Jeanine Cohen
Inner Space
Hverfisgalleríi
30.4.–2.7. 2022
Vilji menn grennslast fyrir um rykti myndlistarmanna í samtímanum er þjóðráð að gúggla þá. Í dag er Henri Matisse með býsna afgerandi forskot á aðra kollega sína, lífs og liðna, með 117 milljón færslur á vefnum. Það kemur kannski flatt upp á einhvern að hollenski meinlætamaðurinn Piet Mondriaan skuli einnig vera mjög hátt skrifaður af algrími veraldarvefjar.
Að hluta til má skrifa það á vinsældir verka hans meðal hönnuða, sem séð hafa í hárnákvæmri og fábrotinni byggingu verka hans og útspekúleraðri beitingu frumlita uppskriftir að þénugri hönnun hluta og umhverfis.
En myndlistarmenn síðari tíma hafa einnig haldið til streitu þessum vinnubrögðum Mondriaans, sem kennd hafa verið við „hreinstefnu“, en fært þau í átt til meira frjálsræðis. Kennisetning hans hljóðaði upp á huglæg verk með stranglega láréttar og lóðréttar áherslur, frumlitina þrjá (plús „litleysurnar“ svart og grátt) og svo auðvitað óskoraða tvívídd. Helsti samstarfsmaður Mondriaans, Van Doesburg, bætti um betur, innleiddi skálínur og fjölbreyttara litróf, en tók að öðru leyti undir meginforsendur starfsbróður síns og fjandvinar.
Myndlist hennar er reist á grunni þeim sem Mondriaan og Van Doesburg eru höfundar að, en tekur í meðförum listakonunnar þýðingarmiklum breytingum, mörkuðum af frjórri hugsun og sérstakri fágun hennar sjálfrar.
Í sambandi við sýningarrýmið
Þessar forsendur lifa enn góðu lífi í verkum margra evrópskra myndlistarmanna, einkum þeirra sem fást við rannsóknir á umhverfi okkar og skynjun. Afar vandaður myndlistarmaður úr þeim ranni, belgíska listakonan Jeanine Cohen, hefur nokkrum sinnum sýnt verk sín á vegum Hverfisgallerís. Þar gefst nú tækifæri til að berja augum ný verk eftir hana til 2. júlí næstkomandi.
Myndlist hennar er reist á grunni þeim sem Mondriaan og Van Doesburg eru höfundar að, en tekur í meðförum listakonunnar þýðingarmiklum breytingum, mörkuðum af frjórri hugsun og sérstakri fágun hennar sjálfrar. Burðareiningar þessara verka eru eftir sem áður tvívíðir fletir, eins og þeir sem umlykja okkur hversdagslega, en litróf þeirra er langtum víðtækara en það sem við sjáum í verkum forveranna, tekur til pasteltóna, viðartóna og jafnvel sjálflýsandi lita sem kallast á innan vébanda verkanna, en teygja sig einnig út fyrir verkin og eiga í frjóu sambandi við (hvítt) sýningarrýmið.

Út í ljósvakann
Annað einkenni á þessum verkum er hve skipulega listakonan gengur á hólm við innmúraða tvívídd flatanna, með því að leggja þá hvern ofan á annan, eða jafnvel aðskilja þá, og hefir sú ráðstöfun einnig áhrif á það hvernig við skynjum verkin og veggrýmið handan þeirra. En sérstakt auðkenni á þessum nýjustu verkum Jeanine Cohen í Hverfisgalleríi mætti kenna við arkitektúr.
Mondriaan lagði mikið upp úr „grindverki“ málverka sinna, svörtum línum sem héldu utan um litina, en hélt því um leið fram að þessar línur ættu sér ekki endapunkt; áhorfandinn ætti að ímynda sér að þær héldu áfram út í ljósvakann og alheiminn.
Jeanine Cohen hendir þessa hugmynd á lofti með því að framlengja trélistana, burðarvirki mynda sinna, langt út fyrir megingrunn þeirra, sem bæði gefur þeim „kosmíska“ vídd og verður til þess að innlima veggrýmið kringum þær, gera umhverfið að merkingarbærum þætti þeirra. Í inngangi talar Birta Guðjónsdóttir um þessi verk sem „vegvísa inn í daglega lífið“. Sem eru orð að sönnu.