Ég er ekki viss um að fólk standi upp í Halle­lúja-kaflanum í Messíasi eftir Händel vegna þess að kóngur þurfti að pissa.

Sú saga er til um Geor­ge II. að hann hafi þurft svo mikið að komast á klósettið þegar Messías var fluttur að hann hafi staðið upp á vit­lausum stað. Það var í Halle­lúja­kaflanum, en þá var verkið samt ekki búið. Þegar kóngurinn stóð upp þá risu allir á fætur. Síðan þá spretta allir upp þegar Halle­lúja­kaflinn hefst.

Sann­leikurinn er sá að enginn veit af hverju fólk rís úr sætum sínum á þessum tíma­punkti í tón­listinni. Fólk reis oft úr sætum þegar kraft­miklir kór­kaflar byrjuðu í á­móta tón­smíðum í gamla daga. Senni­legast er það bara vegna þess hversu tón­listin er flott og tignar­leg. Hvað myndi maður ekki gera ef himnarnir opnuðust og sjálfur Guð al­máttugur opin­beraði dýrð sína?

Enginn reis á fætur

Aldrei þessu vant reis þó enginn á fætur í Eld­borg í Hörpu á sunnu­daginn. Halle­lúja­kaflinn var engu að síður prýði­legur í flutningi Mótettu­kórsins og Al­þjóð­legu barokk­sveitarinnar í Reykja­vík undir öruggri stjórn Harðar Ás­kels­sonar. En hann var fín­legri en maður hefur oft upp­lifað. Hljóm­sveitin spilaði á svo­kölluð barokk­hljóð­færi, sem eru eldri gerðir nú­tíma­hljóð­færa. Hljómurinn í þeim er mildari, og í sumum til­fellum mjórri. Kórinn var líka ekkert sér­lega stór, svo heildar­á­ferðin var ekki eins voldug og oft áður.

Messías er svo­kölluð óratóría, en það er trúar­legt tón­verk þar sem helgi­texti er settur í tón­rænan búning frá­sagnar og hug­leiðingar. Í Messíasi er hug­leitt hvernig mann­kynið frelsaðist fyrir son Guðs. Tón­listin er þó engin helgi­slepja, þvert á móti á hún margt sam­eigin­legt með óperum. Í henni eru aríur, söng­les og kór­at­riði, og það er gjarnan mikið drama í frá­sögninni.

Í það heila var Messías skemmti­legur, flutningurinn var fullur af and­stæðum, allt frá hams­lausum til­finninga­sprengjum niður í ofur veikar, inn­hverfar hug­leiðingar.

Fínir ein­söngvarar

Túlkunin á sunnu­daginn var líf­leg. Hljóm­sveitin spilaði lang­oftast af öryggi og ein­söngvararnir voru frá­bærir. Það var unaður að hlusta á sópran­söng­konuna Berit Nor­­bakken. Frammi­staða kontra­tenórsins Alex Potter var líka að­dáunar­verð, og sömu sögu er að segja um tenórinn Elmar Gil­berts­son og bassann Odd A. Jóns­son.

Söngur kórsins kom á­gæt­lega út. Mótettu­kórinn fagnar fjöru­tíu ára af­mæli um þessar mundir. Hingað til hefur undir­ritaður bara heyrt hann í Hall­gríms­kirkju. Gaman var að hlýða á hann í Eld­borginni. Hall­gríms­kirkja er mjög gallað tón­leika­hús, endur­ómurinn þar er svo mikill. Hérna naut fagur kór­söngurinn sín til fulls, hann var bæði tær og glæsi­legur.

Í það heila var Messías skemmti­legur, flutningurinn var fullur af and­stæðum, allt frá hams­lausum til­finninga­sprengjum niður í ofur veikar, inn­hverfar hug­leiðingar. Tón­leikarnir voru þó ógnar­lega langir, heilir þrír tímar með hléi. Messías er oft fluttur ei­lítið styttur, og hefði að ó­sekju mátt gera það hér. Það hefði gert góða tón­leika enn betri.

Niður­staða: Messías eftir Händel var magnaður.