Í Ard­en-skógi getur allt gerst; kyn, kyn­hneigð og kyn­hlut­verk eru fljótandi, ástin svífur yfir vötnum og söngvarnir af vörum. Líkt og önnur leik­rit skáldsins þá er Hvað sem þið viljið mjög teygjan­legt í túlkun og ævin­týrin ó­tæmandi. Þessi gaman­leikur eftir Willi­am Shakespeare ratar á svið Þjóð­leik­hússins í þriðja sinn, nú í leik­stjórn Ágústu Skúla­dóttur, en um þessar mundir má sjá tvö leik­rita skáldsins í leik­húsum Reykja­víkur.

Margir kannast kannski við leik­ritið undir heitinu Sem yður þóknast en Karl Ágúst Úlfs­son snýr titlinum og textanum öllum á nú­tíma­legra mál og úr verður Hvað sem þið viljið. Karl Ágúst er með liprari orða­smiðum landsins og þýðingin ber þess merki. Hann tekur Shakespeare ekki of há­tíð­lega heldur skreytir textann með slangur­yrðum og spaugi. Meira að segja laumar hann inn enska orða­sam­bandinu „low-key“ sem kætti mann­skapinn, enda vin­sælt slangur hjá yngri kyn­slóðinni.

Hvað sem þið viljið er ný aðlögun á klassísku verki Williams Shakespeares.
Mynd/Aðsend

Hvorki fugl né fiskur

Sögu­þráðurinn er sam­suða af fjöl­skyldu­erjum, dular­gervum og heim­speki­legum þönkum um ástina. Hefðar­fólkið Or­landó og Rósa­lind fella hugi saman við fyrstu sýn en margt stendur í vegi fyrir að þetta unga fólk fái að elskast. Rósa­lind hefur stundum verið kölluð ein eftir­minni­legasta kven­per­sóna skáldsins. Hún lætur ekki vaða yfir sig, tekur málin í sínar hendur og ögrar um­hverfi sínu. Katrín Hall­dóra er mjög fær gaman­leik­kona en Rósa­lind skortir dýpt og breiðari til­finninga­skala. Almar Blær leikur Or­landó og skemmti­legt er að sjá hann spreyta sig á Shakespeare, enda spennandi leikara­efni. Hann er léttur í lund en lin fram­koma Or­landó verður til þess að hann er utan­velta í sýningunni, hvorki fugl né fiskur. Þessi ó­ræðni og af­stöðu­leysi ein­kenna nánast allar per­sónur leiksins.

Gott dæmi er Selja, nánasta vin­kona Rósa­lindar sem Þór­ey leikur af þrótti. Hún er tví­stígandi gagn­vart bestu vin­konu sinni, ó­viss um hvort til­finningar sínar spretti af vin­áttu eða rómantískri ást. Spurningunni er aldrei al­menni­lega svarað og er Selja þannig fúl­lynd tánings­stelpa frekar en ung kona á tíma­mótum. Próf­stein leikur Hall­grímur af af­slöppun og húmor, enda hlut­verkið eins og skrifað fyrir hann. At­riði hans og Kristjönu í hlut­verki Öddu eru kostu­leg en Kristjana syngur sömu­leiðis afar vel.

Sögu­þráðurinn í Hvað sem þið viljið er sam­suða af fjöl­skyldu­erjum, dular­gervum og heim­speki­legum þönkum um ástina.
Mynd/Aðsend

Leikarar í stuði

Guð­jón Davíð, Hilmar, Sigurður Sigur­jóns­son og Steinunn Ó­lína skipta á milli sér heilum haug af per­sónum og eru í miklu stuði. Litla augna­blikið þegar Frið­rik her­togi paufast við að príla af há­sæti sínu undir­strikar náðar­gáfu Sigurðar. Steinunn Ó­lína fangar til­finninga­rússí­bana þeirra sam­fé­lags­lega van­hæfu og skotnu af sinni ein­stöku snilli, texta­flutningur hennar er sömu­leiðis frá­bær. Guð­jón Davíð er í essinu sínu og fær að sleppa sér lausum í fífla­látunum. Hilmar er á miklu flugi þessa dagana og mætir á svið með krafti, tekur sjálfan sig ekki al­var­lega og mjólkar hverja setningu, senu­þjófur.

Allt er þetta gott og vel, leikararnir gera á­gæt­lega og leysa sitt hlut­verk með láta­látum en litlu er bætt við og heildar­myndin losara­leg. Ágústa setur grínið í for­grunninn og pólitíkin er þannig skilin eftir við veg­kantinn. Leikararnir standa til hliðar við söguna frekar en að sökkva sér í hana. Hið sama má segja um list­ræna um­gjörð sýningarinnar. Leik­mynd Þórunnar Maríu skortir líf og búningarnir eru of fyrir­ferðar­miklir. Karl­manns­gervi Rósa­lindar er mitt á milli hobbita og skóla­drengs, hvorugt er sér­stak­lega heillandi. Mynd­bands­hönnun Ástu Jónínu líður yfir bak­vegginn og fram hjá skilningar­vitunum.

Í Ard­en-skóginum má finna kyn­lega kvisti en hvar eru kvá­rin, kynuslinn og kaosið? Af­stöðu­leysi verður sýningunni til trafala þrátt fyrir frjáls­lega og lifandi þýðingu

Af­stöðu­laus sýning

Tón­list Kristjönu kveikir undir sýningunni, þar spilar texti Karls stórt hlut­verk sem og frammi­staða leikaranna. Frum­samda tón­listin er snotur og vel samin, en hljóð­heimurinn dalar þegar leitað er í aðrar laga­smíðar. Notuð eru stef úr nokkrum Bítla­lögum sem eru hljóm­þýð og kunnug­leg en af­skap­lega klisju­kennd lausn og stingur í stúf við hljóð­heiminn.

Í Ard­en-skóginum má finna kyn­lega kvisti en hvar eru kvá­rin, kynuslinn og kaosið? Af­stöðu­leysi verður sýningunni til trafala þrátt fyrir frjáls­lega og lifandi þýðingu. Þeir góðu eru góðir, þeir vondu vondir og allt fer vel að lokum. Auka­leikararnir baða sig í sviðs­ljósinu enda hæfi­leika­fólk en ekki er hægt að hengja heila sýningu á leikara­skap.

Niður­staða: Milt og sak­laust glens en kynja­verurnar eru týndar í skóginum.