Harpa er ekki óperu­hús, en það var varla að maður tryði því á frum­sýningunni á Madömu Butter­fly á laugar­dags­kvöldið. Óperan er eftir Puccini og gerist í Japan í gamla daga. Sviðs­myndin var al­sett japönskum táknum, og húsið hátt uppi á hæð við endann á löngum hrör­legum stiga var full­kom­lega í stíl. Hug­vitsam­leg og fjöl­breyti­leg lýsing skapaði mikla stemningu og búningarnir voru sann­færandi.

Söngurinn var glæsi­legur og hljóð­færa­leikurinn vandaður. Jafn­vægi á milli söngs og hljóm­sveitar var ó­venju gott fyrir Eld­borgina, þar sem söngvarar eiga það til að vera út undan. Leik­stjórnin var líka flott og hvergi var dauður punktur í leiknum eða sviðs­hreyfingunum. Þetta voru töfrar.

Brúð­kaup í hálf­kæringi

Madama Butter­fly fjallar um unga japanska stúlku sem banda­rískur sjó­liðs­foringi kvænist, meira í hálf­kæringi en al­vöru. Þegar hann svo þarf að fara af landi brott gerir hann sér lítið fyrir og nær sér í aðra konu í Banda­ríkjunum. Japanska stúlkan er hins vegar ein­læg í til­finningum sínum og bíður eftir honum, á­samt syni þeirra, árum saman, sann­færð um að þau muni taka upp þráðinn að nýju. Það gerist aldrei og sagan hlýtur sorg­legan endi.

Aðal­hlut­verkið var í höndunum á Hye-Youn Lee, sem hefur túlkað hlut­verk Cio-Cio San, einnig kölluð Madama Butter­fly, marg­oft. Það var auð­fundið, því frammi­staða hennar var stór­feng­leg í afar krefjandi hlut­verkinu. Hún söng eigin­lega allan tímann! Röddin var lýrísk, silki­mjúk og voldug allt í senn, til­finningin í söngnum djúp og ekta. Mér fannst ég heyra mörg ekka­sog í salnum í blóðugu loka­at­riðinu.

Flottir söngvarar

Egill Árni Páls­son var sjóð­liðs­foringinn og stóð sig prýði­lega. Hann hefur máttuga tenór­rödd sem sat vel og var sterk­hljómandi á sýningunni. Leikurinn var líka trú­verðugur, fram­koma hans var í senn inni­leg, en samt svo fölsk; hvort tveggja var sann­færandi í túlkun hans.

Svipaða sögu er að segja um Hrólf Sæ­munds­son í hlut­verki banda­ríska ræðis­mannsins; hann verður betri og betri með hverju árinu. Hrólfur hefur djúpa og þýða rödd; söngur hans á sýningunni var full­kom­lega á­reynslu­laus. Per­sóna hans var klaufa­leg en um leið full af um­hyggju, og Hrólfur náði að leika það vel.

Þerna og náin vin­kona Butter­fly var leikin af Arn­heiði Ei­ríks­dóttur og var sömu­leiðis í fremstu röð, hún hafði einkar mjúka og óm­þýða rödd. Aðrir söngvarar stóðu sig með sóma, Jón Svavar Jósefs­son var til dæmis kostu­legur í á­mát­legu hlut­verki von­biðils; maður skelli­hló að honum.

Sér­stak­lega ber að nefna barn­ungan son Butter­fly og sjóð­liðs­foringjans, en hann var leikinn af Tómasi Inga Harðar­syni. Hann var ein­fald­lega frá­bær, enda upp­skar hann mörg húrra­hróp í lok sýningarinnar.

Ljóst er að Madama Butter­fly er ein­hver besta upp­færsla Ís­lensku óperunnar frá upp­hafi.

Spilað af kost­gæfni

Eins og áður sagði var hljóm­sveitin með allt á hreinu undir stjórn Le­vente Török. Sam­hljómur söngs og hljóð­færa­leiks var í á­gætu jafn­vægi. Söngurinn naut sín til fulls, en samt var nota­leg fylling og að­dáunar­verð breidd í hljóm­sveitar­leiknum. Hljóm­sveitin var vissu­lega nokkuð sterk, en hún átti að vera það og fór aldrei yfir strikið. Í svona óperum á bæði söngur og hljóð­færa­leikur að vera í botni, ef svo má segja.

Kór Ís­lensku óperunnar stóð sig vel undir stjórn Magnúsar Ragnars­sonar og búningar kórsins, sem og allra annarra, á á­byrgð Maríu Th. Ólafs­dóttur, voru augna­yndi. Lýsing Þórðar Orra Péturs­sonar skapaði seiðandi and­rúms­loft aftur og aftur, og sviðs­myndin í höndunum á Michiel Dijkema var gluggi inn í annan heim. Leik­stjórn hans var líka lifandi og kröftug, snörp og sam­svaraði sér vel, með hæfi­legum skammti af húmor í svo sorg­legu um­fjöllunar­efni. Enda ætlaði allt um koll að keyra í upp­klappinu. Ljóst er að Madama Butter­fly er ein­hver besta upp­færsla Ís­lensku óperunnar frá upp­hafi.

Niður­staða: Ein­fald­lega frá­bær sýning.