Hjá stórum hópi Íslendinga er fótbolti ekki áhugamál, ekki íþrótt, heldur lífsstíll. Þegar ekki er verið að horfa á fótbolta eru leikir, leikmenn og þjálfarar ræddir, gamlir leikir rifjaðir upp og argast út í andstæðingana. Óbærilegur léttleiki knattspyrnunnar er kómísk og einlæg tilraun til að skoða einn afkima þessarar menningar en leiksýningin var frumsýnd í Tjarnarbíói fyrir stuttu.
Doddi og litli bróðir hans Óli Gunnar horfa saman á enska boltann hverja helgi. Doddi er tiltölulega nýskilinn og barnsmóðir hans er tekin saman við nýjan mann, Benedikt. Sá kemur óvænt í heimsókn heim til Dodda einn góðan laugardag með vin sinn Valdimar með í för. Allir eiga þeir sameiginlegt að vera dyggir stuðningsmenn Manchester United, sumir reyndar meira en aðrir. Upphefst eftirmiðdegi þar sem fortíðarþrá, framtíðardraumar og Gull Lite sullast saman.
Óbærilega fyndið orðfæri
Upphaflegu hugmyndina að sýningunni áttu Albert, Ólafur og Viktoría en Sveinn Ólafur og Ólafur eru skrifaðir fyrir lokatextanum. Sýningin gerist nánast í rauntíma, yfir fótboltaleik milli erkifjendanna Liverpool og Manchester United. Samhliða vandræðalegum samræðum í stofunni er fléttað saman lýsingu á leiknum sjálfum. Þannig endurspeglar framvinda fótboltaleiksins atburðina í stofunni. Orðfærið í handritinu er stundum alveg óbærilega fyndið, lyft upp úr samtímanum. Enskuslettur og stemningsorð eru hér ríkjandi, þar sem orðið sjálft skiptir jafn miklu máli og framburðurinn. Hér má nefna bæði „vibe“ og „köngurinn“. Sýningin er svolítið endaslepp þegar óvænt dauðsfall á sér stað í stúkunni, sem daðrar við deus ex machina.

Lipur kvartett
Kvartettinn Albert, Ólafur, Sveinn Ólafur og Valdimar leikur lipurlega saman. Hver og einn með sinn sérstaka tón. Doddi spólar áfram í sama farinu, tilfinningarnar eftir skilnaðinn eru enn þá sárar og Sveinn Ólafur skilar togstreitunni fallega. Einfalda sálin Óli Gunnar er átakanlega fyndin, eins og lítill strákur í líkama fullorðins manns. Benedikt berst við að finna fótfestu í sínu eigin lífi og Albert fangar ástandið á mannlegan hátt. Valdimar vill bara sitja og horfa á leikinn en dregst óvænt inn í atburðarásina, tímasetningar hans eru smellnar og fínasta mótvægi við tríóið. Leynivopnið er síðan Starkaður Pétursson, lýsandi fótboltaleiksins, sem er í senn tilfinningasamur og smellinn.
Valdimar sér um tónlistina, bæði sönginn og væntanlega tónlistarvalið. Ekki þarf að segja neinum hvað hann er fær söngvari og lögin vel saumuð inn í sýninguna. Aftur á móti er tónlistarvalið einstaklega vel heppnað; fyrir sýninguna, í sýningunni sjálfri og í hléi. Chumbawamba í blandi við Oasis og aðra sveitta enska slagara kynslóðarinnar sem er að detta í fertugt.
Óbærilegur léttleiki knattspyrnunnar er gleðileikur um krumpaða karlmennsku og fótbolta, bjórþamb og að vera misheppnaður, gleði og sorg hversdagsleikans.
Gleðileikur um karlmennsku
Listræna teymið er sterkt. Leikstjórinn Viktoría Blöndal leiðir hópinn og setur fókusinn á sambandið milli þessara ólíku manna. Hún er með gott auga fyrir uppbyggingu á atriðum, setur leikarana í forgrunninn og leyfir þeim að njóta sín. Einfaldleikinn er sömuleiðis í fyrirrúmi í hönnun Sólbjartar Veru Ómarsdóttur. Bekkur, upphækkaður pallur fyrir lýsandann og sérlega ósmekklegt málverk af Alex Ferguson. Gallabuxur, nákvæmar tegundir af Manchester United-skyrtum og inniskór sem hitta beint í mark. Um sviðshreyfingar sér Erna Guðrún Fritzdóttir sem tekst ágætlega til en pitsudansinn hefði mátt missa sín.
Óbærilegur léttleiki knattspyrnunnar er gleðileikur um krumpaða karlmennsku og fótbolta, bjórþamb og að vera misheppnaður, gleði og sorg hversdagsleikans. Eitthvað sem flestir áhorfendur geta tengt við, áhugi á knattspyrnu er svo sannarlega ekki nauðsynlegur. Alltaf í boltanum kemur með ferska og einlæga innsýn í helgileik hversdagsins. Þrátt fyrir fremur einfaldan endi er það ferðalagið sem skiptir máli og leikhópurinn töfrar fram hressandi kvöldstund.
Niðurstaða: Lauflétt fótboltaflétta sem kemur skemmtilega á óvart.