Jónas Reynir Gunnarsson vakti fyrst athygli þegar hann fyrir fimm árum geystist fram á ritvöllinn með tvær ljóðabækur og eina skáldsögu sem allar fengu afbragðsviðtökur og viðurkenningar, meðal annars Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar. Kákasusgerillinn er sjöunda bók hans á fimm árum en síðasta skáldsaga hans Dauði skógar sem kom út 2020 var tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna og Bókmenntaverðlauna Evrópusambandsins.
Tvær aðalpersónur
Kákasusgerillinn gerist á tvennum tímum og sjónarhornið er alfarið hjá tveimur aðalpersónum, Báru og Eiríki. Bára er heltekin af því hvernig manneskjan reynir að hafa áhrif á sig og upplifun sína af heiminum með því að breyta skynjun sinni með því sem hún innbyrðir en líka hvernig það sem okkur er nauðsynlegt til að lifa af getur líka verið okkur hættulegt. Hún vinnur í huganum að gerð hlaðvarpsþáttanna Eitur í flösku þar sem hún notast við skilgreiningu Paracelsusar á því að allt geti verið eitur, það er bara magnið sem skiptir máli. Á meðan tengist hún ekki lífinu sem líður tilbreytingarlítið hjá og allar fyrirætlanir hennar um framtíð hagræða sér smám saman á hakanum og sofna þar.
Eiríkur skoðar tilveruna á annan hátt, gegnum myndavélarlinsu þar sem hann leitast við að festa raunveruleikann og lífið í einhvers konar samhengi þar sem honum finnst það ekki uppfylla væntingar sínar. Þannig verða líf þeirra Báru og Eiríks að hliðstæðum, hún er upptekin af því hvernig við erum smám saman að drepa okkur á því eitri sem lífið er á meðan hann reynir í örvæntingu að frysta lífið eða alla vega hluta af því en daðrar jafnframt við hugmyndina um nirvana, uppljómum og lausnir á þeirri óbærilegu upplifun sem það er að vera til. Til sögunnar eru síðan kynnt tvö efni sem eiga að geta breytt lífinu til hins betra á afgerandi hátt, annars vegar hugvíkkandi körtumjólk frá Mexíkó og hins vegar kákasusgerill sem var um tíma ræktaður á öðru hverju heimili landsins og átti að vera allra meina bót.
Það er ekki skortur á hugmyndum og vangaveltum í Kákasusgerlinum og stærstu tilvistarspurningarnar eru undir, um skynjun og skort, fíkn og nánd, tengsl og tilgang, líf og dauða.
Stórar tilvistarspurningar
Það er ekki skortur á hugmyndum og vangaveltum í Kákasusgerlinum og stærstu tilvistarspurningarnar eru undir, um skynjun og skort, fíkn og nánd, tengsl og tilgang, líf og dauða. Þessar vangaveltur eru viljandi frekar klínískar, persónurnar vekja ekki nægilegan áhuga eða samúð til að örlög þeirra skipti lesandann máli, undirliggjandi hjá Báru er einhverskonar tómhyggja og tilgangsleysi á meðan Eiríkur gerir örvæntingarfullar tilraunir til að skilja og finna tilgang en hefur ekki erindi sem erfiði. Í lokin verður þó einhvers konar lausn og við vitum að að minnsta kosti annað þeirra tengist lífinu með öllum sínum hversdagslegu gleði og sorgum.
Kákasusgerillinn er bók til að lesa hægt og/eða oft til að ná að tengja við marglaga textann. Og svo er ekkert víst að allir tengi og það er líka allt í lagi.
Niðurstaða: Djúpar og marglaga pælingar um skynjun, líf og dauða.