Jónas Reynir Gunnars­son vakti fyrst at­hygli þegar hann fyrir fimm árum geystist fram á rit­völlinn með tvær ljóða­bækur og eina skáld­sögu sem allar fengu af­bragðs­við­tökur og viður­kenningar, meðal annars Bók­mennta­verð­laun Tómasar Guð­munds­sonar. Kákasus­gerillinn er sjöunda bók hans á fimm árum en síðasta skáld­saga hans Dauði skógar sem kom út 2020 var til­nefnd til Ís­lensku bók­mennta­verð­launanna og Bók­mennta­verð­launa Evrópu­sam­bandsins.

Tvær aðal­per­sónur

Kákasus­gerillinn gerist á tvennum tímum og sjónar­hornið er al­farið hjá tveimur aðal­per­sónum, Báru og Ei­ríki. Bára er hel­tekin af því hvernig manneskjan reynir að hafa á­hrif á sig og upp­lifun sína af heiminum með því að breyta skynjun sinni með því sem hún inn­byrðir en líka hvernig það sem okkur er nauð­syn­legt til að lifa af getur líka verið okkur hættu­legt. Hún vinnur í huganum að gerð hlað­varps­þáttanna Eitur í flösku þar sem hún notast við skil­greiningu Paracelsusar á því að allt geti verið eitur, það er bara magnið sem skiptir máli. Á meðan tengist hún ekki lífinu sem líður til­breytingar­lítið hjá og allar fyrir­ætlanir hennar um fram­tíð hag­ræða sér smám saman á hakanum og sofna þar.

Ei­ríkur skoðar til­veruna á annan hátt, gegnum mynda­vélar­linsu þar sem hann leitast við að festa raun­veru­leikann og lífið í ein­hvers konar sam­hengi þar sem honum finnst það ekki upp­fylla væntingar sínar. Þannig verða líf þeirra Báru og Ei­ríks að hlið­stæðum, hún er upp­tekin af því hvernig við erum smám saman að drepa okkur á því eitri sem lífið er á meðan hann reynir í ör­væntingu að frysta lífið eða alla vega hluta af því en daðrar jafn­framt við hug­myndina um nirvana, upp­ljómum og lausnir á þeirri ó­bæri­legu upp­lifun sem það er að vera til. Til sögunnar eru síðan kynnt tvö efni sem eiga að geta breytt lífinu til hins betra á af­gerandi hátt, annars vegar hug­víkkandi körtu­mjólk frá Mexíkó og hins vegar kákasus­gerill sem var um tíma ræktaður á öðru hverju heimili landsins og átti að vera allra meina bót.

Það er ekki skortur á hug­myndum og vanga­veltum í Kákasus­gerlinum og stærstu til­vistar­spurningarnar eru undir, um skynjun og skort, fíkn og nánd, tengsl og til­gang, líf og dauða.

Stórar til­vistar­spurningar

Það er ekki skortur á hug­myndum og vanga­veltum í Kákasus­gerlinum og stærstu til­vistar­spurningarnar eru undir, um skynjun og skort, fíkn og nánd, tengsl og til­gang, líf og dauða. Þessar vanga­veltur eru viljandi frekar klínískar, per­sónurnar vekja ekki nægi­legan á­huga eða sam­úð til að ör­lög þeirra skipti lesandann máli, undir­liggjandi hjá Báru er ein­hvers­konar tóm­hyggja og til­gangs­leysi á meðan Ei­ríkur gerir ör­væntingar­fullar til­raunir til að skilja og finna til­gang en hefur ekki erindi sem erfiði. Í lokin verður þó ein­hvers konar lausn og við vitum að að minnsta kosti annað þeirra tengist lífinu með öllum sínum hvers­dags­legu gleði og sorgum.

Kákasus­gerillinn er bók til að lesa hægt og/eða oft til að ná að tengja við marg­laga textann. Og svo er ekkert víst að allir tengi og það er líka allt í lagi.

Niður­staða: Djúpar og marg­laga pælingar um skynjun, líf og dauða.