Í Arden-skógi getur allt gerst; kyn, kynhneigð og kynhlutverk eru fljótandi, ástin svífur yfir vötnum og söngvarnir af vörum. Líkt og önnur leikrit skáldsins þá er Hvað sem þið viljið mjög teygjanlegt í túlkun og ævintýrin ótæmandi. Þessi gamanleikur eftir William Shakespeare ratar á svið Þjóðleikhússins í þriðja sinn, nú í leikstjórn Ágústu Skúladóttur, en um þessar mundir má sjá tvö leikrita skáldsins í leikhúsum Reykjavíkur.
Margir kannast kannski við leikritið undir heitinu Sem yður þóknast en Karl Ágúst Úlfsson snýr titlinum og textanum öllum á nútímalegra mál og úr verður Hvað sem þið viljið. Karl Ágúst er með liprari orðasmiðum landsins og þýðingin ber þess merki. Hann tekur Shakespeare ekki of hátíðlega heldur skreytir textann með slanguryrðum og spaugi. Meira að segja laumar hann inn enska orðasambandinu „low-key“ sem kætti mannskapinn, enda vinsælt slangur hjá yngri kynslóðinni.

Hvorki fugl né fiskur
Söguþráðurinn er samsuða af fjölskylduerjum, dulargervum og heimspekilegum þönkum um ástina. Hefðarfólkið Orlandó og Rósalind fella hugi saman við fyrstu sýn en margt stendur í vegi fyrir að þetta unga fólk fái að elskast. Rósalind hefur stundum verið kölluð ein eftirminnilegasta kvenpersóna skáldsins. Hún lætur ekki vaða yfir sig, tekur málin í sínar hendur og ögrar umhverfi sínu. Katrín Halldóra er mjög fær gamanleikkona en Rósalind skortir dýpt og breiðari tilfinningaskala. Almar Blær leikur Orlandó og skemmtilegt er að sjá hann spreyta sig á Shakespeare, enda spennandi leikaraefni. Hann er léttur í lund en lin framkoma Orlandó verður til þess að hann er utanvelta í sýningunni, hvorki fugl né fiskur. Þessi óræðni og afstöðuleysi einkenna nánast allar persónur leiksins.
Gott dæmi er Selja, nánasta vinkona Rósalindar sem Þórey leikur af þrótti. Hún er tvístígandi gagnvart bestu vinkonu sinni, óviss um hvort tilfinningar sínar spretti af vináttu eða rómantískri ást. Spurningunni er aldrei almennilega svarað og er Selja þannig fúllynd táningsstelpa frekar en ung kona á tímamótum. Prófstein leikur Hallgrímur af afslöppun og húmor, enda hlutverkið eins og skrifað fyrir hann. Atriði hans og Kristjönu í hlutverki Öddu eru kostuleg en Kristjana syngur sömuleiðis afar vel.

Leikarar í stuði
Guðjón Davíð, Hilmar, Sigurður Sigurjónsson og Steinunn Ólína skipta á milli sér heilum haug af persónum og eru í miklu stuði. Litla augnablikið þegar Friðrik hertogi paufast við að príla af hásæti sínu undirstrikar náðargáfu Sigurðar. Steinunn Ólína fangar tilfinningarússíbana þeirra samfélagslega vanhæfu og skotnu af sinni einstöku snilli, textaflutningur hennar er sömuleiðis frábær. Guðjón Davíð er í essinu sínu og fær að sleppa sér lausum í fíflalátunum. Hilmar er á miklu flugi þessa dagana og mætir á svið með krafti, tekur sjálfan sig ekki alvarlega og mjólkar hverja setningu, senuþjófur.
Allt er þetta gott og vel, leikararnir gera ágætlega og leysa sitt hlutverk með látalátum en litlu er bætt við og heildarmyndin losaraleg. Ágústa setur grínið í forgrunninn og pólitíkin er þannig skilin eftir við vegkantinn. Leikararnir standa til hliðar við söguna frekar en að sökkva sér í hana. Hið sama má segja um listræna umgjörð sýningarinnar. Leikmynd Þórunnar Maríu skortir líf og búningarnir eru of fyrirferðarmiklir. Karlmannsgervi Rósalindar er mitt á milli hobbita og skóladrengs, hvorugt er sérstaklega heillandi. Myndbandshönnun Ástu Jónínu líður yfir bakvegginn og fram hjá skilningarvitunum.
Í Arden-skóginum má finna kynlega kvisti en hvar eru kvárin, kynuslinn og kaosið? Afstöðuleysi verður sýningunni til trafala þrátt fyrir frjálslega og lifandi þýðingu
Afstöðulaus sýning
Tónlist Kristjönu kveikir undir sýningunni, þar spilar texti Karls stórt hlutverk sem og frammistaða leikaranna. Frumsamda tónlistin er snotur og vel samin, en hljóðheimurinn dalar þegar leitað er í aðrar lagasmíðar. Notuð eru stef úr nokkrum Bítlalögum sem eru hljómþýð og kunnugleg en afskaplega klisjukennd lausn og stingur í stúf við hljóðheiminn.
Í Arden-skóginum má finna kynlega kvisti en hvar eru kvárin, kynuslinn og kaosið? Afstöðuleysi verður sýningunni til trafala þrátt fyrir frjálslega og lifandi þýðingu. Þeir góðu eru góðir, þeir vondu vondir og allt fer vel að lokum. Aukaleikararnir baða sig í sviðsljósinu enda hæfileikafólk en ekki er hægt að hengja heila sýningu á leikaraskap.
Niðurstaða: Milt og saklaust glens en kynjaverurnar eru týndar í skóginum.