Enn einn himneskur dagur! Og annar! Og síðan enn annar … Vinní er í óða önn að láta dagana líða en það er hægara sagt en gert. Vinní er nefnilega aðþrengd eiginkona, bókstaflega. Við hittum Vinní fyrir þar sem hún er grafin upp að mitti í jörð, ófær um að hreyfa sig og ófær um að breyta einhverju í sinni tilvist eða fari. Hennar einu haldreipi í heiminum eru tuðran (gömul handtaska), sorgleg samskipti hennar við eiginmann sinn (fámáli Villý) og orðin (afar mörg). Hamingjudagar eftir Samuel Beckett voru frumsýndir hjá Leikfélagi Akureyrar fyrr í haust og eru nú búnir að grafa sig niður á Nýja sviði Borgarleikhússins.
Tímalaus og viðeigandi texti
Texti Beckett er tímalaus, sprottinn upp úr helvíti seinni heimsstyrjaldarinnar en fullkomlega viðeigandi fyrir upplausn samtímans og yfirvofandi hamfarahlýnun framtíðarinnar. Áhorfendur verða að opna sig fyrir textanum, láta orðin flæða í gegnum sig og finna eigin tengingar í texta sem er nánast ofhlaðinn túlkunarmöguleikum. Ástand Vinní er nefnilega persónulegt en að sama skapi okkar allra. Líf hennar snýst um leitina að merkingu, að rifja upp gamla tíma og að fela sig heiminum. Hún dvelur í sjálfskaparvíti en á samtímis í samfélagi þar sem hún hefur enga rödd, af þeim sökum er henni mikilvægt að tala látlaust. Vinní vill að rödd sín heyrist og þráir að einhver hlusti en hennar harmleikur er að nánast enginn gerir það, hún er hundsuð og þannig hundelt af sínum eigin hugsunum.

Afskaplega krefjandi leikrit
Edda Björg Eyjólfsdóttir fremur leikhúsgaldur í hlutverki Vinní, einu mest krefjandi hlutverki nútímaleikhúsbókmenntanna. Edda Björg flakkar á milli tilfinningasviða, ferðast gegnum tíma og finnur hið broslega í hörmungarástandi Vinní þar sem tilgangslausar en vandlega framkvæmdar athafnir hylja tilgangsleysi. Hún dregur áhorfendur til sín með einbeitinguna og persónutöfrana að vopni, svo er Vinní líka með skammbyssu. Texti Beckett lifnar við og flæðir frá henni, framsögnin er skýr og persónusköpunin nákvæm. Ekki skemmir fyrir að þýðandinn er hinn óviðjafnanlegi Beckett-túlkandi Árni Ibsen, með leiðréttingum frá Hafliða Arngrímssyni.
Hamingjudagar er afskaplega krefjandi leikrit og Beckett þekktur fyrir nákvæmar leiklýsingar. Leikstjórinn Harpa Arnardóttir lætur leiðbeiningarnar ekki aftra sér heldur nýtir tækifærið og leyfir leikritinu að blómstra, enda einn af okkar færustu leikstjórum. Árni Pétur Guðjónsson nýtur góðs af í hlutverki hins líkamlega nálæga en andlega fjarverandi Villý, sem nennir ekki að hlusta á eiginkonu sína en hlýðir henni með semingi. Lokasena Villý er þráðbeint úr ranni Hörpu, sem er í senn óhikandi táknrænn og tilfinningaþrunginn, og Árni Pétur leysir hugmyndirnar úr læðingi, hann hefur engu gleymt.
Edda Björg Eyjólfsdóttir fremur leikhúsgaldur í hlutverki Vinní, einu mest krefjandi hlutverki nútímaleikhúsbókmenntanna.
Verðum sjálf að taka ábyrgð
Ekkert er eðlilegt eða náttúrulegt í þessum hverfula heimi, Vinní segir það meira að segja sjálf. Brynja Björnsdóttir hannar leikmynd og búninga af kostgæfni. Náttúran er endursköpuð í gerviham. Hóllinn er plat og útsýnið tölvustýrt en skelfilegur veruleiki Vinní er hræðilega raunverulegur. Heimurinn þenst út í hið óendanlega á meðan hún hverfur ofan í jörðina, þyngdaraflið bjargar henni ekki heldur dauðadæmir. Hattur Vinní er með gati og fötin líkjast helst lífstykki eða spennitreyju. Tónlistarmaðurinn Ísidór Jökull Bjarnason stökk fram á sjónarviðið í Ég hleyp, líka í leikstjórn Hörpu, á síðasta leikári og sýnir hér að þroskaða tónlistar- og hljóðmyndarsköpun hans var ekki slembilukka heldur eftirtektarverðir hæfileikar sem fara óðum vaxandi. Vinní dvelur að mestu í tómi þar sem bergmál fortíðar, nútíðar og framtíðar eru ávallt í bakgrunninum. Hægt og bítandi verður bergmálið óbærilegt.
Veröldin mun ekki koma okkur til bjargar, við verðum að taka ábyrgð á okkur sjálf og afleiðingum gjörða okkar. Leikverk eftir Samuel Beckett sást síðast á íslensku sviði á vormánuðum 2015 þegar Endatafl í leikstjórn Kristínar Jóhannesdóttur rataði á fjalir Tjarnarbíós, stórkostleg sýning sem að alltof fáir upplifðu. Nú er komið kjörið tækifæri til að leiðrétta þau mistök og taka ábyrgð á fyrri mistökum, í leikhúsinu og í samfélaginu. Edda Björg er framúrskarandi í Hamingjudögum, leiksýningu sem enginn leikhúsaðdáandi ætti að láta fram hjá sér fara. Ó þetta er hamingjudagur! Og annar! Og síðan enn annar …
Niðurstaða: Hápunktur leikhúshaustsins.