Um þessar mundir, og af ýmsu til­efni, hafa nokkur söfn sett upp kynningar­sýningar á safn­eign sinni, og við það býðst al­menningi að endur­nýja og kannski endur­meta, kynni sín af þeim. Þetta á jafnt við um „stóru söfnin“ í bænum sem ýmis minni söfn í héraði. Nefna mætti sýningu Lista­safns Reykja­víkur á er­lendum verkum í eigu þess og af­mælis­sýningu Þjóð­minja­safnsins, en einnig yfir­standandi sýningar Lista­safnsins á Akur­eyri og Lista­safns Ár­nesinga.

Listasafn Árnesinga er eitt af þeim landsbyggðarsöfnum sem státa af sérhannaðri sýningaraðstöðu og fjölbreyttri listaverkaeign.
Mynd/Aðsend

Gjöf Bjarn­veigar

Síðast­nefnda safnið er eitt af þeim lán­sömu lands­byggðar­söfnum sem státa af hvort tveggja sér­hannaðri sýningar­að­stöðu og fjöl­breyttri lista­verka­eign. Hvort tveggja er í hærri gæða­flokki en gengur og gerist utan Reykja­víkur, þökk sé þeim breytingum sem gerðar voru á hús­næði safnsins eftir að Lista­skáli Einars Hákonar­sonar var af­lagður, og verkunum sem Bjarn­veig Bjarna­dóttir og synir hennar gáfu Ár­nesingum.

Og þó segja megi að byggingin henti betur heild­stæðum sýningum á verkum stakra lista­manna heldur en brota­kenndu yfir­liti, eins og þeirri sam­sýningu sem nú stendur yfir, þá hefur upp­hengingin tekist mæta vel. Til dæmis hefur veggjum verið bætt við aðal­sal til að nýta rýmið betur, og vídeó­verkum sem alla jafna trufla sýningar af þessu tagi, verið komið fyrir af­síðis.

Mál­verk og teikningar eru ekki hengd upp ein­göngu „eftir auganu“, tvist og bast, heldur er leitast við að para þau saman eftir við­fangs­efnum og að mestu í tíma­röð þannig að á­horf­andinn skynjar betur ólík vinnu­brögð lista­mannanna. Þunga­miðjan í safn­eigninni, og um leið yfir­standandi sýningu, eru verkin sem Bjarn­veig Bjarna­dóttir gaf Ár­nesingum á árunum 1963 til 1986, alls um 75 verk eftir 37 lista­menn.

Sigurjón Ólafsson gerði þessa brjóstmynd af Bjarnveigu Bjarnadóttur 1977 en hún gaf Árnesingum fjölda listaverka sem eru þungamiðjan í sýningunni.
Mynd/Aðsend

Ás­grímur og sam­tíma­menn hans

Að sönnu hafa nokkur önnur söfn á lands­byggðinni fengið stórar gjafir, ég nefni til dæmis lista­verka­gjöfina sem öðlingurinn Arn­grímur Ingi­mundar­son færði heima­byggð sinni, Siglu­firði, og verkin sem Hall­steinn Sveins­son gaf Borg­nesingum, en gjöf Bjarn­veigar er í sér­flokki.

Fyrir það fyrsta var hún ná­frænka Ás­gríms Jóns­sonar og hafði því ó­tak­markaðan að­gang að lista­manninum. Ó­efað naut hún þeirra tengsla þegar hún hóf að safna lista­verkum bæði frænda síns og annarra, eignaðist þá mörg verk með sér­kjörum eða jafn­vel án endur­gjalds.

Ekki þekki ég önnur dæmi úr okkar stuttu mynd­listar­sögu um að ís­lensk kona, hvað þá ein­stæð móðir með tak­mörkuð fjár­ráð, skuli hafa safnað að sér lista­verkum stóran hluta ævi sinnar. Bjarn­veig hefur því þurft að vera nokkuð fylgin sér.

Ó­neitan­lega státar Lista­safn Ár­nesinga af betra úr­vali verka eftir Ás­grím en nokkurt annað safn utan Reykja­víkur. Einnig skenkti Bjarn­veig Ís­firðingum nokkrar myndir úr eigin safni. Engan skal undra þótt hún hafi fyrst og fremst leitast við að eignast verk eftir sam­tíma­menn Ás­gríms og þá kyn­slóð lista­manna sem komst til þroska á árunum milli stríða, sér­stak­lega þá sem tengdust æsku­slóðum hennar (og Ás­gríms) á Suður­landi.

Hér getur því meðal annars að líta lands­lags- og mann­lífs­myndir eftir Ás­grím sjálfan, Eyjólf Ey­fells, Finn Jóns­son, Jón Þor­leifs­son, Jón Engil­berts, Höskuld Björns­son, Kjarval og Jón Stefáns­son sem allar bera smekk­vísi Bjarn­veigar gott vitni, sömu­leiðis á­gætar mann­lífs­myndir eftir Jóhann Briem og Snorra Arin­bjarnar. Nokkur verk eru þarna í sér­flokki, til dæmis sjald­séð mál­verk frá þroska­árum Gunn­laugs Scheving og nokkur frá­bær verk frá fígúra­tífu tíma­bili Þor­valds Skúla­sonar í upp­hafi síðara stríðs.

Ekki þekki ég önnur dæmi úr okkar stuttu mynd­listar­sögu um að ís­lensk kona, hvað þá ein­stæð móðir með tak­mörkuð fjár­ráð, skuli hafa safnað að sér lista­verkum stóran hluta ævi sinnar. Bjarn­veig hefur því þurft að vera nokkuð fylgin sér.

Ekki fyrir ab­straktið

Þótt Bjarn­veig hafi í tímans rás eignast nokkur lítil pappírs­verk eftir ab­strakt­málara, til dæmis Hörð Ágústs­son og Kjartan Guð­jóns­son, hafði hún sýni­lega tak­markaðan á­huga á ab­strakt­list. Til dæmis eignaðist hún aldrei ab­strakt­myndir eftir einn af upp­á­halds­málurum sínum af „yngri kyn­slóð“, Þor­vald Skúla­son, og verk eftir Svavar Guðna­son komu aldrei inn fyrir hennar dyr.

Þau fáu ab­strakt­mál­verk sem finna má á af­mælis­sýningunni í Hvera­gerði eru því mest­megnis verk sem safnið keypti eða fékk að gjöf eftir daga Bjarn­veigar. Það væri mikils­vert fram­lag bæði til sögu Lista­safns Ár­nesinga og helstu vel­gjörðar­manna ís­lenskrar mynd­listar, ef allar þær myndir sem fóru um hendur þessarar kjarna­konu væru settar á bók, á­samt út­tekt á við­horfum hennar til lífs og lista.

Niður­staða: Sam­sýning sem státar af nokkrum gull­molum.