Sönglögin eftir Kurt Weill eru mörg hver fjarska­lega fal­leg, eins og Youkali, sem er í eins konar tangó­stíl og fjallar um útópíu full­kominnar hamingju. Lagið er grípandi, í hefð­bundnum stíl dúr- og moll­tón­tegunda. Weill er þekktastur fyrir leik­hús­tón­list sína, og þar gengur yfir­leitt ekki að tón­listin sé of fram­úr­stefnu­leg eða flókin.

Við allt annan tón kvað á tón­leikum Sin­fóníu­hljóm­sveitar Ís­lands á fimmtu­dags­kvöldið, en þá var fluttur kon­sert fyrir fiðlu og blásara eftir Weill. Tón­málið var tals­vert meira framandi en maður á að venjast, lag­línurnar nokkuð óm­stríðar og hljómarnir annar­legir. Stemningin var al­var­leg og verkið var spennandi á­heyrnar. Auð­velt var að detta inn skáld­skapinn sem lá þar til grund­vallar, og kallaði hann fram alls konar myndir upp í hugann. Fram­vindan í tón­listinni var lokkandi, sí­fellt var eitt­hvað á­huga­vert að gerast, og lit­brigðin marg­ræð og seiðandi.

Safa­ríkur fiðlu­leikur

Flutningurinn var líka flottur. Erin Keefe var ein­leikarinn og fiðlan hljómaði prýði­lega í höndum hennar. Tónarnir voru fal­lega mótaðir og safa­ríkir og sam­spilið við hljóm­sveitina var ná­kvæmt. Kon­sertinn gerir miklar kröfur til ein­leikara og hljóm­sveitar, og sú síðar­nefnda stóðst þær á­gæt­lega. Alls konar fín­legar tóna­hendingar og hljómar voru snyrti­lega út­færðir og stígandin í sam­spili ein­leikara og hljóm­sveitar var þétt og hnit­miðuð.

Stjórnandi hljóm­sveitarinnar var Osmo Vänskä, sem er okkur Ís­lendingum að góðu kunnur. Hann stjórnaði einnig verki eftir sig sjálfan, for­leik sem var fyrsta at­riði efnis­skrárinnar. For­leikurinn var skreyttur fjöl­breyttum slag­verks­leik og var saminn, svo vitnað sé í tón­leika­skrána, „sem nokkurs konar fylgi­rödd við fiðlu­kon­sert Kurts Weill…“ án þess að það væri nánar út­skýrt eða væri auð­heyrt á tón­leikunum. For­leikurinn var í öllu falli húmorískur og mjög ó­líkur áður­nefndu tón­smíðinni. Stemningin var líf­leg og til­vitnunin í fimmtu sin­fóníu Beet­hovens var skondin.

Alls konar fín­legar tóna­hendingar og hljómar voru snyrti­lega út­færðir og stígandin í sam­spili ein­leikara og hljóm­sveitar var þétt og hnit­miðuð.

Glæsi­legir há­punktar

Síðasta verkið á efnis­skránni var sin­fónía nr. 3 eftir Mend­els­sohn. Hún er kölluð „Hin skoska“ og er inn­blásin af ferða­lagið tón­skáldsins þar á bæ. Þetta er af­skap­lega rómantísk tón­list, and­rúms­loftið er höfugt, stefin óm­þýð og há­punktarnir glæsi­legir. Hún ristir þó ekki sér­lega djúpt, ekkert frekar en svo margt annað eftir tón­skáldið. En hljóm­sveitin spilaði hana vel, mis­munandi hljóð­færa­hópar voru pott­þéttir á sínu og heildar­hljómurinn ein­beittur og mun­úðar­fullur þegar við átti. Túlkunin var sann­færandi, hið ljóð­ræna var vel fram­sett og glæsi­legu kaflarnir voru til­komu­miklir. Út­koman var í fremstu röð.

Niður­staða: Vandaðir og spennandi tón­leikar.