Í upphafi bókarinnar Óbragð er Hjalti heldur illa staddur í lífi sínu. Anna kærastan hans er farin frá honum, draumurinn um að verða brúarsmiður leystist upp í lítt gefandi verkfræðinámi og óttinn við veggjalýs hefur tekið yfir flestar vökustundir. Ofan á þetta bætist heimsfaraldur og veira sem hefur svipt hann lykt og bragðskyni, vinir sem vilja frekar tala um prjónauppskriftir en vanlíðan Hjalta og nágranninn á efri hæðinni sem heldur allt of hávær partí.
Það er þó í gegnum þennan nágranna sem Hjalti kemst í kynni við lækningamátt kakós frá Gvatemala og gengur í framhaldi af því til liðs við Kakófylkinguna þar sem fjölskrúðugt persónugallerí dregur hann með sér í Skaftafell til að ástunda kakótengda hugleiðslu og hjálpar honum að finna sjálfan sig, frelsið og tilgang lífsins.
Ferða- og þroskasaga
Óbragð er ferða- og þroskasaga Hjalta út úr níðþröngum stakknum sem hann og uppeldi hans og umhverfi hafa sniðið honum yfir í ómengaða náttúruna með kostulegri Kakófylkingunni þar sem sætur landvörður hjálpar honum meira að segja að sættast við loftslagsbreytingar sem óhjákvæmilegan og óviðsnúanlegan hluta af jarð- og mannkynssögunni.
Eftir því sem Hjalti kemst í betra samband við sjálfan sig og heiminn sem hann lifir í kemur bragð og lyktarskynið sem hann glataði þegar hann veiktist af Covid smám saman aftur og sú hliðstæða er vel og skemmtilega útfærð, með pælingum um hvernig bragð er kannski öðruvísi en mann minnir og hvernig lykt getur kveikt á minningum og tilfinningum.
Óbragð er þrælskemmtileg aflestrar, létt í lund og tekur sig mátulega alvarlega og óhætt að mæla með henni í sumarbústaðarferðirnar um páskana.
Þrælskemmtileg aflestrar
Sagan er sögð á fyndinn og galgopalegan hátt og sumar aðstæðurnar sem sérstaklega Kakófylkingin lendir í eru sprenghlægilegar, hér má til dæmis minnast á gerð kynningarmyndbands í Jökulsárlóni og þegar hópurinn leiðir ferðamannastrauminn út af stikuðum stígum og út í ómengaða náttúruna. Þróun Kakófylkingarinnar úr broslegu safni fólks í leit að sjálfu sér yfir í sértrúarsöfnuð sem fylgir leiðtoga sínum í blindni er líka áhugaverð og vel útfærð. Höfundur styttir sér stundum leið og notar minni úr vinsælum ástarsögum og bíómyndum að farsælum endi eins og þegar hin sæta og ákveðna Kría landvörður verður skotin í Hjalta eftir að hafa hitt hann einu sinni við aðstæður sem sýna hann alls ekki í jákvæðu ljósi en allur andi sögunnar er þannig að auðvitað gerist einmitt það og sagan á sér meira að segja endi sem á ekki langt í kött í mýri, rennandi smjör og brennandi roð.
Guðrún Brjánsdóttir sýnir í þessari bók að hún hefur gott vald á því að segja sögur og búa til persónur. Óbragð er þrælskemmtileg aflestrar, létt í lund og tekur sig mátulega alvarlega og óhætt að mæla með henni í sumarbústaðarferðirnar um páskana.
Niðurstaða: Skemmtileg og hressileg skáldsaga um að finna sig eftir að hafa týnt sér.