­miklum breytingum, mörkuðum af frjórri hugsun og sér­stakri fágun hennar sjálfrar. Burðar­einingar þessara verka eru eftir sem áður tví­víðir fletir, eins og þeir sem um­lykja okkur hvers­dags­lega, en lit­róf þeirra er langtum víð­tækara en það sem við sjáum í verkum for­veranna, tekur til pastel­tóna, viðar­tóna og jafn­vel sjálf­lýsandi lita sem kallast á innan vé­banda verkanna, en teygja sig einnig út fyrir verkin og eiga í frjóu sam­bandi við (hvítt) sýningar­rýmið.

Verk af sýningu Jeanine Cohen í Hverfisgalleríi.
Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

Út í ljós­vakann

Annað ein­kenni á þessum verkum er hve skipu­lega lista­konan gengur á hólm við inn­múraða tví­vídd flatanna, með því að leggja þá hvern ofan á annan, eða jafn­vel að­skilja þá, og hefir sú ráð­stöfun einnig á­hrif á það hvernig við skynjum verkin og vegg­rýmið handan þeirra. En sér­stakt auð­kenni á þessum nýjustu verkum Jeani­ne Cohen í Hverfis­galleríi mætti kenna við arki­tektúr.

Mondria­an lagði mikið upp úr „grind­verki“ mál­verka sinna, svörtum línum sem héldu utan um litina, en hélt því um leið fram að þessar línur ættu sér ekki enda­punkt; á­horf­andinn ætti að í­mynda sér að þær héldu á­fram út í ljós­vakann og al­heiminn.

Jeani­ne Cohen hendir þessa hug­mynd á lofti með því að fram­lengja trélistana, burðar­virki mynda sinna, langt út fyrir megin­grunn þeirra, sem bæði gefur þeim „kosmíska“ vídd og verður til þess að inn­lima vegg­rýmið kringum þær, gera um­hverfið að merkingar­bærum þætti þeirra. Í inn­gangi talar Birta Guð­jóns­dóttir um þessi verk sem „veg­vísa inn í dag­lega lífið“. Sem eru orð að sönnu.