Við ljúgum öll. En að hverjum? Öðru fólki? Mökum okkar? Okkur sjálfum? Hverjar eru á­stæður lyga og hverjar eru af­leiðingarnar? Hve­nær verður hvít lygi hættu­leg hauga­lygi? Erfiðum spurningum er varpað fram í jóla­sýningu Þjóð­leik­hússins en svörum er erfitt að henda reiður á. Ellen B. er fyrsti hluti af nýjum þrí­leik eftir þýska leik­skáldið Marius von Mayen­burg, annar hluti verður frum­sýndur í lok janúar 2023 og sá þriðji næsta haust.

Ellen B. gerist á sama stað, í stofunni, og á sama tíma, í raun­tíma. Á­taka­kvöld­stund á milli þriggja ein­stak­linga sem allir hafa eitt­hvað að fela. Þrátt fyrir af­markaða um­gjörð snýst leik­verkið um for­tíðina og fram­tíðina, or­sök og mögu­legar af­leiðingar. Hvað gerðist á milli þeirra þriggja? Hver er gerandinn? Hver er þolandinn?

Marius von Mayen­burg er eitt at­hyglis­verðasta leik­skáld Þýska­lands um þessar mundir og í Ellen B. tekst hann á við stórar hug­myndir með stíl og form að vopni. Vald­beiting, kynja­mis­rétti, kyn­slóða­bar­átta og kyn­ferðis­leg mis­notkun. Ekkert er honum ó­við­komandi. En hver er Ellen B? Skuggi hennar svífur yfir stofunni á leik­sviðinu á­samt Pat­riciu Hig­h­­smith, höfundi sem sér­hæfði sig í sál­fræði­tryllingi, lyga­vefjum og mis­góðu fólki.

Astrid spíg­sporar um sviðið eins og ljón­ynja í vörn, hörfar og klórar til skiptis, og fyllir upp í þagnirnar með stingandi augna­ráði.
Mynd/Jorri

Til­finninga­rússí­bani

Leik­ritið gerist á heimili Astrid, sem leikin er af Unni Ösp Stefáns­dóttur. Astrid er venju­legur kennari í venju­legum skóla sem þráir fram­gang í sínu starfi og á­taka­laust heimilis­líf en verður mið­punktur á­taka. Unnur Ösp er upp á sitt besta í hlut­verkinu. Hún spíg­sporar um sviðið eins og ljón­ynja í vörn, hörfar og klórar til skiptis, og fyllir upp í þagnirnar með stingandi augna­ráði, stundum sár­bænandi en stundum skipandi.

Kveikurinn að kvöld­stundinni er koma Úlfs, skóla­stjóra skólans þar sem Klara, sam­býlis­kona Astridar, stundaði nám og Astrid kennir. Bene­dikt Er­lings­son mætir eins og eldi­brandur, til­búinn að kveikja í til­vist kvennanna til að fá sitt fram. Ekki er hægt að sjá að Bene­dikt hafi ekki staðið á leik­sviði í ára­tug. Hann er skarpur, kómísku tíma­setningarnar hár­fínar og til­finninga­rússí­bani Úlfs er eftir­minni­legur.

Ekki er hægt að sjá að Bene­dikt Erlingsson hafi ekki staðið á leik­sviði í ára­tug að mati gagnrýnanda.
Mynd/Jorri

Hvati fyrir aðra

Klara, leikin af Ebbu Katrínu Finns­dóttur, hefur ímugust á Úlfi og margt að fela, líkt og hin tvö. En fyrir hvern? Klara er fremur ó­skrifað blað og þrátt fyrir sterkan leik á köflum, sér­stak­lega undir lokin, þá er Ebba Katrín fremur til­finninga­lega flöt í hlut­verkinu sem endur­speglar van­kanta leik­verksins.

Klara fær sjaldan rödd heldur er notuð sem leppur fyrir átök Astridar og Úlfs, við­hengi í lífi Astridar. Klara hefur hefur lítið á­kvörðunar­vald og þar af leiðandi fá­brotna ger­enda­hæfni nema undir blá­lokin og ó­ljóst er hverju hún hefur að tapa. Hið sama gildir með Ellen B. Þær eru aðal­lega hvatinn fyrir þróun annarra frekar en hva­ta­konur í eigin lífi.

Nina Wetzel hannar leik­mynd og búninga með naum­hyggjuna að leiðar­ljósi. Við horfum á per­sónur verksins eins og í gegnum smá­sjá, ofan í ræktunar­skál þar sem sam­fé­lags­leg vanda­mál sam­tímans fjöl­faldast fyrir framan augu á­horf­enda. Hljóð­hönnunin og lýsingin styðja þétt við þessa fagur­fræði, ofur­bjart ljósið eins og gildra í bland við endur­tekinn takt sem gæti verið hjart­sláttur, skeið­klukka eða sprengju­niður­talning.

Ellen B. spyr fleiri spurninga heldur en hún svarar og er merki­legt skref í sögu Þjóð­leik­hússins, vonandi merki komandi tíma.

Mann­legur harm­leikur

Eftir langa fjar­veru er ástralski leik­stjórinn Bene­dict Andrews kominn aftur til að leik­stýra í Þjóð­leik­húsinu, heims­við­burður líkt og leik­ritið. Í staðinn fyrir í­burðar­mikla um­gjörð og tækni­brellur fyrri sýninga Andrews í Þjóð­leik­húsinu er allt strípað niður og eftir stendur mann­legur harm­leikur, bar­átta ein­stak­linga sem hann stjórnar virki­lega vel. Hann hikar þó ekki við að teygja á raun­veru­leikanum, vinna gegn klassísku stofu­dramatíkinni og minna á­horf­endur á að þeir séu í leik­húsi.

Á­kvörðun Andrews um að færa leikinn inn í á­horf­enda­salinn færir per­sónur leiksins undan smá­sjánni, líkt og þær eigi sér undan­komu­leið. Slíkt dregur úr sprengi­krafti sýningarinnar þó að sumar senurnar, þar á meðal þegar Klara situr úti í sal, virki á­gæt­lega.

Ellen B. spyr fleiri spurninga heldur en hún svarar og er merki­legt skref í sögu Þjóð­leik­hússins, vonandi merki komandi tíma. Hér er á ferðinni eftir­tektar­vert leik­verk um á­ta­ka­fleti sam­tímans, bar­áttu kyn­slóðanna og per­sónu­lega á­byrgð. Ellen B. er leik­sýning til að taka mark á og sjá þrátt fyrir van­kanta. Merki­legu leik­sýningarnar eru nefni­lega ekki þær galla­lausu, ef þannig sýningar eru yfir­höfuð til, heldur þær sem vekja á­horf­andann til um­hugsunar.

Niður­staða: Kvik­sjá lyga og mann­legs breysk­leika sem heldur á­horf­endum á tánum allan tímann.