Í doktors­rit­gerðinni From Gender Only to Equ­ality for All frá 2012 fjallar doktor Þor­gerður H. Þor­valds­dóttir um út­víkkun jafn­réttis­hug­taksins og þróun í jafn­réttis­starfi og orð­ræðu frá á­herslu á jafn­rétti kynjanna yfir í jafn­rétti ýmissa minni­hluta­hópa og marg­þætta mis­munun. Þar er því haldið fram að æski­legt sé að út­víkka jafn­réttis­hug­takið því kynja­jafn­rétti náðist ekki án þess að tekið væri á mis­rétti sem byggðist á stétt, kyn­þætti, kyn­hneigð, aldri og fötlun.

Síðan þá hefur hug­myndin um jafn­rétti fyrir alla náð fót­festu og kallað á sjálfs­skoðun flestra kima sam­fé­lagsins þar sem greina þarf mis­rétti sem er inn­byggt í hefðir og hugsun okkar og hvernig hægt er að brjóta upp gömul við­horf og hugsana­mynstur. Hug­takið inn­gilding hefur meðal annars verið notað til að skoða þessa þætti og spurt hefur verið: Hver er hér og hver er ekki hér? Um­ræðan um inn­gildingu hefur meðal annars verið sterk innan sviðs­lista eins og sést á ný­af­stöðnu Reykja­vík Dance Festi­val. Það er þó ekki í fyrsta skipti í ár sem það er gert heldur hefur nýjum og fjöl­breyttari hópum verið boðið á svið undan­farin ár.

Í skipu­lagi og efnis­vali Reykja­vík Dance Festi­val sem haldin var dagana 16.-20. nóvember 2022, var við­teknum hug­myndum um hverjir eiga rödd og líkama á sviði í dans­verkum ögrað. Líkam­lega fötluðum var gert hátt undir höfði en tvö af aðal­verkum há­tíðarinnar voru dönsuð af fötluðum ein­stak­lingum. Í öllu kynningar­efni var líka tekið sér­stak­lega fram hvernig að­staða fyrir fatlaða væri en greini­legt var að lagður hefur verið metnaður í að hafa alla við­burði að­gengi­lega fyrir hjóla­stóla sem og að­gengi­lega salernis­að­stöðu.

Í verkinu Gentle Unicorn leikur dansarinn og danshöfundurinn Chiara Bersani sér með goðsögnina um einhyrninginn.
Mynd/Owen Fiene

Hannah Felicia

Lítið hefur farið fyrir dans­höfundinum Láru Stefáns­dóttur undan­farin ár. Það var því kær­komið að sjá aftur verk eftir hana á sviði. Verkið Hannah Felicia var samið fyrir tvo af dönsurum dans­flokksins Spinn sem er sænskur at­vinnu­dans­flokkur skipaður fötluðum og ó­fötluðum ein­stak­lingum. Dans­verkið var hreint og hlýtt. Það var á­ferðar­fal­legt en vantaði að­eins upp á spennu. Samdans dansaranna var flæðandi og endur­speglaði mest væntum­þykju og ró. Sú stað­reynd að annar þeirra gat ekki staðið í fæturna gerði sam­spil dansaranna síður en svo á­hrifa­minna.

Það komu líka skemmti­leg andar­tök þar sem hjóla­stóllinn tók sér stöðu sem þriðji sýnandinn. Sviðs­myndin og búningarnir voru tærir, rauður gólf­dúkur, búningar á litinn eins og sápu­kúlur og lýsing sem undir­strikaði á skýran hátt það sem var að gerast á sviðinu. Tón­list Högna Egils­sonar, á­gæt­lega samin, náði þó ekki nægri tengingu við annað sem var að gerast á sviðinu og naut sín því ekki sem skyldi. Sú tón­list hefði betur átt við annan dans og þessi dans þarfnaðist að­eins annarrar tón­listar.

Sýningarnar Hannah Felicia og Gent­le Unicorn sýna á­horf­endum fegurð fjöl­breyti­leikans.

Gent­le Unicorn

Líkaminn sem lá á sviði Kassa Þjóð­leik­hússins þegar á­horf­endur gengu í salinn til að horfa á verkið Gent­le Unicorn átti ekki margt skylt við svífandi ballerínur eða unga kröftuga virtúósa hefð­bundinna dans­flokka. Chiara Bersani er bundin hjóla­stól og getur því ekki gengið, hlaupið né dansað um sviðið fimum fótum. Hún getur aftur á móti skriðið um og hreyft bæði hendur og fætur á fín­legan og á­hrifa­mikinn hátt. Sviðssjarmi hennar er mikill. Chiara náði að tengja við á­horf­endur og fá þá til að þykja vænt um sig þar sem hún í hlut­verki ein­hyrnings ferðast um í leit að vin­áttu og ná­lægð. Endirinn á verkinu er ó­væntur og gefur því nýja vídd. Verkið er jafn ævin­týra­legt og þjóð­sagna­dýrið sjálf, ein­hyrningurinn. Því var hvíslað að mér að það yrði bara á­hrifa­meira eftir því sem maður sæi það oftar.

Niður­staða: Sýningarnar Hannah Felicia og Gent­le Unicorn sýna á­horf­endum fegurð fjöl­breyti­leikans. Að semja dans­verk er skapa list úr hreyfingum.