Við ljúgum öll. En að hverjum? Öðru fólki? Mökum okkar? Okkur sjálfum? Hverjar eru ástæður lyga og hverjar eru afleiðingarnar? Hvenær verður hvít lygi hættuleg haugalygi? Erfiðum spurningum er varpað fram í jólasýningu Þjóðleikhússins en svörum er erfitt að henda reiður á. Ellen B. er fyrsti hluti af nýjum þríleik eftir þýska leikskáldið Marius von Mayenburg, annar hluti verður frumsýndur í lok janúar 2023 og sá þriðji næsta haust.
Ellen B. gerist á sama stað, í stofunni, og á sama tíma, í rauntíma. Átakakvöldstund á milli þriggja einstaklinga sem allir hafa eitthvað að fela. Þrátt fyrir afmarkaða umgjörð snýst leikverkið um fortíðina og framtíðina, orsök og mögulegar afleiðingar. Hvað gerðist á milli þeirra þriggja? Hver er gerandinn? Hver er þolandinn?
Marius von Mayenburg er eitt athyglisverðasta leikskáld Þýskalands um þessar mundir og í Ellen B. tekst hann á við stórar hugmyndir með stíl og form að vopni. Valdbeiting, kynjamisrétti, kynslóðabarátta og kynferðisleg misnotkun. Ekkert er honum óviðkomandi. En hver er Ellen B? Skuggi hennar svífur yfir stofunni á leiksviðinu ásamt Patriciu Highsmith, höfundi sem sérhæfði sig í sálfræðitryllingi, lygavefjum og misgóðu fólki.

Tilfinningarússíbani
Leikritið gerist á heimili Astrid, sem leikin er af Unni Ösp Stefánsdóttur. Astrid er venjulegur kennari í venjulegum skóla sem þráir framgang í sínu starfi og átakalaust heimilislíf en verður miðpunktur átaka. Unnur Ösp er upp á sitt besta í hlutverkinu. Hún spígsporar um sviðið eins og ljónynja í vörn, hörfar og klórar til skiptis, og fyllir upp í þagnirnar með stingandi augnaráði, stundum sárbænandi en stundum skipandi.
Kveikurinn að kvöldstundinni er koma Úlfs, skólastjóra skólans þar sem Klara, sambýliskona Astridar, stundaði nám og Astrid kennir. Benedikt Erlingsson mætir eins og eldibrandur, tilbúinn að kveikja í tilvist kvennanna til að fá sitt fram. Ekki er hægt að sjá að Benedikt hafi ekki staðið á leiksviði í áratug. Hann er skarpur, kómísku tímasetningarnar hárfínar og tilfinningarússíbani Úlfs er eftirminnilegur.

Hvati fyrir aðra
Klara, leikin af Ebbu Katrínu Finnsdóttur, hefur ímugust á Úlfi og margt að fela, líkt og hin tvö. En fyrir hvern? Klara er fremur óskrifað blað og þrátt fyrir sterkan leik á köflum, sérstaklega undir lokin, þá er Ebba Katrín fremur tilfinningalega flöt í hlutverkinu sem endurspeglar vankanta leikverksins.
Klara fær sjaldan rödd heldur er notuð sem leppur fyrir átök Astridar og Úlfs, viðhengi í lífi Astridar. Klara hefur hefur lítið ákvörðunarvald og þar af leiðandi fábrotna gerendahæfni nema undir blálokin og óljóst er hverju hún hefur að tapa. Hið sama gildir með Ellen B. Þær eru aðallega hvatinn fyrir þróun annarra frekar en hvatakonur í eigin lífi.
Nina Wetzel hannar leikmynd og búninga með naumhyggjuna að leiðarljósi. Við horfum á persónur verksins eins og í gegnum smásjá, ofan í ræktunarskál þar sem samfélagsleg vandamál samtímans fjölfaldast fyrir framan augu áhorfenda. Hljóðhönnunin og lýsingin styðja þétt við þessa fagurfræði, ofurbjart ljósið eins og gildra í bland við endurtekinn takt sem gæti verið hjartsláttur, skeiðklukka eða sprengjuniðurtalning.
Ellen B. spyr fleiri spurninga heldur en hún svarar og er merkilegt skref í sögu Þjóðleikhússins, vonandi merki komandi tíma.
Mannlegur harmleikur
Eftir langa fjarveru er ástralski leikstjórinn Benedict Andrews kominn aftur til að leikstýra í Þjóðleikhúsinu, heimsviðburður líkt og leikritið. Í staðinn fyrir íburðarmikla umgjörð og tæknibrellur fyrri sýninga Andrews í Þjóðleikhúsinu er allt strípað niður og eftir stendur mannlegur harmleikur, barátta einstaklinga sem hann stjórnar virkilega vel. Hann hikar þó ekki við að teygja á raunveruleikanum, vinna gegn klassísku stofudramatíkinni og minna áhorfendur á að þeir séu í leikhúsi.
Ákvörðun Andrews um að færa leikinn inn í áhorfendasalinn færir persónur leiksins undan smásjánni, líkt og þær eigi sér undankomuleið. Slíkt dregur úr sprengikrafti sýningarinnar þó að sumar senurnar, þar á meðal þegar Klara situr úti í sal, virki ágætlega.
Ellen B. spyr fleiri spurninga heldur en hún svarar og er merkilegt skref í sögu Þjóðleikhússins, vonandi merki komandi tíma. Hér er á ferðinni eftirtektarvert leikverk um átakafleti samtímans, baráttu kynslóðanna og persónulega ábyrgð. Ellen B. er leiksýning til að taka mark á og sjá þrátt fyrir vankanta. Merkilegu leiksýningarnar eru nefnilega ekki þær gallalausu, ef þannig sýningar eru yfirhöfuð til, heldur þær sem vekja áhorfandann til umhugsunar.
Niðurstaða: Kviksjá lyga og mannlegs breyskleika sem heldur áhorfendum á tánum allan tímann.