Hjá stórum hópi Ís­lendinga er fót­bolti ekki á­huga­mál, ekki í­þrótt, heldur lífs­stíll. Þegar ekki er verið að horfa á fót­bolta eru leikir, leik­menn og þjálfarar ræddir, gamlir leikir rifjaðir upp og argast út í and­stæðingana. Ó­bæri­legur létt­leiki knatt­spyrnunnar er kómísk og ein­læg til­raun til að skoða einn af­kima þessarar menningar en leik­sýningin var frum­sýnd í Tjarnar­bíói fyrir stuttu.

Doddi og litli bróðir hans Óli Gunnar horfa saman á enska boltann hverja helgi. Doddi er til­tölu­lega ný­skilinn og barns­móðir hans er tekin saman við nýjan mann, Bene­dikt. Sá kemur ó­vænt í heim­sókn heim til Dodda einn góðan laugar­dag með vin sinn Valdimar með í för. Allir eiga þeir sam­eigin­legt að vera dyggir stuðnings­menn Manchester United, sumir reyndar meira en aðrir. Upp­hefst eftir­mið­degi þar sem for­tíðar­þrá, fram­tíðar­draumar og Gull Lite sullast saman.

Ó­bæri­lega fyndið orð­færi

Upp­haf­legu hug­myndina að sýningunni áttu Albert, Ólafur og Viktoría en Sveinn Ólafur og Ólafur eru skrifaðir fyrir loka­textanum. Sýningin gerist nánast í raun­tíma, yfir fót­bolta­leik milli erki­fjendanna Liver­pool og Manchester United. Sam­hliða vand­ræða­legum sam­ræðum í stofunni er fléttað saman lýsingu á leiknum sjálfum. Þannig endur­speglar fram­vinda fót­bolta­leiksins at­burðina í stofunni. Orð­færið í hand­ritinu er stundum alveg ó­bæri­lega fyndið, lyft upp úr sam­tímanum. Ensku­slettur og stemnings­orð eru hér ríkjandi, þar sem orðið sjálft skiptir jafn miklu máli og fram­burðurinn. Hér má nefna bæði „vibe“ og „köngurinn“. Sýningin er svo­lítið enda­slepp þegar ó­vænt dauðs­fall á sér stað í stúkunni, sem daðrar við deus ex machina.

Verkið Óbærilegur léttleiki knattspyrnunnar fjallar um karlmennsku og knattspyrnu.
Mynd/Berglind Rögnvaldsdóttir

Lipur kvartett

Kvartettinn Albert, Ólafur, Sveinn Ólafur og Valdimar leikur lipur­lega saman. Hver og einn með sinn sér­staka tón. Doddi spólar á­fram í sama farinu, til­finningarnar eftir skilnaðinn eru enn þá sárar og Sveinn Ólafur skilar tog­streitunni fal­lega. Ein­falda sálin Óli Gunnar er á­takan­lega fyndin, eins og lítill strákur í líkama full­orðins manns. Bene­dikt berst við að finna fót­festu í sínu eigin lífi og Albert fangar á­standið á mann­legan hátt. Valdimar vill bara sitja og horfa á leikinn en dregst ó­vænt inn í at­burða­rásina, tíma­setningar hans eru smellnar og fínasta mót­vægi við tríóið. Leyni­vopnið er síðan Starkaður Péturs­son, lýsandi fót­bolta­leiksins, sem er í senn til­finninga­samur og smellinn.

Valdimar sér um tón­listina, bæði sönginn og væntan­lega tón­listar­valið. Ekki þarf að segja neinum hvað hann er fær söngvari og lögin vel saumuð inn í sýninguna. Aftur á móti er tón­listar­valið ein­stak­lega vel heppnað; fyrir sýninguna, í sýningunni sjálfri og í hléi. Chumbawamba í blandi við Oasis og aðra sveitta enska slagara kyn­slóðarinnar sem er að detta í fer­tugt.

Ó­bæri­legur létt­leiki knatt­spyrnunnar er gleði­leikur um krumpaða karl­mennsku og fót­bolta, bjór­þamb og að vera mis­heppnaður, gleði og sorg hvers­dags­leikans.

Gleði­leikur um karl­mennsku

List­ræna teymið er sterkt. Leik­stjórinn Viktoría Blön­dal leiðir hópinn og setur fókusinn á sam­bandið milli þessara ó­líku manna. Hún er með gott auga fyrir upp­byggingu á at­riðum, setur leikarana í for­grunninn og leyfir þeim að njóta sín. Ein­fald­leikinn er sömu­leiðis í fyrir­rúmi í hönnun Sól­bjartar Veru Ó­mars­dóttur. Bekkur, upp­hækkaður pallur fyrir lýsandann og sér­lega ó­smekk­legt mál­verk af Alex Fergu­son. Galla­buxur, ná­kvæmar tegundir af Manchester United-skyrtum og inni­skór sem hitta beint í mark. Um sviðs­hreyfingar sér Erna Guð­rún Fritzdóttir sem tekst á­gæt­lega til en pitsu­dansinn hefði mátt missa sín.

Ó­bæri­legur létt­leiki knatt­spyrnunnar er gleði­leikur um krumpaða karl­mennsku og fót­bolta, bjór­þamb og að vera mis­heppnaður, gleði og sorg hvers­dags­leikans. Eitt­hvað sem flestir á­horf­endur geta tengt við, á­hugi á knatt­spyrnu er svo sannar­lega ekki nauð­syn­legur. Alltaf í boltanum kemur með ferska og ein­læga inn­sýn í helgi­leik hvers­dagsins. Þrátt fyrir fremur ein­faldan endi er það ferða­lagið sem skiptir máli og leik­hópurinn töfrar fram hressandi kvöld­stund.

Niður­staða: Lauf­létt fót­bolta­flétta sem kemur skemmti­lega á ó­vart.