Bækur

Vængjalaus

Höfundur: Árni Árnason

Fjöldi síðna: 212

Útgefandi: Bjartur

Vængjalaus er fyrsta skáldsaga Árna Árnasonar fyrir fullorðna, en áður hafa komið út eftir hann tvær barnabækur, Friðbergur forseti og Háspenna, lífshætta á Spáni.

Sagan segir frá Baldri sem við kynnumst á tveimur æviskeiðum, annars vegar sumarið sem hann er tuttugu og tveggja ára að móta hugmyndir sínar um lífið og ástina og hins vegar tuttugu árum síðar þegar í ljós kemur hvernig atvik þess sumars hafa mótað líf hans og færni til að eiga í tilfinningalegum tengslum.

Sögusviðið er Akureyri og Feneyjar með viðkomu á flugvöllum, þar sem Baldur segir Elsu, kunningjakonu sinni, söguna af sumrinu örlagaríka. Höfundurinn er sjálfur frá Akureyri og þeir kaflar sem gerast þar eru langmest lifandi og grípandi, svo að lesandinn finnur næstum því fyrir norðlenskum andvara á andlitinu og lyktina af sveittri, dansandi mannmergð á Sjallaballi. Kaflarnir í Feneyjum eru minna spennandi og flugvellirnir eru næstum eins og dyngja soldánsins í 1001 nótt, nauðsynlegir, en lítt áhugaverðir millikaflar til að halda frásögninni spennandi. Það er einna helst að þeir nýtist til að fá mynd af Elsu og hjónabandi hennar.

Á vit fortíðar

Bókin fjallar að stærstum hluta um ástarsambönd Baldurs, hvernig hann tengist konunum í lífi sínu, hvernig hann kaupir markaðssettu hugmyndina um rómantíska ást með því að byggja alla sína drauma um ástina á sólarhrings ævintýri sem á sér enga framtíð nema í bíómyndum. Eina konan í bókinni sem fær einhvers konar þrívídd er konan úr því ævintýri, hinar eru frekar lítið spennandi, kannski helst títtnefnd Elsa, sem þó verður ósköp litlaus í samanburði.

Gaman er að geta þess að þó ballið í sögunni sé með SSSól eru allavega tvær tilvitnanir í Sálina hans Jóns míns, annars vegar er sjálfur titill bókarinnar, Vængjalaus, sóttur í lag með Sálinni og svo heitir draumakonan dularfulla Auður, sem er undarleg, eins og allir vita. Titill Vængjalaus vísar til þess að söguhetjan Baldur er í raun í frjálsu falli eftir að hann hittir hana þar til hann að lokum flýgur á vit fortíðar til að reyna að ná tökum á lífi sínu.

Það má segja að bókin fjalli um samband okkar við fortíðina sem í endurliti innsiglar ákveðna drauma sem nútíminn á ekki möguleika á að láta rætast og stenst engan samanburð við.

Nostalgísk ástarsaga

Á yfirborðinu er Vængjalaus eins konar nostalgísk ástarsaga, en hana má líka lesa sem sögu um mann sem hefur aldrei náð sér eftir að eldri kona kom inn í líf hans og svipti hann ákveðnu sakleysi, reynsla sem hún síðan notar til að móta sitt líf og sína list á meðan hann á ekki möguleika á að eiga í eðlilegum samskiptum upp frá því. Ef skipt yrði um kyn á aðalpersónunum yrði niðurstaðan mögulega ekki sú að um ástarsögu væri að ræða.

Það má segja að bókin fjalli um samband okkar við fortíðina sem í endurliti innsiglar ákveðna drauma sem nútíminn á ekki möguleika á að láta rætast og stenst engan samanburð við.

Þannig verður ferðalag Baldurs til fortíðar líka ferð til uppgjörs, hversu mikið fortíðin á rétt á að stjórna nútíðinni og hvernig er best að taka líf sitt til baka.

Niðurstaða: Vængjalaus er ljúf og auðmelt ástarsaga á yfirborðinu sem undir yfirborðinu snertir þó við stærri spurningum um ást, þráhyggju, eigingirni og endurheimt.