Enn einn himneskur dagur! Og annar! Og síðan enn annar … Vinní er í óða önn að láta dagana líða en það er hægara sagt en gert. Vinní er nefni­lega að­þrengd eigin­kona, bók­staf­lega. Við hittum Vinní fyrir þar sem hún er grafin upp að mitti í jörð, ófær um að hreyfa sig og ófær um að breyta ein­hverju í sinni til­vist eða fari. Hennar einu hald­reipi í heiminum eru tuðran (gömul hand­taska), sorg­leg sam­skipti hennar við eigin­mann sinn (fá­máli Villý) og orðin (afar mörg). Hamingju­dagar eftir Samuel Beckett voru frum­sýndir hjá Leik­fé­lagi Akur­eyrar fyrr í haust og eru nú búnir að grafa sig niður á Nýja sviði Borgar­leik­hússins.

Tíma­laus og við­eig­andi texti

Texti Beckett er tíma­laus, sprottinn upp úr hel­víti seinni heims­styrj­aldarinnar en full­kom­lega við­eig­andi fyrir upp­lausn sam­tímans og yfir­vofandi ham­fara­hlýnun fram­tíðarinnar. Á­horf­endur verða að opna sig fyrir textanum, láta orðin flæða í gegnum sig og finna eigin tengingar í texta sem er nánast of­hlaðinn túlkunar­mögu­leikum. Á­stand Vinní er nefni­lega per­sónu­legt en að sama skapi okkar allra. Líf hennar snýst um leitina að merkingu, að rifja upp gamla tíma og að fela sig heiminum. Hún dvelur í sjálf­skapar­víti en á sam­tímis í sam­fé­lagi þar sem hún hefur enga rödd, af þeim sökum er henni mikil­vægt að tala lát­laust. Vinní vill að rödd sín heyrist og þráir að ein­hver hlusti en hennar harm­leikur er að nánast enginn gerir það, hún er hundsuð og þannig hund­elt af sínum eigin hugsunum.

Hamingju­dagar eftir Samuel Beckett voru frum­sýndir hjá Leik­fé­lagi Akur­eyrar fyrr í haust og eru nú búnir að grafa sig niður á Nýja sviði Borgar­leik­hússins.
Mynd/Aðsend

Af­skap­lega krefjandi leik­rit

Edda Björg Eyjólfs­dóttir fremur leik­hús­galdur í hlut­verki Vinní, einu mest krefjandi hlut­verki nú­tíma­leik­hús­bók­menntanna. Edda Björg flakkar á milli til­finninga­sviða, ferðast gegnum tíma og finnur hið bros­lega í hörmungar­á­standi Vinní þar sem til­gangs­lausar en vand­lega fram­kvæmdar at­hafnir hylja til­gangs­leysi. Hún dregur á­horf­endur til sín með ein­beitinguna og per­sónu­töfrana að vopni, svo er Vinní líka með skamm­byssu. Texti Beckett lifnar við og flæðir frá henni, fram­sögnin er skýr og per­sónu­sköpunin ná­kvæm. Ekki skemmir fyrir að þýðandinn er hinn ó­við­jafnan­legi Beckett-túlkandi Árni Ibsen, með leið­réttingum frá Haf­liða Arn­gríms­syni.

Hamingju­dagar er af­skap­lega krefjandi leik­rit og Beckett þekktur fyrir ná­kvæmar leik­lýsingar. Leik­stjórinn Harpa Arnar­dóttir lætur leið­beiningarnar ekki aftra sér heldur nýtir tæki­færið og leyfir leik­ritinu að blómstra, enda einn af okkar færustu leik­stjórum. Árni Pétur Guð­jóns­son nýtur góðs af í hlut­verki hins líkam­lega ná­læga en and­lega fjar­verandi Villý, sem nennir ekki að hlusta á eigin­konu sína en hlýðir henni með semingi. Loka­sena Villý er þráð­beint úr ranni Hörpu, sem er í senn ó­hikandi tákn­rænn og til­finninga­þrunginn, og Árni Pétur leysir hug­myndirnar úr læðingi, hann hefur engu gleymt.

Edda Björg Eyjólfs­dóttir fremur leik­hús­galdur í hlut­verki Vinní, einu mest krefjandi hlut­verki nú­tíma­leik­hús­bók­menntanna.

Verðum sjálf að taka á­byrgð

Ekkert er eðli­legt eða náttúru­legt í þessum hverfula heimi, Vinní segir það meira að segja sjálf. Brynja Björns­dóttir hannar leik­mynd og búninga af kost­gæfni. Náttúran er endur­sköpuð í gervi­ham. Hóllinn er plat og út­sýnið tölvu­stýrt en skelfi­legur veru­leiki Vinní er hræði­lega raun­veru­legur. Heimurinn þenst út í hið ó­endan­lega á meðan hún hverfur ofan í jörðina, þyngdar­aflið bjargar henni ekki heldur dauða­dæmir. Hattur Vinní er með gati og fötin líkjast helst líf­stykki eða spenni­treyju. Tón­listar­maðurinn Ísi­dór Jökull Bjarna­son stökk fram á sjónar­viðið í Ég hleyp, líka í leik­stjórn Hörpu, á síðasta leik­ári og sýnir hér að þroskaða tón­listar- og hljóð­myndar­sköpun hans var ekki slembi­lukka heldur eftir­tektar­verðir hæfi­leikar sem fara óðum vaxandi. Vinní dvelur að mestu í tómi þar sem berg­mál for­tíðar, nú­tíðar og fram­tíðar eru á­vallt í bak­grunninum. Hægt og bítandi verður berg­málið ó­bæri­legt.

Ver­öldin mun ekki koma okkur til bjargar, við verðum að taka á­byrgð á okkur sjálf og af­leiðingum gjörða okkar. Leik­verk eftir Samuel Beckett sást síðast á ís­lensku sviði á vor­mánuðum 2015 þegar Enda­tafl í leik­stjórn Kristínar Jóhannes­dóttur rataði á fjalir Tjarnar­bíós, stór­kost­leg sýning sem að allt­of fáir upp­lifðu. Nú er komið kjörið tæki­færi til að leið­rétta þau mis­tök og taka á­byrgð á fyrri mis­tökum, í leik­húsinu og í sam­fé­laginu. Edda Björg er fram­úr­skarandi í Hamingju­dögum, leik­sýningu sem enginn leik­húsað­dáandi ætti að láta fram hjá sér fara. Ó þetta er hamingju­dagur! Og annar! Og síðan enn annar …

Niður­staða: Há­punktur leik­hús­haustsins.