Um þessar mundir, og af ýmsu tilefni, hafa nokkur söfn sett upp kynningarsýningar á safneign sinni, og við það býðst almenningi að endurnýja og kannski endurmeta, kynni sín af þeim. Þetta á jafnt við um „stóru söfnin“ í bænum sem ýmis minni söfn í héraði. Nefna mætti sýningu Listasafns Reykjavíkur á erlendum verkum í eigu þess og afmælissýningu Þjóðminjasafnsins, en einnig yfirstandandi sýningar Listasafnsins á Akureyri og Listasafns Árnesinga.

Gjöf Bjarnveigar
Síðastnefnda safnið er eitt af þeim lánsömu landsbyggðarsöfnum sem státa af hvort tveggja sérhannaðri sýningaraðstöðu og fjölbreyttri listaverkaeign. Hvort tveggja er í hærri gæðaflokki en gengur og gerist utan Reykjavíkur, þökk sé þeim breytingum sem gerðar voru á húsnæði safnsins eftir að Listaskáli Einars Hákonarsonar var aflagður, og verkunum sem Bjarnveig Bjarnadóttir og synir hennar gáfu Árnesingum.
Og þó segja megi að byggingin henti betur heildstæðum sýningum á verkum stakra listamanna heldur en brotakenndu yfirliti, eins og þeirri samsýningu sem nú stendur yfir, þá hefur upphengingin tekist mæta vel. Til dæmis hefur veggjum verið bætt við aðalsal til að nýta rýmið betur, og vídeóverkum sem alla jafna trufla sýningar af þessu tagi, verið komið fyrir afsíðis.
Málverk og teikningar eru ekki hengd upp eingöngu „eftir auganu“, tvist og bast, heldur er leitast við að para þau saman eftir viðfangsefnum og að mestu í tímaröð þannig að áhorfandinn skynjar betur ólík vinnubrögð listamannanna. Þungamiðjan í safneigninni, og um leið yfirstandandi sýningu, eru verkin sem Bjarnveig Bjarnadóttir gaf Árnesingum á árunum 1963 til 1986, alls um 75 verk eftir 37 listamenn.

Ásgrímur og samtímamenn hans
Að sönnu hafa nokkur önnur söfn á landsbyggðinni fengið stórar gjafir, ég nefni til dæmis listaverkagjöfina sem öðlingurinn Arngrímur Ingimundarson færði heimabyggð sinni, Siglufirði, og verkin sem Hallsteinn Sveinsson gaf Borgnesingum, en gjöf Bjarnveigar er í sérflokki.
Fyrir það fyrsta var hún náfrænka Ásgríms Jónssonar og hafði því ótakmarkaðan aðgang að listamanninum. Óefað naut hún þeirra tengsla þegar hún hóf að safna listaverkum bæði frænda síns og annarra, eignaðist þá mörg verk með sérkjörum eða jafnvel án endurgjalds.
Ekki þekki ég önnur dæmi úr okkar stuttu myndlistarsögu um að íslensk kona, hvað þá einstæð móðir með takmörkuð fjárráð, skuli hafa safnað að sér listaverkum stóran hluta ævi sinnar. Bjarnveig hefur því þurft að vera nokkuð fylgin sér.
Óneitanlega státar Listasafn Árnesinga af betra úrvali verka eftir Ásgrím en nokkurt annað safn utan Reykjavíkur. Einnig skenkti Bjarnveig Ísfirðingum nokkrar myndir úr eigin safni. Engan skal undra þótt hún hafi fyrst og fremst leitast við að eignast verk eftir samtímamenn Ásgríms og þá kynslóð listamanna sem komst til þroska á árunum milli stríða, sérstaklega þá sem tengdust æskuslóðum hennar (og Ásgríms) á Suðurlandi.
Hér getur því meðal annars að líta landslags- og mannlífsmyndir eftir Ásgrím sjálfan, Eyjólf Eyfells, Finn Jónsson, Jón Þorleifsson, Jón Engilberts, Höskuld Björnsson, Kjarval og Jón Stefánsson sem allar bera smekkvísi Bjarnveigar gott vitni, sömuleiðis ágætar mannlífsmyndir eftir Jóhann Briem og Snorra Arinbjarnar. Nokkur verk eru þarna í sérflokki, til dæmis sjaldséð málverk frá þroskaárum Gunnlaugs Scheving og nokkur frábær verk frá fígúratífu tímabili Þorvalds Skúlasonar í upphafi síðara stríðs.
Ekki þekki ég önnur dæmi úr okkar stuttu myndlistarsögu um að íslensk kona, hvað þá einstæð móðir með takmörkuð fjárráð, skuli hafa safnað að sér listaverkum stóran hluta ævi sinnar. Bjarnveig hefur því þurft að vera nokkuð fylgin sér.
Ekki fyrir abstraktið
Þótt Bjarnveig hafi í tímans rás eignast nokkur lítil pappírsverk eftir abstraktmálara, til dæmis Hörð Ágústsson og Kjartan Guðjónsson, hafði hún sýnilega takmarkaðan áhuga á abstraktlist. Til dæmis eignaðist hún aldrei abstraktmyndir eftir einn af uppáhaldsmálurum sínum af „yngri kynslóð“, Þorvald Skúlason, og verk eftir Svavar Guðnason komu aldrei inn fyrir hennar dyr.
Þau fáu abstraktmálverk sem finna má á afmælissýningunni í Hveragerði eru því mestmegnis verk sem safnið keypti eða fékk að gjöf eftir daga Bjarnveigar. Það væri mikilsvert framlag bæði til sögu Listasafns Árnesinga og helstu velgjörðarmanna íslenskrar myndlistar, ef allar þær myndir sem fóru um hendur þessarar kjarnakonu væru settar á bók, ásamt úttekt á viðhorfum hennar til lífs og lista.
Niðurstaða: Samsýning sem státar af nokkrum gullmolum.