Leikhús
Hetja
Tjarnarbíó
Leikhópurinn Skýjasmiðjan kom fyrst fram á sjónarsviðið fyrir tæpum áratug með leiksýninguna Hjartaspaðar sem fjallaði um uppátæki eldri borgara á dvalarheimili. Í Hetju færa þau sig örlítið um stað og sýningin var frumsýnd í Tjarnarbíó fyrir nokkru síðan. Unglæknir hefur störf á spítala.
Hennar bíða flókin verkefni, síbreytilegt starfsumhverfi, starfsfólk af öllum gerðum og sjúklingar sem berjast fyrir lífi sínu.
Skýjasmiðjan sérhæfir sig í svokölluðum heilgrímuleik. Allir leikarar bera grímur sem ná yfir allt höfuðið. Leikurinn er þannig nánast án orða. Persónurnar eru dregnar upp með afgerandi persónueinkennum, Hreyfingamynstur karakteranna og andrúmsloft sýningarinnar er aflíðandi. Leikhópurinn í heild sinni kemst mjög vel frá látbragðsleiknum.
Þau vinna saman sem ein heild líkt og starfsteymi á spítala, hver hreyfing úthugsuð og hugsa nánast sem ein manneskja. Mjög forvitnileg og áhugaverð innspýting í íslenskt leikhúslíf.
Stingandi frávik
Ágústa Skúladóttir fer mjúkum höndum um sögur persónanna sem arka á göngum spítalans og dvelja innan veggja hans. Hún og leikhópurinn standa að handritinu sem heppnast ágætlega. Mismunandi sviðsmyndir af spítalalífinu eru dregnar upp og litlar sögur birtast áhorfendum, ástin blómstrar og dægradvölin er stundum frumleg.
Stóru sögunni um langveika barnið er lokað af kunnáttu en aðra hnúta mætti hnýta betur, til dæmis um möguleg veikindi eldri læknisins. Heimurinn sem birtist áhorfendum í Hetju er viðkvæmur og smíðaður af natni. Fyrir utan eitt stingandi frávik. Dansatriðið undir lokin er fjörugt og væntanlega ætlað til að létta andrúmsloftið en er algjörlega á skjön við heildarmyndina.
Uppbrot sem virkar alls ekki og atriði sem þyrfti að fjúka. Sérstaklega þegar nístandi fallega lokaatriðið kemur strax í kjölfarið.
Leikandi vorvindur
Listræn umgjörð Aldísar Davíðsdóttur sem hannar leikmynd og búninga er virkilega vel heppnuð. Sviðið er afmarkað bæði til hliðanna og á dýptina, þannig færast persónurnar nær áhorfendum. Miðpunkturinn er síðan hurð fyrir miðju sviðsins sem ferjar persónur og leikmuni á milli atriða. Aldís er sömuleiðis heilinn og hendurnar á bakvið grímuhönnunina.
Grímurnar eru listasmíð og hver annarri fallegri. Ljóslifandi persónur og föndrað við smáatriði. Þegar orðin eru fá skiptir tónlistin öllu máli. Mikið veltur því á Eggert Hilmarssyni og Sigurjóni Sigurðssyni sem semja tónlistina. En þeir leysa verkefnið listilega vel úr hendi með ljúfum tónaheimi, endurtekningum í stefjum og kómískum innskotum.
Skýjasmiðjan kemur eins og leikandi vorvindur með sýningu fulla af kærleika. Aðstandendur Hetju bera á borð sýningu sem snertir hjartastrengina og sýna að nóg pláss er fyrir fjölbreytni í sviðslistum á Íslandi. Vonandi þurfa áhorfendur ekki að bíða aftur í nærri áratug til að sjá næstu sýningu. ■