Ég var ekkert sér­stak­lega spenntur yfir komandi sin­fóníu­tón­leikum á fimmtu­dags­kvöldið. Á dag­skránni var meðal annars G-dúr píanó­kon­sertinn eftir Ra­vel. Það er ótta­lega út­jöskuð tón­list, líka hér á landi. Hvorki meira né minna en fimm­tán píanistar hafa áður spreytt sig á kon­sertinum með Sin­fóníunni í gegnum tíðina. Nú var komið að enn einum píanó­leikaranum. Hvílík leiðindi!

En flutningurinn kom skemmti­lega á ó­vart. Hin kín­versk-banda­ríska Claire Huangci, ein­leikari kvöldsins, rúllaði kon­sertinum upp. Hann lék í höndunum á henni, og alls konar heljar­stökk og tóna­hlaup upp og niður hljóm­borðið voru ó­að­finnan­lega af hendi leyst.

Það var þó ekki aðal­málið. Nei, túlkunin var fersk og safa­rík, svo spennu­þrungin og á­leitin að það var eins og maður væri að heyra kon­sertinn í fyrsta sinn. Lag­línurnar voru fullar af til­finningum, bæði silki­mjúkar og snarpar, allt eftir því hvað við átti hverju sinni. Stígandin í flutningnum var krassandi og heildar­á­ferðin dá­sam­lega lit­rík. Þetta var frá­bært.

Hin kín­versk-banda­ríska Claire Huangci, ein­leikari kvöldsins, rúllaði kon­sertinum upp. Hann lék í höndunum á henni, og alls konar heljar­stökk og tóna­hlaup upp og niður hljóm­borðið voru ó­að­finnan­lega af hendi leyst.

Hljóm­sveit með sitt á hreinu

Stjórnandinn á tón­leikunum var Eva Olli­ka­inen og hljóm­sveitin spilaði af kost­gæfni með ein­leikaranum. Hljóm­sveitarrullan er tölu­vert krefjandi, og er á­nægju­legt að geta þess að hljóð­færa­leikararnir stóðu sig með stakri prýði. Frammi­staða málm- og tré­blásaranna var til dæmis að­dáunar­verð.

Á tón­leikunum var frum­flutt Jörð mistur himinn eftir Hauk Tómas­son. Verkið mun vera inn­blásið af mynd­list Georgs Guðna. Myndir hans eru magnaðar og lýsandi á ein­hvern dular­fullan hátt, en sama verður ekki sagt um tón­listina. Hún var ekki sér­lega á­huga­verð. Rétt eins og mál­verk var í henni kyrr­staða sem hverfðist um einn tón megnið af tímanum. Ofan á hann var prjónuð á­ferð sem virtist aðal­lega vera þrusk og skrjáf, ekki mjög lokkandi. Maður skynjaði enga dýpt, engan skálda­anda, ekkert flæði, ekkert sem virtist liggja tón­skáldinu á hjarta. Fyrir vikið var fátt ef nokkuð sem var hrífandi í tón­listinni.

Spennandi at­burða­rás

Annað á tón­leikunum var hins vegar fínt. Haffner-sin­fónían eftir Mozart var skemmti­leg í túlkun Olli­ka­inen og hljóm­sveitarinnar. Lag­línurnar voru nota­lega á­valar og hnit­miðaðar, at­burða­rásin í tón­listinni spennandi. Tækni­lega séð var flutningurinn yfir­leitt glæsi­legur, og því rann flutningurinn þægi­lega niður.

Svíta nr. 2 úr ballettinum um Dafnis og Klói eftir Ra­vel var líka flott. Fyrsti kafli svítunnar, Dag­renning, var á­kaf­lega tignar­legur. Í takti við yrkis­efnið var tón­listin ris­mikil, það var eins og hún hæfi sig til flugs úr djúpinu. Inn­hverfur annar kaflinn var seiðandi og hug­leiðslu­kenndur. Sá þriðji var ó­trú­lega fjörugur dans sem magnaðist upp í svo stór­feng­legan há­punkt að á­heyr­endur æptu af hrifningu.

Hljóm­sveitin var með allt á hreinu í þessari mergjuðu tón­list, hver einasti hljóð­færa­hópur skilaði sínu af fag­mennsku og krafti. Heildar­hljómurinn var þéttur og ein­beittur, gæddur alls­konar lit­brigðum og snilldar­legum til­þrifum. Eva Olli­ka­inen hélt um stjórnar­taumana af festu og öryggi; enn einu sinni sýndi hún að hún er einn besti stjórnandi sem hljóm­sveitin hefur fengið til liðs við sig.

Niður­staða: Skemmti­legir tón­leikar að mestu.