Tón­list

Mær­þöll

Þórunn Guð­munds­dóttir

Leik­stjórn: Bjarni Thor Kristins­son

Hljóm­sveitar­stjórn: Guðni Franz­son

Gamla bíó, fimmtu­dagur 1. septem­ber

Tón­skáldið Frederic Chopin, sem var uppi á fyrri hluta ní­tjándu aldar, var ein­stak­lega trú­gjarn. Hann frétti af svo­kallaðri „talandi maskínu“ og skrifaði ákafur til for­eldra sinna að vélin gæti víst ekki bara talað, heldur sungið mjög vel. Svo bætti hann við: „Ef óperu­stjórn­endur gætu haft mörg svona vél­menni, þá gætu þeir losnað við kór­söngvara, sem kosta fúlgur fjár og eru enda­laust til vand­ræða.“

Í Mær­þöll, nýrri óperu eftir Þórunni Guð­munds­dóttur, sem frum­sýnd var á fimmtu­daginn í Gamla bíói, var enginn kór, en tölu­vert um sam­söngs­at­riði. Þau voru sum býsna flókin. Ekki var að heyra að neinn söngvari væri „enda­laust til vand­ræða“ og því varla þörf á vél­söngvara. Sam­söngurinn var hreinn, ná­kvæmur og fullur af krafti.

Grætur gullt­árum

Óperan fjallar um her­toga­hjón sem geta ekki eignast barn, en þá koma álf­konur og bjarga málunum. Dóttirin sem fæðist, Mær­þöll, er ekki alveg eins og fólk er flest, því hún getur grátið gullt­árum. Þetta kemur sér vel síðar er her­toginn verður blankur; þá er ekkert annað en að klípa Mær­þöll svo hún fari að há­gráta. Verst er að hún er svo glað­lynd að hún grætur eigin­lega aldrei, og svo er hún fljót að hlaupa undan töngum her­togans.

Eins og sjá má er þetta gaman­ópera, og margt í henni var mjög fyndið á frum­sýningunni. Álf­konurnar þrjár, tvær góðar en ein ekki svo góð, því henni tókst ekki að ná sér í karl­mann, voru kostu­legar. Þær voru leiknar af Lilju Guð­munds­dóttur, Heið­dísi Hönnu Sigurðar­dóttur og Erlu Dóru Vog­ler. Söngur þeirra var flottur, og svo höfðu þær allar svo mikinn sjarma að maður horfði á þær dá­leiddur.

Fjölbreyttur hópur söngvara kemur fram í óperunni Mærþöll.
Mynd/Eyþór Árnason

Björk var mögnuð

Mær­þöll var leikin af Björk Níels­dóttur sópran og var mögnuð. Björk er ein besta söng­kona landsins, rödd hennar var tær og hljóm­mikil í senn og leikurinn var skemmti­legur. Gunn­laugur Bjarna­son var Pétur prins, og hann söng af grípandi til­finningu og lék afar vel. Þegar hann missti vitið um stund var það svo sann­færandi að það væri eigin­lega „krípí“.

Svipaða sögu er að segja um frammi­stöðu hinna söng­varanna: Eyjólfs Eyjólfs­sonar, Þór­gunnar Önnu Örn­ólfs­dóttur, Hönnu Dóru Sturlu­dóttur, Hall­dóru Óskar Helga­dóttur, Ólafs Freys Birkis­sonar og Bjarna Thors Kristins­sonar. Sá síðast­nefndi var líka leik­stjóri sýningarinnar og hefur tekist prýði­lega að gera hana heil­steypta og flæðandi. Þar var hvergi dauður punktur. Búningar og leik­mynd voru auk þess augna­yndi.

Í heild var þetta því ágæt sýning. Helsti gallinn var að stundum var erfitt að greina hvað söngvararnir voru að syngja um og hefði texta­vél verið til mikilla bóta.

Gamal­dags leik­hús­tón­list

Tón­listin var í hefð­bundnum dúr og moll, og mjög lagræn. Hún var dá­lítið eins­leit og líka ögn ein­feldnings­leg, kannski í stíl við gamal­dags leik­hús­tón­list. Líbrettóið, það er textinn, var einnig eftir Þórunni, og var hann hnyttinn og oft sér­lega fyndinn.

Lítil hljóm­sveit lék undir, ok­tett sem Guðni Franz­son stjórnaði af öryggi og festu. Jafn­vægi á milli hljóm­sveitar og söngs var eins og best var á kosið.

Í heild var þetta því ágæt sýning. Helsti gallinn var að stundum var erfitt að greina hvað söngvararnir voru að syngja um og hefði texta­vél verið til mikilla bóta. Jafn­framt hefði mátt vera meira um sögu­þráðinn í leik­skránni, sem var í skötu­líki. En það var gaman að koma í Gamla bíó, þar sem Ís­lenska óperan sleit barn­skónum. Þaðan á maður svo sannar­lega margar góðar minningar.

Niður­staða: Skemmti­leg sýning með flottum söng.