Systkinin Fjóla og Hrólfur, aðalsöguhetjurnar í Frankensleiki, eru ekki óheppin með foreldra þannig. Enda eru þau alltaf kynnt til sögunnar eitthvað á þessa leið: þau voru alls ekki vond en laus við allt ímyndunarafl. Eitt af því sem slíkum foreldrum finnst tilheyra er að koma börnum snemma í skilning um það sem þau telja vera sannleika, eins og til að mynda að jólasveinar séu ekki til. Sem hvert mannsbarn veit að er ekki rétt því hverjir aðrir ættu að sjá sér hag í því að gefa börnum í skóinn á jólaföstunni? Ég bara spyr.
En foreldrar Fjólu ákveða sem sagt að færa henni þessar fáránlegu fréttir rétt áður en jólasveinarnir byrja að tínast til byggða með þeim afleiðingum að hún fer á stúfana til að leita að þeim. Í kjölfarið tekur sagan óvænta stefnu sem ekki verður rakin lengra hér nema með því að ljóstra upp um að foreldrarnir þurfa að éta ýmislegt ofan í sig áður en jólin ganga í garð.
Upprunalegar hryllingssögur
Í nútímanum gleymist oft að sögurnar um jólasveinana, Grýlu og jólaköttinn eru upprunalega hryllingssögur, fullar af óhugnaði, barnaáti, blóði og líkamspörtum sem sjóða í pottum fram á nótt. Í þeim samanburði dýfir Eiríkur Örn tánum bara rétt aðeins ofan í. En splatter er samt alltaf splatter og mögulega misbjóða frásagnir af blóði, líkum og sombíum einhverjum, ekki síst ef það tengist jólunum. Einhverjum fullorðnum það er að segja, því börn hafa frá örófi alda verið áhugasöm um hrylling og ímynduð skrímsli sem sést best á Þjóðsögum Jóns Árnasonar og Grimms ævintýrunum auk fyrrnefndra jólasagna. Að taka nútímasnúning á uppvakningsskrímsli Frankensteins og bæta íslensku jólasveinunum út í er því uppskrift sem að öllum líkindum mun kæta flest börn ákaflega og foreldrar fá líka ýmislegt fyrir sinn snúð í gríni og skemmtilegheitum. Myndlýsingar Elíasar Rúna eru skemmtilegar og fylla vel út í heim sögunnar.
Frankensleikir er bráðfyndin, spennandi og skemmtileg saga, löðrandi í hinum sanna jóla- og jólasveinaanda með skvettu af hrollvekjuminnum og karnivalísku gríni.
Löðrandi í jólaanda
Frankensleikir er bráðfyndin, spennandi og skemmtileg saga, löðrandi í hinum sanna jóla- og jólasveinaanda með skvettu af hrollvekjuminnum og karnivalísku gríni. Hún snertir á ýmsum þýðingarmiklum spurningum eins og hvar jólasveinar dvelja á sumrin og af hverju sumum finnst nauðsynlegt að svipta sem flesta ævintýrinu í lífinu.
Niðurstaða: Fyndin, spennandi og skemmtileg jólahryllingsgleðisaga fyrir unga sem aldna.