Háskólanemar voru í prófum þegar bandaríska stórstjarnan Khalid steig á svið í Laugardalshöll á sólríku miðvikudagskvöldi í byrjun maí. Þar með var markhópurinn fjarri góðu gamni þegar hinn margverðlaunaði popptenór söng lagið 8Teen, sem fjallaði um að vera átján ára, fyrir réttum fimm árum síðan.

Nafnið KHALID birtist í hástöfum á sviðinu. Hljóðfæraleikarar stilltu sér upp og söngvarinn hóf upp raustina undir flutningi lítillar hljómsveitar.

Næst mættu átta dansarar sem hefðu alveg verið peninganna virði án stórstjörnunnar. Þvílík sýning, sem þó augljóslega var hönnuð fyrir margfalt stærra svið. Hljóðið var líka vel heppnað þó að kerfið hafi kvartað örlítið undan þyngstu bassalínunum.

Um miðbik tónleika dró Khalid stól út á mitt svið, flutti ballöðu og talaði næst við salinn, hógvær, auðmjúkur og þakklátur fyrir að vera loksins kominn til Íslands, eftir ítrekaðar frestanir. Meðal hápunkta var hið silkimjúka Better og dúettinn Lovely, sem sló eftirminnilega í gegn árið 2018, í flutningi Khalid og Billie Eilish. „Þetta er í fyrsta sinn sem ég flyt þetta lag einn,“ sagði hann við salinn.

Hann var þó ekki alveg einn. Hinir ungu tónleikagestir sungu með þessari töfrandi ballöðu og hljómuðu eins og barnakór. Það féllu nokkur tár á því augnabliki. Einlægu kynslóðinni er ekki alls varnað.

Margfrestaðir og langþráðir stórstjörnutónleikar. Tímasetningin hefði mátt vera betur heppnuð og kannski upphitunin líka. Þrátt fyrir það fór útkoman langt fram úr væntingum.

Niðurstaða: Hver einasti gestur söng af innlifun með Young Dumb & Broke og fyrrnefndu 8Teen, andrúmsloftið iðaði af spennu og fiðringi og að kvöldinu loknu efaðist ekki nokkur manneskja um að tónleikasumarið væri hafið.