Í upp­hafi bókarinnar Ó­bragð er Hjalti heldur illa staddur í lífi sínu. Anna kærastan hans er farin frá honum, draumurinn um að verða brúar­smiður leystist upp í lítt gefandi verk­fræði­námi og óttinn við veggja­lýs hefur tekið yfir flestar vöku­stundir. Ofan á þetta bætist heims­far­aldur og veira sem hefur svipt hann lykt og bragð­skyni, vinir sem vilja frekar tala um prjóna­upp­skriftir en van­líðan Hjalta og ná­granninn á efri hæðinni sem heldur allt of há­vær partí.

Það er þó í gegnum þennan ná­granna sem Hjalti kemst í kynni við lækninga­mátt kakós frá Gvate­mala og gengur í fram­haldi af því til liðs við Kakó­fylkinguna þar sem fjöl­skrúðugt per­sónu­gallerí dregur hann með sér í Skafta­fell til að á­stunda kakó­tengda hug­leiðslu og hjálpar honum að finna sjálfan sig, frelsið og til­gang lífsins.

Ferða- og þroska­saga

Ó­bragð er ferða- og þroska­saga Hjalta út úr níð­þröngum stakknum sem hann og upp­eldi hans og um­hverfi hafa sniðið honum yfir í ó­mengaða náttúruna með kostu­legri Kakó­fylkingunni þar sem sætur land­vörður hjálpar honum meira að segja að sættast við lofts­lags­breytingar sem ó­hjá­kvæmi­legan og ó­við­snúan­legan hluta af jarð- og mann­kyns­sögunni.

Eftir því sem Hjalti kemst í betra sam­band við sjálfan sig og heiminn sem hann lifir í kemur bragð og lyktar­skynið sem hann glataði þegar hann veiktist af Co­vid smám saman aftur og sú hlið­stæða er vel og skemmti­lega út­færð, með pælingum um hvernig bragð er kannski öðru­vísi en mann minnir og hvernig lykt getur kveikt á minningum og til­finningum.

Ó­bragð er þræl­skemmti­leg af­lestrar, létt í lund og tekur sig mátu­lega al­var­lega og ó­hætt að mæla með henni í sumar­bú­staðar­ferðirnar um páskana.

Þræl­skemmti­leg af­lestrar

Sagan er sögð á fyndinn og gal­gopa­legan hátt og sumar að­stæðurnar sem sér­stak­lega Kakó­fylkingin lendir í eru spreng­hlægi­legar, hér má til dæmis minnast á gerð kynningar­mynd­bands í Jökuls­ár­lóni og þegar hópurinn leiðir ferða­manna­strauminn út af stikuðum stígum og út í ó­mengaða náttúruna. Þróun Kakó­fylkingarinnar úr bros­legu safni fólks í leit að sjálfu sér yfir í sér­trúar­söfnuð sem fylgir leið­toga sínum í blindni er líka á­huga­verð og vel út­færð. Höfundur styttir sér stundum leið og notar minni úr vin­sælum ástar­sögum og bíó­myndum að far­sælum endi eins og þegar hin sæta og á­kveðna Kría land­vörður verður skotin í Hjalta eftir að hafa hitt hann einu sinni við að­stæður sem sýna hann alls ekki í já­kvæðu ljósi en allur andi sögunnar er þannig að auð­vitað gerist ein­mitt það og sagan á sér meira að segja endi sem á ekki langt í kött í mýri, rennandi smjör og brennandi roð.

Guð­rún Brjáns­dóttir sýnir í þessari bók að hún hefur gott vald á því að segja sögur og búa til per­sónur. Ó­bragð er þræl­skemmti­leg af­lestrar, létt í lund og tekur sig mátu­lega al­var­lega og ó­hætt að mæla með henni í sumar­bú­staðar­ferðirnar um páskana.

Niður­staða: Skemmti­leg og hressi­leg skáld­saga um að finna sig eftir að hafa týnt sér.