The Northman

Leikstjórn: Robert Eggers:

Aðalleikarar: Alexander Skarsgård, Nicole Kidman, Claes Bang og Anya Taylor-Joy

Robert Eggers hefur stimplað sig inn á síðustu árum sem metnaðarfullur leikstjóri sem geðjast ekki öllum. Síðustu myndir hans, The Witch og The Lighthouse, lögðust ýmist vel í fólk eða hreinlega alls ekki, án nokkurs millivegar. Nýjasta útspil Eggers, The Northman, hefur þó verið tekið betur af áhorfendum enda er frekar erfitt að missa marks þessa dagana þegar sexí víkingar sem eru úr að ofan eru annars vegar.

Myndin segir frá víkingaprinsinum Amlóða sem verður vitni að morði föður síns af hendi frænda síns, Fjölnis. Amlóði sver þess eið að ná fram hefndum en endar á áralöngum flækingi meðal berserkja þar sem hann virðist hafa glatað tilgangi sínum. Hann heldur til Íslands í vígahug eftir að hann fregnar að Fjölnir sé þar niðurkominn en hefndarþorstinn dvín þegar hann verður ástfanginn af ambáttinni Olgu. Við taka sjóðheitar ástir og blóðsúthellingar innan um jarðhræringar og dulspeki. Jeminn!

Sagan er í sjálfu sér bara klassísk Hamlet-hefndarræma í víkingagalla. Persónurnar eru ekki dýpri en þær þurfa að vera og allar söguflækjur leysast á frekar fyrirsjáanlegan hátt. Þrátt fyrir að áhorfandinn myndi ekkert sérstaklega djúpa tengingu við aðalpersónurnar eru leikararnir þó nægilega góðir til að hreyfa við manni.

Handritið er sum sé ekki flókið en það þjónar tilgangi sínum og það er allt í góðu lagi með það. Þetta er bara þannig mynd. The Northman er nefnilega stórkostlegt sjónarspil þar sem ekkert er til sparað. Tæknibrellurnar eru vel útfærðar og drekkja ekki áhorfandanum heldur fá glæsilegar sviðsmyndir og búningar að njóta sín. Tónlistin er síðan naglinn í kistu umræðunnar um hvort það sé þess virði að sjá myndina í bíó eða ekki. Það er svo auðvitað gaman að sjá framlag Íslendinga landfræðilega og í listafólki.

Á heildina litið er The Northman ágætis mynd í stórkostlegri umgjörð sem skilur ekki jafnmikið eftir sig og fyrri myndir Eggers.

Niðurstaða: Ágætis mynd í stórbrotinni umgjörð. Sjónarspilið er bíómiðans virði.