Leik­hús

Sem á himni

Carin Pollak og Kay Pollak

Þjóð­leik­húsið

Tón­list: Fredrik Kempe

Þýðing: Þórarinn Eld­járn

Leik­stjóri: Unnur Ösp Stefáns­dóttir

Leikarar: Elmar Gil­berts­son, Salka Sól Ey­feld, Val­gerður Guðna­dóttir, Katrín Hall­dóra Sigurðar­dóttir, Guð­jón Davíð Karls­son, Hin­rik Ólafs­son, Kjartan Darri Kristjáns­son, Ragn­heiður K. Stein­dórs­dóttir, Almar Blær Sigur­jóns­son, Sig­ríður Ey­rún Frið­riks­dóttir, Örn Árna­son, Edda Björg­vins­dóttir, Sigurður Sigur­jóns­son, Oddur Júlíus­son, Hall­grímur Ólafs­son og fleiri

Tón­listar­stjórn: Jón Ólafs­son

Leik­mynd: Ilmur Stefáns­dóttir

Lýsing: Björn Berg­steinn Guð­munds­son

Búningar: Filippía I. Elís­dóttir

Dans­höfundur: Lee Proud

Hljóð­hönnun: Kristinn Gauti Einars­son og Kristján Sig­mundur Einars­son

Heims­frægi og heilsu­litli hljóm­sveitar­stjórinn Daníel er í krísu, þjakaður af vondum æsku­minningum og móður­missi. Eftir heilsu­brest snýr hann aftur á heima­slóðir og finnur lífs­gleðina á ný í gegnum tón­listina og ástina. Söng­leikurinn Sem á himni og kvik­myndin Så som i himmelen, sem sýningin byggir á, möluðu gull í Sví­þjóð og nú ratar þessi saga á Stóra svið Þjóð­leik­hússins.

Sem á himni gerist í litlu sveita­þorpi þar sem allir þekkja alla og hverfist aðal­lega um þá sem taka þátt í kór­starfi plássins. Á blaði er hug­myndin um nýjan skandinavískan söng­leik heillandi og virðingar­vert af list­ræna teymi Þjóð­leik­hússins að líta í norður­átt. En Sem á himni er ekki rétti söng­leikurinn. Til að byrja með er hand­ritið svo dí­sætt að tann­lækna­heim­sókn eftir á­horf er á­kjósan­leg, sögu­þráðurinn vægast sagt göt­óttur og upp­fullur af klisjum.

Stórt per­sónu­gallerí

Söng­leikja­formið býður upp á mikið frelsi en sagan verður að hanga saman og sögu­per­sónur að vera trúan­legar, sér­stak­lega þegar sögu­sviðið er blá­kaldur skandinavískur raun­veru­leiki. Sem dæmi eiga á­horf­endur að trúa því að enginn þekki Daníel í sjón, mann sem ólst upp í þorpinu og hefur náð heims­frægð. Fyrir utan þá stað­reynd að for­saga hans er aldrei skoðuð. Per­sónu­galleríið er stórt en lítið um stórar per­sónur. Mann­legur breysk­leiki er fjar­verandi, karakterar spanna tak­markaðan til­finninga­skala og flestum þeirra kynnumst við lítið.

Óperu­söngvarinn Elmar Þór Gil­berts­son leikur Daníel og fer nokkuð vel með hlut­verkið, þar ber söngurinn af en leikurinn nær ekki sama takti. Salka Sól Ey­feld snýr aftur í Þjóð­leik­húsið en treystir frekar á per­sónu­töfrana og söng­hæfi­leika í staðinn fyrir að stíga inn í hlut­verk Lenu. Sam­leikur þeirra er ljúfur en fremur stirður, batnar þó þegar líða tekur á en dugar ekki til að hengja á heilan söng­leik.

Valgerður Guðnadóttir á besta lag sýningarinnar, Söngur Gabríellu, enda frambærileg söngkona og dregur áhorfendur til sín með þróttmiklum leik.
Mynd/Jorri

Tíma­skekkja á sviðinu

Guð­jón Davíð Karls­son og Hall­grímur Ólafs­son kunna sitt fag. Reynslu­miklir leikarar vita hvernig fylla skal í tví­víð hlut­verk sem báðir gera af natni og húmor. Val­gerður Guðna­dóttir á besta lag sýningarinnar, Söng Gabríelu, enda fram­bæri­leg söng­kona og dregur á­horf­endur til sín með þrótt­miklum leik. Þó er eftir­tektar­vert að aðrir höfundar eru skrifaðir fyrir þessu til­tekna lagi en þeir sem söng­leikinn skrifa. Kjartan Darri Kristjáns­son leikur Konna, of­beldis­fulla eigin­mann Gabríelu, af miklum móð en upp­sker lítið enda ekki úr miklu að moða.

Katrín Hall­dóra Sigurðar­dóttir og Hin­rik Ólafs­son leika prests­hjón bæjarins. Þeirra flókna sam­band er betra efni í söng­leik og lagið Allt þitt hjal um synd einn af há­punktunum kvöldsins. Þar spilar saman góður leikur og fínasti texti en spyrja má hvaðan ó­vænt trúar­legt of­stæki prestsins kemur. Almar Blær Sigur­jóns­son, einn á­huga­verðasti ungi leikari landsins um þessar mundir, situr uppi með tíma­skekkju sem hann leysir með ein­lægum leik. Doddi situr illa í hand­ritinu, arf­leifð tíma þar sem þroska­skertir ein­staklingar birtust á sviði sem vina­lega við­bótin en aldrei þrí­víðir þátt­tak­endur sam­fé­lagsins.

Reynslu­boltarnir Edda Björg­vins­dóttir, Ragn­heiður Stein­dórs­dóttir, Sigurður Sigur­jóns­son og Örn Árna­son fara fim­lega með sín ör­smáu hlut­verk. Aðrir leikarar koma lítið við sögu og virðast vera á sviðinu til að manna hóp­senurnar.

Sam­fé­lags­legt tóma­rúm

Margt væri hægt að af­saka ef tón­listin og laga­textinn væru eftir­minni­legri. Lög Sem á himni fanga augna­blik frekar en að þróa innra líf þeirra sem syngja eða sögu­þráðinn. Ekkert er við Þórarin Eld­járn að sakast, hann töfrar fram fínustu þýðingu. Tón­listar­stjórinn Jón Ólafs­son skilar sínu verki sömu­leiðis af kost­gæfni en líkt og aðrir situr hann uppi með fá­brotinn efni­við.

Unnur Ösp Stefáns­dóttir hefur sýnt og sannað að hún er leik­stjóri til að fylgjast með enda á hún að baki frá­bærar leik­sýningar. Hún velur fremur lát­lausa nálgun sem hentar sögunni en þorpið fæðist aldrei, þannig sitja per­sónurnar í sam­fé­lags­legu tóma­rúmi og sýningin lifnar aldrei við. Ein af á­stæðum af­tengingar á milli sögu og sýningar er leik­mynd Ilmar Stefáns­dóttur. Sögu­sviðið er tak­markað við sömu þrjá veggina allan tímann, hrings­viðið aldrei notað og fram­vindan þannig föst. Dans­höfundurinn Lee Proud gerir sitt besta með líf­legum hreyfingum enda hæfi­leika­maður. Fyrsta at­riði eftir hlé er langtum besta dans­­at­riðið sem tvinnar lag­lega saman hvers­dags­leikann og söng­leikinn. Búninga­hönnun Filippíu I. Elís­dóttur er af­bragðs­góð. Fötin eru lát­laus, tóna vel saman og gefa góða mynd af hvers­dags­lega smá­bænum.

Ýmis­legt gerist í þessu á­gæta þorpi og lögin stytta á­horf­endum stundir en dramatíkin ristir aldrei djúpt og snertir sjaldan hjarta­strengina.

Allt í góðu

Eftir á­flog tveggja ein­stak­linga í sýningunni falla þessi orð: „Er þá allt í góðu?“ Setningin er mjög lýsandi fyrir Sem á himni sem er nánast á­taka­laus. Það er nefni­lega í góðu, allan tímann, og at­riðin sem eiga að koma á ó­vart eru fyrir­sjáan­leg. Ýmis­legt gerist í þessu á­gæta þorpi og lögin stytta á­horf­endum stundir en dramatíkin ristir aldrei djúpt og snertir sjaldan hjarta­strengina. Ekki er hægt að sakast við list­ræna teymið eða leikarana heldur söng­leikinn sjálfan sem minnir frekar á upp­kast heldur en full­klárað verk.

Niður­staða: Á­taka­lítið en á­ferðar­fagurt þunn­ildi, skreytt með söng.