Leik­hús

Hríma

Tjarnar­bíó

Leikarar: Al­dís Davíðs­dóttir og Þór­ey Birgis­dóttir

Leik­stjórn: Ágústa Skúla­dóttir og Orri Huginn Ágústs­son

Hand­rit: Ágústa Skúla­dóttir og Orri Huginn Ágústs­son á­samt Al­dísi Davíðs­dóttur og Þór­eyju Birgis­dóttur.

Grímu­gerð: Al­dís Davíðs­dóttir

Leik­mynd: Auður Ösp Guð­munds­dóttir og Högni Sigur­þórs­son

Búningar: Auður Ösp Guð­munds­dóttir

Lýsing: Ólafur Örn Stefáns­son

Tón­list og hljóð­hönnun: Sæ­var Helgi Jóhanns­son

Hríma býr ein í hrör­legu koti, hokin af elli og leyndum harmi. Hún lætur dagana líða með dag­legu amstri og endur­teknum verk­efnum. Draugar for­tíðarinnar á­sækja þó Hrímu og dular­full orka vofir yfir henni en þegar ó­væntan gest ber að garði neyðist hún til að horfast í augu óttann. Sýningin, sem ber nafn aðal­sögu­hetjunnar, var frum­sýnd í Tjarnar­bíói síðast­liðinn sunnu­dag en leik­árið er hafið með fullum krafti í leik­húsinu við Tjörnina.

Al­dís Davíðs­dóttir er í aðal­hlut­verki Hrímu en hún átti einnig upp­haf­legu hug­myndina að sýningunni og gerir grímurnar, sem eru lista­verk út af fyrir sig. Sýningin er þó unnin í sam­sköpun, bæði þegar kemur að hand­riti og leik­stjórn. Hér er á ferðinni sami hópur og kom að Hetju á síðasta leik­ári sem var heillandi heil­grímu­sýning um dauð­vona barn og starfs­fólk á spítala þar sem per­sónurnar spruttu fram ljós­lifandi. Því miður tekst ekki jafn vel til að þessu sinni.

Fram­vindan fellur flöt

Reynsla Hrímu er saga allt of margra kvenna sem beittar hafa verið of­beldi, Hríma flýr sam­fé­lagið en tekst ekki að flýja sjálfa sig. En fram­vindan fellur fremur flöt. Á­stæðurnar eru nokkrar. Til að byrja með er sögu­þráðurinn næfur­þunnur og snúið að koma til skila án orða. Hér má velta fyrir sér hvort of margir kokkar séu að störfum í litla kofanum. Fjórir höfundar eru skrifaðir fyrir hand­ritinu en engum þeirra tekst að kynda í ofninum. Hvorki Hríma né boð­flennan, leiknar lipur­lega af Al­dísi og Þór­eyju Birgis­dóttur, lifna við sem full­skapaðar mann­eskjur og fléttu­lausnin er með ein­faldasta móti.

Leik­stjórarnir eru tveir, Ágústa Skúla­dóttir og Orri Huginn Ágústs­son. Eins og áður hefur komið fram er sýningin án orða, þá er mikil­vægt að list­ræn um­gjörð styðji við sýninguna með af­gerandi hætti, skreyti söguna og beri sterk list­ræn ein­kenni. En allt kemur fyrir ekki. Hríma paufast fal­lega í sínu smáa rými en fyllir það sjaldan, leikurinn verður að vera stærri og líkams­beitingin í­burðar­meiri. Sum at­riði verða þannig of löng og innra drama sýningarinnar veikist.

Grímu­leik­hús er heillandi list og vonandi fá á­horf­endur að sjá meira frá þessum for­vitni­lega hópi.

Upp­gjör kvenna við for­tíðina

Leik­mynda- og búninga­hönnun Auðar Aspar Guð­munds­dóttur er dugandi en sjaldan eftir­minni­leg. Undan­tekningin er þó morgun­verðarapparatið, leik­munur sem sýnir hvernig er hægt að fylla þögnina og söguna með leik­hús­töfrum. Sömu­leiðis er tón­list og hljóð­hönnun Sæ­vars Helga Jóhannes­sonar ljúf en ekki af­gerandi.

Um þessar mundir má sjá tvær sýningar í höfuð­borginni um upp­gjör eldri kvenna við for­tíðina. Þessar sögur eru sam­fé­laginu mikil­vægar en sögu­lega séð hafa þær ekki verið taldar sér­stak­lega eftir­tektar­verðar. Grímu­leik­hús er heillandi list og vonandi fá á­horf­endur að sjá meira frá þessum for­vitni­lega hópi. En listi­lega vel gerðar grímur og á­gætur leikur dugar ekki til að skapa heila sýningu þegar bæði sagan og list­ræn fram­setning eru ekki sterkari.

Niður­staða: Fá­brotin saga sem þarf kraft­meiri list­ræna um­gjörð.