Ég sat við hliðina á litlum dreng sem virtist lifa sig inn í tón­leik­húsið Skemmti­legt er myrkrið. Það var sýnt í Kalda­lóni í Hörpu síðasta laugar­dag og var eftir Elínu Gunn­laugs­dóttur. Sum at­riðin voru að vísu þannig að drengurinn varð hræddur, en svo birti til og sagan hlaut far­sælan endi.

Verkið var pantað af Töfra­hurð. Það er fé­lag um starf­semi sem er helguð tón­leikum og út­gáfu og hefur að mark­miði að opna heim tón­listarinnar, bæði ný verk og gömul, fyrir börnum. Hér var blandað saman tón­list, leik og dansi, og var verkið unnið með List­dans­skóla Ís­lands. Fjórar ungar stúlkur dönsuðu og gerðu það af á­hrifa­miklum yndis­þokka.

Per­sónur verksins eru tvær, Ása Sig­ný og frændi hennar, Jón Árni.
Mynd/Eyþór Árnason

Vel dul­búnir

Þrír hljóð­færa­leikarar spiluðu á píanó, slag­verk og selló, og ýmis­legt annað á borð við sleifar, lang­spil og dótapíanó. Þeir eru þekktir úr tón­listar­lífinu, en voru svo vel dul­búnir í kostu­legum klæðum að þeir voru nánast ó­þekkjan­legir. Þetta voru þau Matt­hildur Anna Gísla­dóttir, Frank Aarnink og Sigurður Hall­dórs­son.

Til að höfða til barnanna var sagan skondin, og ó­fáir brandarar flugu. Per­sónurnar voru tvær, Ása Sig­ný og frændi hennar, Jón Árni. Í þeim mættust gamall heimur og nýr. Frændinn trúði á drauga og for­ynjur en Ása Sig­ný ekki á neitt. Yfir­skil­vit­legir at­burðir í sögunni, leikur álfa og huldu­fólks, dansandi nykur og hvað­eina, gerði þó að verkum að hún þurfti að endur­skoða af­stöðu sína.

Tón­listin var á­gæt­lega heppnuð. Hún var mjög rytmísk til að byrja með, jafn­vel hörku­leg á fremur ein­strengings­legan hátt.

Flippaður hryllingur

Drauga­gangurinn var skemmti­lega út­færður. Stúlkurnar úr List­dans­skólanum léku t.d. nykurinn, sem er huldu­hestur með öfuga hófa. Hann var dá­lítið hroll­vekjandi á flippaðan hátt: út­koman var annar­leg en um leið fyndin. Leik­myndin var líka mögnuð og gerði að verkum að maður datt enn betur inn í söguna.

Textar söng­laganna saman­stóðu af gömlum vísum og ljóðum, en texti loka­lagsins var þó saminn sér­stak­lega fyrir verkið af Þór­arni Eld­járn. Tón­listin var á­gæt­lega heppnuð. Hún var mjög rytmísk til að byrja með, jafn­vel hörku­leg á fremur ein­strengings­legan hátt. Maður saknaði þess að fá ekki að heyra meira af grípandi lag­línum. Það eru jú melódíurnar sem höfða svo til barnanna, eins og ó­teljandi barna­lög eru til vitnis um.

Drauga­gangurinn var skemmti­lega út­færður og leik­myndin líka mögnuð.
Mynd/Eyþór Árnason

Mætti vera fyrir­ferðar­meiri

Að­eins í einu at­riðinu fékk ljóð­rænan að njóta sín, það var fagur söngur við framandi undir­leik og kom prýði­lega út. Engu að síður var tón­listin í heild á­heyri­leg og flott á sinn hátt, og hún var líka mjög vel flutt, af skýr­leika og ná­kvæmni.

Ása Sig­ný og Jón Árni voru leikin af Ástu Sig­ríði Árna­dóttur sópran og Jóni Svavari Jósefs­syni baríton. Þau voru sann­færandi í leiknum og söngurinn var fram­bæri­legur. Söngur hljómar aldrei mjög vel í Kalda­lóni vegna hljóm­burðarins, sem er á­kaf­lega þurr. En það sem á vantaði í sönginn bættu leikararnir upp með ærsla­fengnum leik og manni leiddist aldrei, heldur þvert á móti.

Niður­staða: Líf­legt tón­leik­hús sem féll greini­lega í kramið hjá börnunum.